13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á þessi ávarpsorð mín vegna þess að ég kann ekki að meta ávarpsorð hæstv. fjmrh. til forseta.

Hér hefur verið lögð fram lánsfjáráætlun og viðeigandi frv. til lánsfjárlaga. Frv. var lagt fram á réttum tíma í samræmi við nýsett lög þar um og er það sannarlega góðra gjalda vert. Hitt er öllu lakara að framlagning fjárlaga og lánsfjáráætlunar reynist að þessu sinni hafa verið algert ómark eða öllu heldur feilskot út í bláinn og verður þá að segjast að til lítils er barist og lítið unnið ef þau plögg sem lögð eru fram á tilsettum tíma reynast alls ekki þau skjöl sem Alþingi er ætlað að leggja til grundvallar við umræðu mála. Á seinustu vikum hefur það verið að koma í ljós að fjárlög og lánsfjáráætlun eiga að taka verulegum breytingum frá því sem ákveðið hafði verið fyrir tveimur mánuðum af stjórnarflokkunum, samþykkt af þeim, og svo ótrúlegur er þessi hringlandaháttur allur að í einni setningu hjá hæstv. fjmrh, í ræðu hans hér í gær var þjóðinni tilkynnt að einar litlar 400 millj., sem ætlunin hefði verið að afla með hækkun söluskatts, hverfa út úr myndinni og eitthvað allt annað kemur í staðinn án þess að það sé nú mikið frekar útskýrt.

Ég vil leggja á það áherslu þegar í upphafi, þegar ég ræði þennan dæmalausa hringlandahátt núverandi stjórnarflokka, að það er ekki að sjá að hæstv. fyrrv. fjmrh. beri hér fyrst og fremst ábyrgð á. Sökin er bersýnilega hjá þingflokki Sjálfstfl. sem virðist samþykkja eitt í dag og annað á morgun. Þegar við nú tökum afstöðu til fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunar er okkur því engin leið að átta okkur á því hvort hér sé enn um marktækt plagg að ræða, hvort ekki kemur einhver önnur vending upp á næstunni þannig að þessu verði öllu velt við.

Í þeim símskeytastíl um stórákvarðanir sem einkenndi ræðu hæstv. fjmrh. í gær kemur m.a. fyrir þessi ágæta setning: „Hækkun tekna ríkissjóðs vegna breytts vörugjalds er áætluð rúmur 1 milljarður kr.“ Takk fyrir. 1000 millj. kr. nýjar álögur í formi vörugjalds. - En hvers konar álögur eru þetta? Hvað felst á bak við þessa setningu? Það fengu hv. þm. auðvitað ekki að vita og enn síður stjórnarandstæðingar. Það á bara að leggja 1 milljarð, 1000 millj. kr., á í formi breytts vörugjalds og meira þurfum við ekki að vita.

Auðvitað eru þetta dæmalaus vinnubrögð og svo forkastanleg að engin viðeigandi orð hæfa sem hægt er að flytja af ræðustóli Alþingis.

Ég hef sterkan grun um að lánsfjáráætlun eigi enn eftir að taka verulegum breytingum. Ég hef sterkan grun um að fjárlagafrv. eigi enn eftir að taka verulegum breytingum. Enn er gert ráð fyrir mjög stórfelldum halla í fjárlagadæminu þótt annað sé látið líta út á yfirborðinu. Hæstv. fjmrh. veit það alveg jafnvel og aðrir þm. að það vantar geysilega stórar summur í fjárlagadæmið og þar eru margar tölur verulega vanáætlaðar. Þessar upphæðir kalla annað tveggja á nýja fjáröflun eða nýjar erlendar lántökur sem auðvitað munu breyta í grundvallaratriðum lánsfjáráætlunardæminu. En þetta fáum við þm. ekkert að vita um og erum hér að ræða um lánsfjáráætlun sem engin leið er að botna í hvað raunverulega á að merkja.

Mér er sagt að það vanti raunverulega upp undir milljarð enn í fjárlagadæmið. Ég hygg að flestum stjórnarþm. sé kunnugt um að sú umræða sem hér fer fram nú um fjárlög annars vegar og lánsfjáráætlun hins vegar er ekkert annað en sýndarmennska, yfirvarp til þess að uppfylla formsatriði þannig að hægt sé að vísa þessum málum til fjvn. og halda þar áfram vinnu, en öll hin talnalega umræða er í lausu lofti og byggir ekki á neinum föstum staðreyndum því að allt á þetta eftir að breytast í grundvallaratriðum.

