23.04.1986
Efri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4520 í B-deild Alþingistíðinda. (4294)

423. mál, áfengislög

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það virðist ekki liggja mjög mikið á að koma ákveðnum málum hér í gegnum þingið fyrst þetta mál er hér tekið eftir að raunverulega var búið að lýsa því yfir, ekki kannske beint úr forsetastóli, að horfið væri frá því að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Síðan kemur skipun einhvers staðar frá um að þetta sé nauðsynjamál og ekki sé hægt að bíða næsta þings til að leysa það.

Þau eru ansi mörg málin sem stjórnarandstæðingar hafa lagt fram hér á hv. þingi og það hefur ekki verið mikill vilji meiri hluta þingsins, ríkisstjórnarflokkanna, til að afgreiða þau mörg hver. Nú er ætlast til þess að á síðustu stundum þingstarfsins sé hespað hér í gegnum deildina málum sem eru þannig til komin að ákveðnir aðilar í stjórnarandstöðunni eru þeim mjög andstæðir. Við Alþýðubandalagsmenn hér stöndum að því allir að leggja til að þetta mál verði ekki afgreitt úr deildinni. Ef það er vilji ráðherra, forseta og ríkisstjórnarliðsins að þetta verði gert hljótum við að gera það upp við okkur hvort við eigum ekki að nota þennan eina rétt sem við höfum, að standa hér áfram í pontunni í nokkra klukkutíma og vita hvort hæstv. ríkisstj. leiðist ekki þófið. Stjórnarliðum hefur stundum tekist að stoppa nokkur mál á síðustu tímum þingsins. Það gæti verið að okkur tækist það líka.

Mér kom í hug að hv. 11. landsk. þm. tókst í lokin á síðasta þingi að stöðva mál ríkisstj., ekki með málþófi heldur bara með snjöllum vinnubrögðum. Það mál er reyndar komið hingað aftur og er viðkvæmt á þessari stundu. Það er kannske ekki rétt að blanda því saman við umræðu um þetta mál þó að það sé í eðli sínu sjálfsagt að gera það. Ríkisstj. hefur staðið þannig að því máli að ekki var talin ástæða til að gefa þessari hv. deild, sem það mál stoppaði í, tækifæri til að ræða það eða fjalla um það á eðlilegan máta. Nú er þessi hv. þm. raunverulega beðinn um að endurtaka það sem hann gerði hér fyrir ári síðan vegna vinnubragða ríkisstj., vegna vinnubragða ráðherra.

Það er reyndar greinilegt að þessi ríkisstj., sem nú situr, er orðin þreytt. Öll hennar vinnubrögð bera þess vitni. Eina frv., sem hér er í deildinni enn þá, er aðsent til ríkisstj., frv. sem henni var fært upp í hendurnar uppi í Garðastræti. Það er raunverulega eina málið sem liggur á að koma hér í gegnum deild. Því er ekki undinn bráður bugur að því?

Ég er nokkurn veginn viss um að ef hver og einn hv. þm. hér í deildinni væri spurður að því hvaða mál það væri sem æskilegt væri að taka út úr deildinni nú á síðustu stundu yrði niðurstaðan sú að ekkert annað mál en þetta væri brýnna að afgreiða. Það er þetta eina mál sem verkalýðshreyfingin sendi til afgreiðslu á hv. Alþingi. Ríkisstjórnarmálin eru ekki þess eðlis að það liggi neitt á að samþykkja þau.

Ég hvet hæstv. forseta til að líta yfir dagskrána og vita hvort það væri ekki þannig að ef við ætlum á næstu stundum, jafnvel næstu dögum, að klára þetta þing væri eðlilegt að sortera úr og athuga hvort það er ekki aðeins eitt mál sem við þurfum að afgreiða af þeim lista sem fyrir okkur liggur hér til afgreiðslu.