22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (4211)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að eiga orðastað við hv. 5. þm. Reykv. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Það mál var tæpt mjög á sínum tíma. En sagt var að ekki hafi verið gerð grein fyrir hvert og hvernig fé var ráðstafað í Framkvæmdastofnun ríkisins. Það vill svo til að það er eina opinbera stofnunin sem gerði í smáatriðum grein fyrir hverju einasta láni. Og svo getur hann rifjað annað upp með því að fá aðgang, og það veit ég að hann getur fengið ef hann biður um það, hver það var sem frá því hann settist í janúar 1975 í Framkvæmdastofnun ríkisins togaðist á við stjórnina þar um að ná upp vöxtum á lánum Framkvæmdastofnunar. Meira ætla ég ekki að segja um þetta, en ég vænti að hann og aðrir hafi veitt því athygli að í skýrslu minni, það hefur kannske ekki komið nógu skýrlega fram, er gert ráð fyrir að verðlag byrji að telja vegna reiknings á námslánum frá 1. júní og munar 30 millj. kr. til viðbótar fram eftir árinu frá þeim tíma.