19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3855)

409. mál, Iðnlánasjóður

Jón Magnússon:

Virðulegi forseti. Þegar frv. var lagt fyrir voru þau ákvæði sem kveða á um tryggingadeild útflutningslána og getið er um í 3. gr. frv. samhljóða 27.-29. gr. frv. um sjóði atvinnuveganna sem liggur fyrir þessu löggjafarþingi. Ég verð að segja að brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v. tel ég vera til bóta, í fyrsta lagi miðað við að myndaður verði varasjóður sem nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum tryggingadeildarinnar. Ég held að þetta sé nauðsynlegt, tvímælalaust til bóta og styð þetta eindregið og jafnframt að það sé skýrar kveðið á um með hvaða hætti skuli endurgreiða tjón ef ábyrgðir falla á Ríkisábyrgðasjóð. Miðað við hvernig frv. var lagt fyrir hygg ég að þessar tillögur séu tvímælalaust til bóta.

Mér þykir hins vegar miður að það skyldi ekki hafa fundið náð fyrir augum nefndarinnar að samþykkja frv. að öðru leyti svo sem það var lagt fram í upphafi, en við það verður víst að una úr því sem komið er.