21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (4032)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. fjh.- og viðskn. með fyrirvara. Ég styð málið og mun greiða því atkvæði. Ég tel ástæðu til að fagna því að ríkisstj. hefur loksins, þó með sérkennilegum hætti sé, tekið ákvörðun um það að reyna að reka af sér slyðruorðið í sambandi við þjóðarbókhlöðuna.

Ég minni á að á síðasta þingi voru þessi mál nokkuð til umræðu, bæði í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, þar sem till. okkar Alþýðubandalagsmanna um fé til þjóðarbókhlöðunnar voru felldar, og eins í sambandi við önnur mál þar sem ég m.a. stakk upp á því að þessi byggingarkreppa þjóðarbókhlöðunnar yrði leyst með sérstöku fjáröflunarátaki. Þáv. ráðherra tók þessari till. minni illa í fyrra og sýndi engan lit á því að koma til móts við þær hugmyndir. Ég fagna því að hæstv. núv. menntmrh. skuli hins vegar hafa tekið undir þessi sjónarmið og ætlunin sé að gera verulegt átak í sambandi við byggingu þjóðarbókhlöðunnar en það er öllum til skammar hvernig þau mál hafa þróast.

Ég vil einnig sérstaklega fagna því, herra forseti, að það skuli liggja fyrir að Sjálfstfl. skuli vera horfinn frá afstöðu sinni í sambandi við álagningu eignarskatts. Það hefur verið rætt talsvert um það á undanförnum árum að eignarskattur ætti í ríkara mæli að verða tekjulind fyrir ríkissjóð. Það var ákveðið skref samþykkt í þeim efnum á síðasta þingi þegar samþykkt var að 0,25% eignarskattur rynni til húsnæðismála og núna er hér enn till. um að leggja til að lagður verði á 0,25% eignarskattur, í þetta skiptið til þjóðarbókhlöðunnar. Ég hlýt að lýsa sérstakri ánægju minni með það að ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. er í sterkri aðstöðu og með fjmrh. skuli brjóta með þessum hætti gegn kosningafyrirheitum Sjálfstfl. fyrir kosningarnar 1983. Mér þætti vænt um að það yrði á sem flestum sviðum, herra forseti.