22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4443 í B-deild Alþingistíðinda. (4204)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er nú komið í ljós að Oddeyri hf. á Akureyri hefur fest kaup á raðsmíðaskipinu sem Útgerðarfélag Kópaskers hf. átti fyrst kost á. Ég tel raunar að það hafi verið í samræmi við tilboðin á sínum tíma þar sem tilboð Oddeyrar hf. var hagstæðara en tilboð Útgerðarfélags Kópaskers á þeim tíma sem það var gert. Það var fyrir kjarasamningana, en þá voru sem kunnugt er allt aðrar efnahagsástæður í landinu.

Þingmönnum Norðurlands eystra hlýtur að vera það mikið ánægjuefni að svo skyldi hafa til tekist. Í fyrsta lagi vegna þess að Oddeyri hf. er reist á traustum fjárhagslegum grunni og verður útgerðin í tengslum við útgerð Samherja hf. sem allir eru sammála um að sé til mikillar fyrirmyndar. Því fylgir margvíslegt rekstrarlegt hagræði að hafa útgerð fleiri en eins skips á sömu hendi, bæði varðandi útgerðarkostnað skipanna og beitingu þeirra til öflunar hráefnis fyrir vinnslustöðvar í landi.

Í öðru lagi er það ánægjuefni fyrir þm. Norðurlands eystra vegna þess að hráefnisskortur hefur bagað niðursuðuverksmiðju Kristjáns Jónssonar nú um hríð eftir að Rússlandsrækjan hætti að fást. Niðursuðuverksmiðjan er í nokkurri sérstöðu hér á landi vegna þess að hún hefur unnið sér öruggan markað á meginlandi Evrópu, aðallega í Vestur-Þýskalandi, fyrir niðursoðna rækju og væri það auðvitað hörmulegt ef sá iðnaður þyrfti að leggjast niður vegna hráefnisskorts. Það er því þjóðhagslega mikilvægt að þessi starfsemi geti haldið áfram og að við getum ekki aðeins haldið þeim hagstæða markaði sem við höfum þarna unnið heldur stækkað hann og fært út.

Í þriðja lagi er þetta þm. Norðurlands eystra ánægjulegt vegna þess að atvinnuástand á Akureyri hefur ekki verið nógu gott. Það er því kærkomið tækifæri að geta stuðlað að því með markvissum hætti að fleiri stoðir séu undir það settar.

Ég vil að lokum aðeins segja þetta: Það er jafnan hæpið þegar tveir staðir sem jafnlangt er á milli eins og Svalbarðseyrar og Kópaskers standa saman að útgerð eins og sama skipsins, ekki síst þegar svo stendur á sem nú, að hagsmunir annars aðilans eru þeir að vinnsla rækjunnar sé í landi til að halda uppi atvinnu á staðnum, en hins að rækjan sé sem mest unnin um borð til að tryggja rekstrarafkomu skipsins einvörðungu. Samvinna sem er reist á svo ólíkum forsendum hefur löngum verið dæmd til að mistakast.

Það er vilji meiri hluta Byggðastofnunar og sérstök samþykkt hefur verið gerð þar að lútandi að það verði sérstaklega athugað hvernig hægt sé að treysta stoðir atvinnulífs á þessum stöðum báðum með aðgerðum sem beinast að hvorum stað fyrir sig. Gagnvart þeim á Kópaskeri er mikilvægt að tryggja hráefnisöflun til rækjuverksmiðjunnar og fjárhagslegan grundvöll hennar, gagnvart þeim á Svalbarðseyri að tryggja nýtingu þeirra húsa sem þar standa og reyna að byggja upp iðnað og þjónustu í tengslum við batnandi samgöngur við Akureyri sem kepptu á þeim stóra markaði sem þar er, t.a.m. á sviði matvælaiðnaðar eða annars létts iðnaðar. Ég hef skilið það svo að sérstakt fé hafi verið lagt til hliðar til að vinna að þessum verkefnum.