Þó er ljóst af því sem fram hefur verið lagt að áfram mun stefna í erlenda skuldasöfnun þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða. Erlendar skuldir þjóðarinnar út á við hafa hækkað mjög verulega í tíð þessarar ríkisstj. Það þekkja allir og þarf ekki að gera hér grein fyrir. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu nemur hækkun erlendra skulda um 29% í tíð þessarar stjórnar. Talan er sem sagt komin langt yfir 60% miðað við útreikningsmáta sem gilt hefur um margra ára skeið og er sá eini útreikningsmáti sem er sambærilegur við það sem var hér fyrr á árum og miðað var við, en ríkisstj. hafði einmitt gefið það loforð, hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir hennar hönd, að erlendar skuldir skyldu ekki fara yfir 60%. Það er kunnugt af umræðu undanfarinna ára að þetta loforð er löngu svikið og það eru engar horfur á því að þetta skuldahlutfall lækki niður fyrir 60% með samþykkt þessa lánsfjárlagafrv.

Ein helsta ástæðan fyrir þessum miklu lántökum er eins og kunnugt er verulegar orkuframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Nú væri það auðvitað í lagi ef þar væri um að ræða framkvæmdir sem skiluðu þjóðinni arði að skömmum tíma liðnum. En eins og hv. þm. þekkja afar vel er svo ekki. Orkuframkvæmdir seinustu tveggja ára eru langt umfram þarfir. Það er verið að fjárfesta í orkumannvirkjum bæði norðan heiða og sunnan heiða án þess að fyrir liggi markaður fyrir þá orku. Það er leikur stjórnarflokkanna, áróðursleikur þeirra, að kenna Alþb. um í þessu sambandi, segja í einni setningu: Auðvitað er þetta allt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að kenna. Það var hann sem stóð fyrir þessum framkvæmdum. Það var hann sem tök þessar ákvarðanir og nú er verið að súpa seyðið af ákvörðunum hans. - En þetta er áróður. Þetta er falsáróður sem auðvelt er að lýsa í gegnum með örfáum ábendingum.

Í fyrsta lagi var það aldrei ætlun fyrri ríkisstjórnar, þegar hún setti fram sínar orkuáætlanir, að orkuframkvæmdir yrðu umfram þarfir ef annað kæmi í ljós. Því er auðvitað ekki að leyna að orkuspá hefur verulega breyst. Hún fór að gera það þegar fyrir tveimur árum. Þá hlaut að vera nauðsynlegt að breyta framkvæmdaáætlunum frá því sem Alþingi hafði áður gert ráð fyrir.

Í öðru lagi reiknaði fyrri ríkisstjórn, þar á meðal hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem þá var ráðherra, með því að íslenska ríkið stæði fyrir byggingu kísilmálmverksmiðjunnar á Reyðarfirði og stæði ekki eins og þvara í því máli, bíðandi eftir að einhver draumaprins kæmi úr útlöndum til að frelsa ríkisstj. frá því að hafa frumkvæði í því máli. En það er einmitt það sem gerst hefur að núverandi ríkisstj. hefur ekki viljað láta Íslendinga sjálfa byggja þessa verksmiðju og reka hana heldur beðið eftir að það kæmi erlendur auðhringur og tæki að sér þetta verk. Þess vegna hefur verksmiðjan ekki verið byggð og þess vegna er sú orka, sem ætluð var í þessa verksmiðju, umfram í kerfinu. Sem sagt, ríkisstj. ber alfarið ábyrgð á þeirri umframorku í kerfinu sem má rekja til þessarar ástæðu. Ekkert hefur orðið af framkvæmdum í stað þess að þegar um þessi mál var rætt í fyrri ríkisstjórn var gert ráð fyrir því að þessi verksmiðja tæki til starfa á árinu 1985 eða 1986.

spá hefur verulega breyst. Hún fór að gera það þegar fyrir tveimur árum. Þá hlaut að vera nauðsynlegt að breyta framkvæmdaáætlunum frá því sem Alþingi hafði áður gert ráð fyrir.

Í öðru lagi reiknaði fyrri ríkisstjórn, þar á meðal hv. þm. . . þm.

Í öðru lagi hefur núverandi ríkisstj. mænt vonaraugum til svissneska álhringsins, að hann tæki sér fyrir hendur að stækka álbræðsluna í Straumsvík um 50% og þar yrði verulegur orkumarkaður fyrir hendi. Af þessari ástæðu hefur Landsvirkjun haldið áfram framkvæmdum, bæði norðan heiða og sunnan heiða, í þeirri von að álhringurinn yrði kaupandi að verulegu orkumagni. Sem betur fer hefur þetta brugðist því að þjóðin hefði svo sannarlega stórapað á þeim viðskipfum.

