17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þylja hér langar talnaraðir á þeim örstutta tíma sem ég hef til umráða. Og ekki heldur að nota mörg fræðileg hugtök eins og stjórnmálamenn eru farnir að temja sér nú til dags og hafa fyrir bragðið orðið allra manna leiðinlegastir.

Til mín komu um daginn ung hjón og eiginmaðurinn sagði: Ég þarf að tala við þig sem formann Dagsbrúnar. Samtalið er mér mjög minnisstætt vegna þess að vandamál þeirra var ekkert einkamál þeirra, heldur fylgir hundruðum fjölskyldna á landi hér. Erindið var þetta: Við keyptum okkur íbúð fyrir u.þ.b. tveim árum, þriggja herbergja. Kaupverðið var tæpar 1700 þús. og við áttum sjálf 350 þús. - afganginn, tæp 1300 þús., fengu þau lánað með venjulegum hætti - og nú getum við ekki borgað. Hvað þurfið þið að borga mikið? Frá því í ágúst og eitthvað fram yfir áramót 402 þús. í afborganir, vexti og verðbætur. Hvað hafið þið í kaup? Ég hafði frá 1. sept. 1984 til 1. sept. 1985 27 þús. á mánuði til jafnaðar og vann mikla yfirvinnu til að fá þetta kaup. En þú? Tæpar 13 þús. á mánuði, en ég get ekki unnið allan daginn því við eigum tvö börn, tveggja ára og fjögurra ára, og ég fæ ekki pláss á dagheimili því við erum gift. Af hverju færðu ekki pláss á barnaheimili? spurði ég. Innritunarskrifstofa dagvistunar í Reykjavík segir að ég sé gift og hafi fyrirvinnu. Þess vegna komist ég ekki einu sinni á biðlista. Síðan lögðu þau öll plögg á borðið. Heildartekjur þeirra voru samanlagt 477 þús. en vaxtaafborganir og verðbætur á íbúðinni voru 402 þús. Hvað eigum við að gera? spurðu þau. Mér varð svarafátt, en ég vísa þessari spurningu til ríkisstjórnarinnar. Hvað á svona fólk að gera?

Sumir vilja kenna félmrh. um þetta, en það er of ódýrt svar. Ég hef engan áhuga á að verja hann, en það er kerfið sem býður upp á þetta. Það gerir ungu fólki ókleift að búa í íbúð, það gerir því ókleift að standa í skilum. Kerfið er svo ómennskt að ef ungt fólk sem er að reyna að komast í eigin íbúð lendir í þeirri „ógæfu“ að eiga börn við þessar aðstæður, þá missir það lífsgleðina og oft heilsuna og jafnvel meira. Þetta er sú hrollvekja sem ungu fólki úr launastétt er boðið upp á í dag. Og boðskapur forsrh. er að núverandi ástand verði framlengt um þrjú ár.

Laun fólks á umsömdum töxtum fyrir dagvinnu, fyrir fólk innan ASÍ eru 16 400 á mánuði og upp í 29 þús. kr. Flestir eru á bilinu um 18-19 þús. - að vísu kom á þetta 3% hækkun í vikunni fyrir misskilning milli ráðherra. Einnig er þorri opinberra starfsmanna á svipuðum launum. Og boðskapur forsrh. til þessa fólks er að það eigi að hækka launin um 1/2% á ári næstu þrjú árin. Þetta er boðskapur ríkisstjórnarinnar með andlitslyftinguna.

Allir vita að hjón sem eru á almennum launum verða bæði að vinna utan heimilis og dugar ekki til. Svo eru einhverjar fornaldarskrifstofur í Reykjavík að segja konum að þær hafi fyrirvinnu. Að vísu eru laun ákaflega misjöfn í landinu. Verslun og þjónusta greiða langt yfir kauptaxta til margra á Stór-Reykjavíkursvæðinu, en fólk sem vinnur við framleiðsluna, það er á töxtum, klipptum og skornum og sjá allir sem til þekkja hversu langt það dugar.

Launamisrétti er að aukast á Íslandi. Harðast verður það fólk úti sem lægst hefur launin. Og hörðust er mótspyrnan gegn kaupi þess, lagfæringum á kaupi þess.

Ég tala nú ekki um ef það vinnur í framleiðslunni, í fiskverkun eða þess háttar. Það er beinlínis að verða refsivert á Íslandi að vinna við framleiðslustörf. En boðar nú ekki forsrh. einhverjar kjarabætur í öðru formi, t.d. lækkun vöruverðs? Öðru nær. Bæði forsrh. og núverandi fjmrh. segja að gengislækkun komi ekki til mála, en gengissig sé sennilega óhjákvæmilegt. Hvað þýðir þetta fína orð gengissig? Það þýðir margar litlar gengislækkanir í áföngum, sem þýðir aftur á móti hækkað vöruverð. Síðan er boðaður virðisaukaskattur. Þetta fína orð virðisaukaskattur er söluskattur í annarri útfærslu. M.a. þannig að hann leggst líka á almenn matvæli og þjónustu. Almenn matvæli munu með þessum aðgerðum geta hækkað um 10-20%. Það verður lítið eftir af 1/2% kauphækkuninni hans Steingríms þegar margar litlar gengisfellingar eru fram undan og sérstakur skattur á almenn matvæli og þjónustu.

