21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (3964)

332. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Frv. það sem hér um ræðir gerir ráð fyrir því að heimilað verði að flytja hingað til landsins þá tegund áfengra drykkja sem menn almennt kalla bjór og þá einnig heimilt að selja þá sömu framleiðslu, sem reyndar hefur farið fram hér á landi, þá íslensku framleiðslu sem framleidd er hér innanlands.

Nefndin fjallaði um málið og fékk til viðræðna menn frá áfengisvarnaráði, auk Tómasar Helgasonar, Jóhannesar Bergsveinssonar læknis og Ingólfs Guðmundssonar.

Meiri hl. nefndarinnar varð sammála um að mæla með samþykkt frv. þó að einstakir nefndarmenn áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Valdimar Indriðason og Salome Þorkelsdóttir.

Frú forseti. Ég ætla mér ekki að hafa mörg orð um málið á þessu stigi. Það hefur býsna margt verið talað í þessu máli og ég held að í grundvallaratriðum greini menn ekki mjög mikið á. Ég held að það séu fáir menn sem t.d. gera ráð fyrir því að þetta hafi ekki nein áhrif til breytinga á drykkjuvenjum Íslendinga. Aftur á móti er líka öllum mönnum kunnugt að hér er ráðandi ákveðinn tvískinnungur í þessum málum sem gerir það að verkum, án þess að ég ætli nú að túlka það sem einhver forréttindi sérstaklega að fá að drekka bjór, að fólki er mismunað hér á Íslandi hvað það snertir. Hafi fólk áhuga á því að neyta bjórs þá verður það að gerast annaðhvort farmenn eða ferðamenn til þess að slíkt geti orðið.

Það má kannske segja að það sé ekki lagaleg skylda stjórnvalda að gera mönnum endilega kleift að neyta bjórs. En ef menn halda því fram hljóta þeir um leið að vera að halda því fram að það sé þá þvert á móti lagaleg skylda stjórnvalda að koma í veg fyrir það að menn geti neytt bjórs.

Ég hef sagt það áður, undir reyndar dálítið öðrum formerkjum þar sem ekki var þá um að ræða tillögu um lagabreytingu heldur tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveim árum, að ég hef litið þannig á að niðurstaða manna í þessu máli hlyti að leiða til þess að annaðhvort yrði hér heimiluð bruggun og sala áfengs öls algerlega eða bönnuð algerlega.