11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

55. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar fsp. sem hér kom fram.

Ég vil rifja upp að það varð fljótlega 1983, þegar ríkisstjórnin var mynduð, að fram kom áhugi aðila vinnumarkaðarins á að eitthvað yrði gert til að kanna áhrif nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi og það yrði reynt að gera sér grein fyrir því hvernig þau áhrif yrðu og gera á því úttekt þannig að það mætti mæta slíkum áhrifum með aðgerðum á réttan hátt. Það var þess vegna ákaflega mikilvægt að koma til móts við þennan áhuga aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna varð að ráði að ríkisstj. samþykkti að stofnað yrði til starfshóps sem hefði það markmið að framkvæma könnun á áhrifum nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi í næstu framtíð.

Þessi nefnd var skipuð og í henni áttu sæti aðilar frá vinnumarkaðnum. Þeir eru Haukur Helgason skólastjóri og Hilmar Jónasson, formaður verkalýðsfélagsins Rangæings, eftir tilnefningu launþegasamtakanna, Magnús Gústafsson forstjóri og Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, eftir tilnefningu samtaka atvinnurekenda, og Ingvar Ásmundsson skólastjóri sem var skipaður formaður starfshópsins af félmrh.

Ég vil undirstrika að hér var um merkilegt starf að ræða í fyrsta lagi vegna þátttöku aðila vinnumarkaðarins og enn fremur að allir aðilar úrðu sammála um þær niðurstöður og þá vinnu sem liggur fyrir. Ég vænti þess að allir hv. alþm. hafi fengið þessa skýrslu sem kom út í októbermánuði s.l. og var dreift til allra þm.

Það er enginn vafi á að hvað sem menn vilja segja um það sem kemur fram í skýrslunni sjálfri er hún leiðbeinandi fyrir bæði stjórnvöld og aðra sem fást við þessi mál. Það hefur verið lögð gífurleg vinna í þessa skýrslu og nefndarstarfið, eins og sjá má í skýrslunni þar sem heimildaskrá er á hvorki meira né minna en þremur eða fjórum blaðsíðum þar sem tekin er upp bæði innlend og erlend atriðaskrá um það sem nefndin hefur farið yfir og haft til leiðsagnar. Sömuleiðis hafa nefndarmenn farið um erlendis og kynnt sér þessi mál, á Norðurlöndunum ekki síst, og víðar farið til að átta sig vel á þessu máli í heild.

Ég vil segja það við hv. flm., 2. landsk. þm., að auðvitað hafa þm. áttað sig á því, sem kemur fram og kom fram strax á síðasta þingi, að mikið af því sem er rökstuðningur fyrir þessu frv. er til orðið vegna nefndarstarfsins og er það vel.

Ég tel víst að niðurstöðurnar, sem koma fram í þessari skýrslu, verði ræddar. Þær hafa þegar verið ræddar á byrjunarstigi í ríkisstj. og munu verða ræddar áfram þar og eins með aðilum vinnumarkaðarins. Hvaða tillögur verða gerðar skal ég ekki segja á þessari stundu, en alla vega verður þetta haft til viðmiðunar. Ég vil benda hv. þm. á að það var sérstaklega kannað meðal tveggja starfsstétta hver yrðu áhrif nýrrar tækni á þeirra sviði, þ.e. fiskvinnslu og bankastarfsemi, og kom þar margt fróðlegt fram sem ástæða er til að glöggva sig á.

Lokaorð þessa starfshóps eru þau að hann væntir þess að þær ábendingar og tillögur sem settar eru fram í þessari skýrslu nýtist við stefnumörkun stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í þessum málum. Það er einmitt aðalatriðið.

Ég vænti þess þegar vinnu þessa starfshóps er nú lokið verði hægt að taka ákvörðun um með hvaða hætti er hægt að flýta aðgerðum í þessu máli. Það liggur fyrir eftir að þessi skýrsla hefur verið lögð fram á hvað okkur ber að leggja aðaláhersluna í þessu máli. Ég ætla ekki að tefja umræður, herra forseti, með því að lesa það upp, en það liggur alveg ljóst fyrir og það vil ég undirstrika.