19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3854)

409. mál, Iðnlánasjóður

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara sem skýrist einfaldlega af því að ég ákvað á seinustu stundu að flytja brtt., gera svolitla bragarbót á frv.

Ég þekki þetta mál frá gamalli tíð. Það var stundum til umræðu í þeirri ríkisstjórn sem ég átti seinast sæti í. Auðvitað er eitt ákvæði þessa frv. hæpnara en önnur. Það er það ákvæði að verði tjónadeildin við Iðnlánasjóð fyrir verulegum skakkaföllum þannig að greiðslur tjónabóta fari langt umfram efni deildarinnar, varasjóður dugi ekki til, beri að greiða það sem á vantar úr Ríkisábyrgðasjóði skv. b-lið 3. gr.

Ríkisábyrgðasjóður er auðvitað ekkert annað en ríkissjóður. Það er því ljóst að ef þarna yrði um stóráföll að ræða, sem alltaf getur orðið, er einfaldlega verið að vísa beint í ríkissjóð að jafna tapið ef svo skyldi fara. Þetta er kannske óhjákvæmilegt og hefur raunar alltaf verið gert ráð fyrir því að ríkissjóður væri baktryggjandi deildarinnar, en það er þó tvímælalaust sérkenni við þetta frv. umfram þau frumvörp sem áður hafa verið í gangi varðandi þetta mál að fjmrh. hefur ekki úrslitaáhrif á hvaða áhætta er tekin eða hverjar iðgjaldagreiðslurnar eru. Er því ljóst að ríkissjóður yrði látinn taka þarna verulega mikla áhættu án þess að fjmrh. hafi þar úrslitaáhrif á.

Þetta mál er búið að vera að velkjast lengur en svo í kerfinu að hægt sé að una því að það verði ekki afgreitt. Ég er því eindregið hlynntur að málið verði afgreitt og styð frv. þrátt fyrir þessa vankanta, en ákvað á seinustu stundu að flytja brtt. sem dregur svolítið úr þeirri áhættu sem ríkissjóður tekur í þessu sambandi vegna þess að þar er gert ráð fyrir því að það eigi að mynda varasjóð um leið og starfsemi deildarinnar fer af stað og stefna að því að varasjóðurinn nemi 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma. Þetta er viðbótin í fyrri brtt. og hlýtur að sjálfsögðu að draga eitthvað úr áhættunni sem í þessu felst fyrir ríkissjóð.

Í síðari till. minni er gert ráð fyrir að deildin eigi ekki aðeins að endurgreiða Ríkisábyrgðasjóði það sem sjóðurinn hefur innt af hendi, eins og segir í frv., heldur skuli það gert á næstu tveimur árum, Ríkisábyrgðasjóður og ríkissjóður hafi einhverja tryggingu fyrir því að skuld sem myndast verði ekki látin standa árum saman heldur sé stefnt að því að gera hana upp á hæfilegum tíma. Hér er sem sagt lagt til að það dragist ekki lengur en tvö ár.

Til að gera hins vegar mögulegt að jafna endurgreiðslu til Ríkisábyrgðasjóðs út á fleiri ár, sem kynni kannske að þykja eðlilegt ef deildin yrði fyrir óvæntum skakkaföllum, hef ég lagt til að Iðnlánasjóður gæti þá hlaupið í skarðið og veitt deildinni lán, geri henni kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Ríkisábyrgðasjóði ef á það reyndi. Ég held að það sé nauðsynlegt að deildin búi yfir heimild af því tagi að hún geti tekið lán ef illa fer þannig að hægt sé að halda deildinni í skilum við alla aðila.

Ég fagna því að það kom fram í máli formanns nefndarinnar að aðrir nefndarmenn styddu þessar tillögur og er þá ekki neitt frekar um það að segja nema að þakka fyrir góðar undirtektir.