23.04.1986
Neðri deild: 98. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (4345)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. sem er að finna á þskj. 1103 og er frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Nál. hljóðar þannig:

„Nefndin hefur haft þetta mál til meðferðar. Nefndin varð ekki einhuga um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur áherslu á að hér er einungis um heimildarlög að ræða og leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er till. um á sérstöku þskj."

Undir þetta nál. rita Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal. Minni hl. nefndarinnar skilar séráliti á þskj. 1102 og leggur til að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Ég vil bæta því við að það hefði verið æskilegt fyrir fjh.- og viðskn. að fá lengri tíma til afgreiðslu þessa máls. Málið var ekki lagt fram fyrr en í morgun og okkur vannst ekki tími til að athuga það svo vel sem við hefðum kosið. Það eru margir lausir endar í þessu máli. En hér er einungis um heimildarlög að ræða og ég hef fullvissað mig um að heimildir verði ekki veittar fyrr en lausir endar hafa verið hnýttir þannig að málið liggi ljósara fyrir en það gerir á þessari stundu.

Rekstur Arnarflugs hefur gengið illa undanfarið og félagið er í mjög miklum erfiðleikum. Rekstraráætlun hljóðar upp á að félagið skili hagnaði á þessu ári. Það er ekkert nýtt í íslenskum flugrekstri að flugfélög eigi í erfiðleikum. Við munum ítrekað eftir erfiðleikum hjá Flugleiðum og eins hjá þessu flugfélagi, Arnarflugi. Björgun Flugleiða á sínum tíma tókst og tókst vel og ég tel persónulega að athugandi hefði verið að fara svipaða leið núna, þ.e. leggja fram hlutafé frá ríkinu og veita félaginu handleiðslu til að sigrast á erfiðleikunum. Það eru ekki allir jafnmiklir ríkisrekstrarmenn og ég í stjórnarliðinu og sú leið var ekki valin. Þess vegna er farið hér í að afla heimilda til ríkisábyrgðar svo fremi sem frekari athugun málsins leiði í ljós að skynsamlegt verði að veita þá ábyrgð.

Það eru tveir kostir fyrir hendi, annaðhvort að hleypa þessu félagi á hausinn eða að rétta því hjálparhönd. Það er margt sem mælir með því að rétta félaginu hjálparhönd. Það er í samkeppni við erlend flugfélög í leiguflugi. Það hefur haslað sér allgóðan völl á þeim markaði og sá markaður mundi tapast úr höndum Íslendinga.

Í öðru lagi er félagið með kaupleigusamning á vél. Hagnaður af honum gæti orðið 4-5 millj. dollara. Ef félagið strandaði núna væri sá hagnaður enginn. Þá mundu Ameríkumenn hirða hann.

Þá má geta um það að áliti landsins út á við væri stefnt í hættu ef ekki væri staðið við gerða samninga og gerðar skuldbindingar og álit landsins sem ferðamannalands mundi bíða mikinn hnekki. Ferðamannaþjónusta innanlands mundi enn fremur bíða augljósan hnekki við það að áætlanir Arnarflugs stæðust ekki. Félagið hefur lagt í verulegan kostnað vegna auglýsingaherferðar vegna ferðamanna til Íslands. Svo mætti lengi telja.

Þess vegna teljum við rétt að hér sé opin heimild til fjmrh. f.h. ríkissjóðs að veita Arnarflugi sjálfskuldarábyrgð fyrir láni sem tekið verður til að bæta greiðslustöðu fyrirtækisins.

Við meirihlutamenn munum að sjálfsögðu fylgjast áfram með framvindu málsins. Við flytjum brtt. á þskj. 1104 við 2. gr. 3. tölul. sem orðast þannig:

„Öll opinber gjöld við ríkissjóð, sem í vanskilum eru, verði greidd upp á næstu fjórum árum. Fjmrh. er heimilt að semja um greiðsluhætti.“

Þetta er breyting frá því sem segir í frv. þar sem lagt er til að ölI opinber gjöld við ríkissjóð, sem í vanskilum eru, verði greidd upp ásamt viðurlögum af andvirði þess láns sem tekið verður með ríkisábyrgð. Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir því og það þarf ekki að taka það fram að vanskilin og þessar skuldir verða að greiðast með viðurlögum þó að það sé ekki tekið fram í þessum texta.

Önnur atriði, sem eru skilyrði ríkisábyrgðar, standa óhreyfð, þ.e. í fyrsta lagi að fyrir liggi skilyrðislaus loforð um nýtt hlutafé í fyrirtækinu að fjárhæð a.m.k. 95 millj. kr., verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu í apríl 1986. Í öðru lagi, réttindi skv. kaupleigusamningi, sem Arnarflug hf. hefur gert upp um flugvélina TF-VLT (Boeing 737-205 C), skulu vera til tryggingar áhættu ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðarinnar. Fjmrh. ákveður nánar framkvæmd þessa ákvæðis og setur þá skilmála sem nauðsynlegir þykja til að draga úr áhættu ríkissjóðs.

4. liðurinn hljóðar þannig: „Enn fremur að uppfyllt verði önnur þau skilyrði sem nauðsynleg þykja að mati fjmrh.“

Við leggjum sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem getið er um á þskj. 1104.