22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4391 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Frsm. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti allshn. um till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu. Þetta er 11. mál á þskj. 11 og flm. eru hv. þm. Kvennalistans.

Út af fyrir sig væri ærin ástæða til að halda hér nokkuð langa ræðu en svona til þess að tryggja að þeir aðilar komist að sem eiga rétt á því, þá skal ég draga saman mál mitt. Ég vil að vísu vekja athygli á því, þó að ég sé ekki að beina því til hæstv. forseta, að þetta er 11. mál sem lagt er hér fram á þinginu og lendir hér í tímahraki á næstsíðasta degi þings eða svo. Ég hefði gjarnan viljað fara um þetta mál orðum nokkuð ítarlega en tíminn leyfir það ekki nema þá að hindra að aðrir komist að með eðlilegan málflutning. Ég vil strax taka það fram að því fer fjarri að ég telji að þetta mál, um að meta heimilisstörf til starfsreynslu, sé eitthvert hégómamál sem skipti litlu. Ég held að það sé alveg það gagnstæða. Ég held að það skipti ákaflega miklu og marga.

Hér er lagt fram mjög ítarlegt framhaldsnál. Þetta mál hefur nú fengið nokkra umfjöllun hér á Alþingi, fyrri umræðu og síðan kemur allshn. með frávísunartillögu eða dagskrártillögu um að vísa málinu frá. Þá kemur bunki af brtt. og verður af málþóf mikið og hv. 5. þm. Vestf., sem er formaður allshn., samþykkti þá að draga dagskrártillöguna til baka til þess að freista þess að nefndin næði sameiginlegri afstöðu, sem hún reyndar hafði, en koma til móts við þær brtt.

Nefndin leggur hér fram nokkuð ítarlegt nál. sem ekki er tími til að lesa. Þar er vakin athygli á því, og um það held ég að sé ágreiningur milli hv. þm. Kvennalistans og nefndarinnar, að í grg. nefndarinnar segir: „Í till. er gert ráð fyrir að hið opinbera viðurkenni starfsreynslu við heimilisstörf án tillits til eðlis þess starfs sem unnið er hjá hinu opinbera“. Sem sagt 15 ára starf á heimili, jafnvel þó um sérhæft starf sé að ræða, fylgi 15 ára starfsaldur í tilteknu starfi. Brtt. allshn. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf, sem unnin eru launalaust, þegar um hliðstæð störf er að ræða. Jafnframt felur Alþingi ríkisstj. að láta athuga með hvaða hætti megi meta slíka starfsreynslu þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla.“

Það kemur fram í framhaldsnál. að ef t.d. starfsmaður, sem unnið hefði á tölvu í ríkisstofnun í 5 til 10 ár, fengi samstarfskonu, húsmóður, sem aldrei hefði unnið það sérhæfða starf, þá yrði sá starfsmaður sem fyrir væri og hefði styttri starfsaldur en heimilisstörfin eru að segja húsmóðurinni til, sem er að koma út á vinnumarkaðinn, en hann væri á lægri launum.

Nefndin kallaði á sinn fund Indriða Þorláksson og Björn Björnsson. Björn Björnsson lýsti því, það kemur fram í nál., hversu mikil ringulreið ríkir í þessu. Það er smávilla eða það hafa orðið nokkrar breytingar á þessu. Í grg. þm. Kvennalistans er sagt að það taki húsmóður 5 ár að ná 3. þrepi þess launaflokks, en ef um hliðstæð eða skyld störf er að ræða, þá fer hún þegar í stað í 5. starfsþrep, þ.e. svipað og það væru 6 ára störf. Þetta er um hliðstæð eða skyld störf. Þetta gildir nú hjá ríkinu, í sjúkrahúsum, barnaheimilum, mötuneytum o.s.frv. Þá er þetta strax metið. En þegar komið er út á hinn almenna vinnumarkað er þetta ekki svona. Húsmóðir fer til fiskvinnslu, þá fer hún á byrjunarlaun. Fiskvinnslukona fer í verslun, þá fer hún á byrjunarlaun í verslun. Fari verslunarkona yfir í fiskvinnslu, þá fer hún þar á byrjunarlaun. Þannig að þetta er allt í kross. Það er ekkert samræmi þarna í einu eða neinu. En ég vona að ágreiningurinn milli þessara till. sé ákaflega hreinn og skýr og mér takist að koma því til skila.

