19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4220 í B-deild Alþingistíðinda. (3893)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð um þetta mál. Það er náttúrlega byggðastefna að flytja fólk úr Garðabæ og austur á Streiti og ef hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason hefur hug á að flytja austur býð ég hann innilega velkominn og tel mikinn sóma að því að fá hann þangað. En ég vil undirstrika að það er rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að þetta mál hefur verið lengi í skoðun og við veltum þessu fyrir okkur. Það sem í mínum huga ræður úrslitum í þessu máli er að viðkomandi maður hefur staðhæft að hann muni flytja á jörðina. Ég gat í framsöguræðu um þá umsókn sem hefur komið í landbrn. og að sjálfsögðu styð ég það að nefndin skoði málið og öll þau gögn sem liggja þar fyrir. Mér finnst sjálfsagt að það sé skoðað milli 2. og 3. umr. málsins. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál, en ég tók fram í framsögu að það væri sjálfsagt að skoða öll gögn í málinu og kalla alla þá aðila fyrir sem nauðsynlegt er til þess að komast til botns í þessu þannig að nefndarmenn geti byggt afstöðu sína á hinum bestu upplýsingum.