07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

25. mál, málefni aldraðra

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu og að hún skuli vera hér fram borin. Ég held að ekki sé vanþörf á að kanna aðstæður aldraðra hér á landi. Það þarf ekki síst, eins og síðasti ræðumaður kom að, að athuga hvernig má búa að öldruðum í heimahúsum, hvort þar megi ekki bæta um betur og gera fólki kleift, bæði aðstandendum að hafa gamla fólkið heima og gamla fólkinu að dvelja á sínum heimilum sem vill það fremur en fara á stofnanir. Ég hef kynnst því af eigin reynslu að það er mjög ríkt í mörgu gamalmenninu að fá að búa heima eða hjá sínum. Það færi vel á því ef boðið væri upp á meiri og betri heimilisaðstoð og ekki síst jafnvel að létt vinna væri borin heim til fólksins, ef svo mætti segja. Ýmis störf í þessu þjóðfélagi mætti inna af hendi í heimahúsum. Þar má nefna t.d. spyrðubönd, hæklabönd og ýmislegt í plastiðnaði sem gamla fólkið gæti dundað sér við. Það þyrfti ekki að fara heim til þess nema einu sinni í viku. Ég átti þess einu sinni kost að gera könnun sjálf á vegum félagasamtaka og fara þess vegna í hvert hús á staðnum og ræða við gamalt fólk, auk þess sem ég hef í mörg ár unnið á stofnun fyrir aldrað fólk. Það var einmitt viðhorf hjá mjög mörgum að geta gert eitthvert gagn þrátt fyrir að þeir hefðu ekki heilsu til að fara frá sínum heimilum til vinnu, auk þess sem upp á lítið var boðið á vinnumarkaðnum fyrir þessa aldurshópa. En það var oft erfitt þessu fólki að drepa tímann og vita að það gæti gert gagn en hafa ekkert á milli handanna. Ég held að sá þáttur þyrfti að vera með í þessari könnun hvernig hægt væri að mæta vilja gamla fólksins til þess að inna létt störf af hendi, ekki aðeins hálfsdagsstörf eða hlutastörf.

Margt mætti eflaust nefna í þessu sambandi varðandi framfærslukostnað og fjárhagslega afkomu. Þar er ýmislegt sem þarf úr að bæta. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu með því að fara nánar út í þá sálma. Í nokkrum orðum vildi ég þó taka undir það sem síðasti ræðumaður kom að varðandi tilraun um stofnun fyrir gamalt fólk í sveitum. Ég held það væri vert að reyna slíkt. Á minni stöðum úti á landi getur gamalt fólk jafnvel haft sínar kindur í smákofum ekki það langt frá elliheimilinu að það getur stundað þann búskap. Það er ótrúlegt hvað þetta fólk er gott til heilsunnar ef það getur starfað við eitthvað sem það lifir og hrærist fyrir. Þessu hef ég líka kynnst, að maður gat stundað sínar kindur þrátt fyrir að hann byggi á elliheimili. Hann gat gengið til þeirra á hverjum degi. En þessum manni varð varla misdægurt. Hugmynd hv. 2. þm. Austurl. er því virkilega skoðunarverð og ég held að þegar upp væri staðið hefði slík tilraun, ef svo má kalla, ekki orðið þjóðfélaginu mjög dýr.