Við tökum undir að heimilisstörf með starfsreynslu við heimilis- og umönnunarstörf, það ber að túlka það víðtækt, séu metin, en jafnframt feli Alþingi ríkisstjórn að láta athuga með hvaða hætti megi meta slíka starfsreynslu þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla. En í grg. Kvennalistans segir: „án tillits til eðlis þess starfs sem unnið er hjá hinu opinbera.“ Við viljum láta á það reyna hvort möguleiki sé á tillögum sem gengju eitthvað betur til móts við húsmæður. Og ég vil taka það fram að allir nefndarmenn, sjö að tölu, skrifa undir þetta álit.

Ég vil taka það alveg skýrt og greinilega fram að þetta byggist ekki á andstöðu við störf kvenna eða húsmæðra. Ég held að ég verði að taka það alveg sérstaklega fram að ég held að störf fullorðinna kvenna sem koma út á vinnumarkað séu ákaflega vanmetin. Ég veit ekki hvort ég er einn um þá reynslu. Ég hef þó rekist á fjöldann allan af fólki. Ef maður kemur í verslun þar sem er fullorðin kona - maður má nú ekki alhæfa þarna milli ungs fólks og fullorðins fólks - þá virðist mér eldri konan vera ákaflega mikið betur leiðbeinandi t.d. í verslunarstörfum heldur en yfirleitt er með yngra fólk. En eins og ég segi það má ekki alhæfa þetta. Á opinberum skrifstofum t.d. virðast mér upplýsingar yfirleitt vera mun betri hjá fullorðnum konum. Ég held að þarna sé hægt að koma lengra til móts við þessar konur, þær hafa lífsreynslu. En hjá hinu opinbera þar er miðað við lífaldur, 25 ára, 32 ára o.s.frv. Það er ekki hjá hinum almennu verkalýðsfélögum. Þar er engin viðmiðun við lífaldur. Þannig að þarna er ákaflega mikið ósamræmi á milli. Ég held líka að fullorðið fólk sé yfirleitt ástundunarsamara og eins og einhver gagnmerkur atvinnurekandi sagði við mig: Það er svo einkennilegt að fullorðið fólk virðist hafa betri heilsu en ungt fólk. Það mætir betur til vinnu og tekur færri veikindadaga. Þetta held ég að gildi líka með húsmæður.

Ég vil líka vekja athygli á því að hér áður fyrr þótti sjálfsagt að launa vinnu kvenna lægra af því að það væri léttari vinna sem þær ynnu. Mér er nú nær að halda að í ótalmörgum starfsgreinum, og kannske þeim starfsgreinum sem konur eru mest í, sé um erfiðari vinnu að ræða. Þessi gamla biblía um að karlar vinni yfirleitt erfiðari störf held ég að sé úrelt og í mörgum tilfellum er þetta alveg öfugt, að konur vinna erfiðari störf.

Ég skal ekki teygja mál mitt lengur þó að freisting hefði verið mikil til þess. Ég vil leggja áherslu á það að þessi brtt. allshn. gengur út á það eitt að varðandi óskyld eða sérhæfð störf feli Alþingi ríkisstjórninni að láta athuga með hvaða hætti megi meta starfsreynslu við slík störf.

Nefndin komst, eins og ég sagði áðan, að einróma samkomulagi og ég held að það segi sína sögu eftir frávísunartillöguna, og sem er nú mjög sjaldgæft að vísað sé aftur til nefndar. Nú vona ég að þetta geti verið lausn á þessu þingi og læt máli mínu lokið.