Svissneski álhringurinn hefur aldrei verið reiðubúinn til að kaupa orku af okkur Íslendingum öðruvísi en verðið væri langt undir kostnaðarverði. Sú afstaða er óbreytt. Það hefur eitthvað staðið í núverandi stjórnvöldum að gera slíkan samning við svissneska álhringinn enn sem komið er, en þó má greina það af áróðri stjórnarsinna, sérstaklega fyrrverandi orkuráðherra Sverris Hermannssonar og leiðaraskrifum Morgunblaðsins, að þessir aðilar séu að búa þjóðina undir að hún verði að taka því að orkan verði seld á miklu lægra verði en þjóðin verður að greiða í kostnað vegna framleiðslu orkunnar.

Tölur, sem áður þóttu sjálfsagðar og óhjákvæmilegar sem viðmiðun við orkusölu til erlendra aðila, þ.e. 1820 mill, eru nú taldar fjarstæða af talsmönnum stjórnarflokkanna, m.a. af hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni sem hefur látið hafa það eftir sér að ekki sé raunhæft að selja orkuna á þessu verði og við verðum að sætta okkur við eitthvað miklu lægra verð.

Það er sem sagt ýmislegt að gerast í þessum málum þessar vikurnar og mánuðina. Núverandi stjórnarflokkar eru greinilega að búa sér til nýja víglínu. Þeir eru að búa sig undir að hörfa með sitt lið frá þeirri víglínu sem þeir höfðu áður skapað sér, að það yrði að selja orkuna á kostnaðarverði, og eru að búa sig undir að hrekjast í að gera samninga um orkusölu þar sem yrði um stórkostlegt tap að ræða fyrir þjóðina.

Nú veit ég að sjálfsögðu ekki hvert er viðhorf núverandi iðnrh. til þessara mála. En af því að hann er hér nærstaddur og heyrir mál mitt verð ég aðeins að segja það að við hv. þm. yrðum honum þakklátir ef hann gæti eitthvað upplýst okkur um það hver séu áform hans í þessum efnum. Því að sannarlega ber ég þá von í brjósti fyrir hönd þjóðarinnar og hagsmuna hennar að hann muni stinga hér við fótum og neita að gera samninga við svissneska álhringinn á þeim nótum sem maður hefur orðið var við að væru áform ýmissa í hans flokki. Ef hann gæti upplýst okkur eitthvað um þá hlið málsins yrðum við þakklátir honum því að það hlýtur að skipta ákaflega miklu máli í þessu samhengi öllu hvort til stendur að gera nýja orkusölusamninga eða ekki.

En sem sagt, þetta eru aðalástæðurnar fyrir því að orkuframboð í orkukerfi landsmanna er langt umfram þarfir:

Í fyrsta lagi að ríkisstj. hefur ekki viljað byggja kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði á vegum Íslendinga sjálfra heldur beðið eftir erlendum auðhring til að standa fyrir þeirri nýbyggingu og hann hefur enn ekki komið fram í dagsljósið. Svo er hin ástæðan, að beðið hefur verið eftir nýjum orkusölusamningi við svissneska álhringinn.

Vegna þess að hv. stjórnarliðar halda uppi þessum falsáróðri í garð Alþb. og fyrri ríkisstjórnar vil ég minna á það enn einu sinni að við Alþýðubandalagsmenn höfum lagt á það áherslu við afgreiðslu lánsfjáráætlunar aftur og aftur að ekki yrði varið eins háum fjárhæðum til orkuframkvæmda og ríkisstj. hefur ráðgert. Við höfum talið að þarna væri um offjárfestingu að ræða og höfum eindregið mælt með því að orkuframkvæmdirnar yrðu skornar niður. Þetta kemur ljóslega fram í umræðum um lánsfjáráætlun á árunum 1983 og 1984.

Enn er það skoðun okkar að miðað við ríkjandi aðstæður sé engin ástæða til að verja hálfum milljarði kr. til orkuframkvæmda eins og núverandi ríkisstj. virðist gera ráð fyrir. Við höfum að vísu ekki fengið sundurliðun á lántöku Landsvirkjunar og má vera að lántaka hennar upp á hálfan milljarð sé hvort tveggja í senn ætluð til fjárfestinga og til afborgana af fyrri lánum, vegna þess að hún sé að framlengja lán, ekki skal ég um það fullyrða því að ég hef ekki séð neinar tölur um það. En ég segi það hins vegar að niðurskurður á lántökum til Landsvirkjunar upp á 250 millj. kr., sem er áform núverandi fjmrh. og ríkisstj., er allt of lág upphæð og þar mætti skera miklu meira niður.

