22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4441 í B-deild Alþingistíðinda. (4199)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þar sem þessi mál, um raðsmíðaskipin, ber á góma sé ég mér ekki fært annað en að segja örfá orð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ég hygg að fáir á landinu eigi um sárara að binda en Grundfirðingar í þessum efnum, þar sem togaranum Sigurfara var svipt burt frá þeim af alkunnum ástæðum, ásamt þriðjungi kvótans sem það byggðarlag byggir lífsafkomu sína á. Að vísu er það svo að í vetur hefur Breiðafjörður verið fullur af fiski. Aðkomubátar hafa komið og bjargað því sem bjargað verður. Eigi að síður er þarna mál sem er óleyst og verður að leysa með einhverjum ráðum, hvort sem það verður með því móti að við þm. Vesturlands tökum okkur saman um að flytja till. um að skip verði flutt til landsins eða á annan hátt. Því að það sér hver heilvita maður að það getur ekki gengið að með valdboði sé tekinn þriðjungur kvótans og þar með lífsbjörg þess byggðarlags sem í hlut á.

Þetta er mál sem mér ber skylda til að nefna hér og enn er óleyst og bíður lausnar.