Hvað segja menn um skattakerfið, þegar sjálfstæðir atvinnurekendur í eigin atvinnurekstri eru með lægri tekjur samkvæmt skattframtali en einstæðar mæður? Frestað er að lækka skatta á launafólk þótt búið sé að stórlækka skatta á fyrirtækjum. Þá er tekjuskatturinn í núverandi mynd þannig að ef fólk leggur á sig mikla yfirvinnu er það komið í hátekjuskatt, sem það er að sligast undan, en aldrei var til þess ætlast að legðist á verkafólk. Á sama tíma er upplýst að bókhald hjá fyrirtækjum sé í megnasta ólestri og allt niður í 14% í ákveðnum starfsgreinum uppfylla ekki lágmarksskilyrði bókhaldslaga. Skyldi almennt verkafólk komast upp með þetta? Skyldu ungu hjónin sem ég minntist á í upphafi komast upp með þetta?

Það er bjart fram undan segir forsrh. Hvað finnst ykkur, gott launafólk? Það er búið að afnema verðlagseftirlit. Það stóð sig að vísu ekki nógu vel og í sumum tilfellum var það ekki til bóta. En ákaflega er nú frjálst farið með álagningu og verðlag víða. Ég fell oft í þá freistni að kaupa mér ákveðinn gosdrykk og flaskan af honum hefur í allt sumar kostað 20 krónur. Þann 1. okt. hækkaði flaskan í 22. Ég spurði af hverju. Ætli það sé ekki út af þessu 41/2% launahækkun 1. okt. Og í gær hækkaði flaskan upp í 26 kr. Kaup hafði þann dag hækkað um 3% - að vísu fyrir misskilning. 30% hækkun á gosdrykkjarflösku og 71/2% kauphækkun, og það allt samdægurs. Ég get sleppt gosdrykkjum, en ég nefni þetta sem dæmi um þá ósvífni sem oft ríkir hér í verðlagsmálum og neytendur finna daglega fyrir.

Við ætlum að spara í ríkisrekstrinum, segir Þorsteinn Pálsson. Vonandi verður sá sparnaður meiri en þegar Sjálfstfl. undir forustu Þorsteins tók að sér að leggja niður hina margfrægu Framkvæmdastofnun ríkisins með kommissörunum. Framkvæmdastofnunin var lögð niður og kommissararnir lagðir af. En upp úr henni risu þrjár nýjar stofnanir með fjórum forstjórum í stað tveggja og verið er að kaupa 15 nýja stóla, 15 ný skrifborð handa nýju viðbótarstarfsliði Framkvæmdastofnunar sálugu. Þessum sparnaði stjórnaði Þorsteinn Pálsson og nú er hann búinn að fá nýjan stól sem hann hefur lengi þráð og barist fyrir - allt til að auka sparnaðinn.

Við höfum orðið fyrir áföllum, segir forsrh. Hvaða áföllum? Árgæska til lands og sjávar. Sjaldan eða aldrei meiri afli. Eftirspurn eftir framleiðslu okkar er víðast hvar meiri en við getum annað. Útflutningsvörur okkar hafa hækkað í verði. En við höfum tapað hundruðum milljóna á því að fiskverkunarfólki er borgað það lélegt kaup að það flýr framleiðsluna og þar af leiðandi verðum við að framleiða verðminni afurðir. Dollarinn hefur lækkað nokkuð frá því fyrri hluta árs, en aðrar erlendar myntir hafa hækkað svo afurðir á þá markaði eru hagstæðari og hinir kunnugustu spá að dollarinn sé að stíga á ný. Þá spyr ég: Af hverju hækkaði ekki kaup verkafólks frá ársbyrjun 1983 til dagsins í dag, þegar dollarinn hefur hækkað gagnvart íslenskri krónu um 144%?

Erfiðleikar sjávarútvegsins á þessu ári stafa hvorki af aflaleysi né of háu kaupi. Sjá nú ekki allir að launafólk verður að sameinast um kröfuna um kaupmáttartryggingu? Það er enginn að biðja um verðbólgu. Við getum alveg eins samþykkt lækkun á vöruverði. Krafa verkalýðshreyfingarinnar hlýtur að vera samningsbundin kaupmáttartrygging. Reynslan frá í sumar sýnir að orð ráðherra eru að litlu hafandi.

Reynt er að koma því á framfæri að Alþb. sé logandi í innbyrðis illdeilum. Þetta er til að reyna að vekja tortryggni gagnvart stærsta flokki verkafólks, þeim flokki sem hefur dugað verkafólki best, og til að breiða yfir stólastyrjöldina í Sjálfstfl. og fyrirætlun ríkisstj. í kjaramálum.

Launafólk. Það er vísitala á öllum greiðslum nema kaupgreiðslum. Og það er óheftur gróði og álagning í verslun og margs konar þjónustu. Annaðhvort allar vísitölur í burt eða einhvers konar vísitölu á kaup. Í næstu samningum verður að koma kaupmáttartrygging annars mun kaupmátturinn hríðfalla. Boðorð næstu vikna verður kaupmáttartrygging, annars verður hinn lélegi núverandi kaupmáttur enn rýrður.

Að endingu, herra forseti. Á Íslandi er hæsta verðlag og lægstu laun af nágrannalöndum okkar. Ég held að verkalýðshreyfingin ætti að setja sér það mark að því linni.