Að öðru leyti er augljóst mál af þessu frv. að á nokkrum sviðum félags- og menningarmála verður um allheiftarlegan og miskunnarlausan niðurskurð að ræða. Eins og fram kemur í frv. eru Lánasjóði íslenskra námsmanna ekki ætlaðar nema 1100 millj. kr. og það er sérstaklega tekið fram að sjóðurinn fái alls ekki meira fjármagn. Ég hef ekki séð neina útreikninga á því hversu langt þetta fé dregur miðað við þarfirnar, miðað við útlánaáform sjóðsins að óbreyttum lánareglum. En vissulega væri þörf á því að hæstv. fjmrh. eða hæstv. menntmrh. gerðu þm. einhverja grein fyrir því hvort þarna verður um stórfelldan niðurskurð á lánveitingum til námsmanna að ræða, því að það er mín skoðun og okkar Alþýðubandalagsmanna að síst megi námsmenn við því að verða fyrir stóráföllum nú með verulegri skerðingu námslána þegar það bætist við þá kjaraskerðingu sem þeir og allir aðrir landsmenn hafa orðið fyrir og þeir hafa svo miklu minni möguleika til að afla sér tekna en áður var.

Ég vildi sem sagt óska eftir því að annaðhvort fjmrh. eða menntmrh. gerðu hér einhverja grein fyrir því hvað þessi tala, 1100 millj., felur í raun og veru í sér og hvort breyta þarf lánareglum í stórum stíl til að þessi upphæð geti fullnægt útlánaáætlunum sjóðsins og hvort þar verður þá um verulega skerðingu að ræða á kostnað námsmanna.

Ekki fer á milli mála að það svið, sem sérstaklega hefur orðið fyrir barðinu á niðurskurði fjmrh., er menningarsviðið að þessu sinni. Það var vissulega búið að skera félagsmálin mjög verulega niður. T.d. verður Framkvæmdasjóður fatlaðra fyrir mjög verulegri skerðingu í þessum lánsfjárlögum og mun hv. þm. Helgi Seljan víkja að því hér á eftir.

Það er eftirtektarvert að á menningarsviðinu eru valin nokkur verkefni sem skorin eru mjög hressilega niður við trog. Við samþykktum ný lög um Kvikmyndasjóð fyrir einu og hálfu ári síðan. Þar var gert ráð fyrir tilteknum fjárveitingum til kvikmyndamála og því var mjög fagnað af talsmönnum allra flokka þegar sú lagabreyting átti sér stað. En síðan höfum við horft hér upp á einn samfelldan skrípaleik í sambandi við málefni Kvikmyndasjóðs því að til skiptis er hann með allt sitt á hreinu eða skorinn niður við trog. Í fyrra var lagt fram fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun þar sem sjóðurinn var skorinn niður við trog aðeins hálfu ári eftir að svo ágætlega hafði verið gengið frá hans málum hér í þinginu. Síðan var gefinn slaki í fjvn. að nokkru leyti og svo kom fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundsson eins og frelsandi engill þegar á leið veturinn og bjargaði þessum málum alfarið og allir máttu vel við una. En svo á þessi skollaleikur að byrja á nýjan leik alveg nákvæmlega eins og í fyrra, sjóðurinn skorinn niður við trog.

Á þessu stigi málsins vil ég ekkert segja um það hvernig seinasti þáttur þessa gamanleiks verður á þessum vetri en ég verð að vona að þetta verði leikur sem endi vel og flokkist undir kómedíu en ekki tragedíu því að sannarlega vænti ég þess að þessi ríkisstj. gangi ekki af íslenskri kvikmyndalist dauðri með því að skera þar allar fjárveitingar niður.

Kvikmyndamálin hafa lengi verið herfilega vanrækt hjá okkur Íslendingum. Þar hafa stórmerkilegir hlutir verið að gerast á seinustu árum með stuðningi allra flokka. Svo er eins og komi einhver dularfull svört hönd sem gerir tilraun til þess annað veifið að lífláta þessa listgrein hér á landi, kremja hana til dauða. Og svo aftur einn og einn frelsandi engill sem breytir málunum á þann veg að allir geti vel við unað. Við skulum sannarlega vona að hann verði til í stjórnarliðinu einnig á þessum vetri.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þessar skerðingar að öðru leyti. Þær voru ræddar hér í gær. Mjög eftirtektarverð er sú árás sem gerð er á íslenska menningu í þessu fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun þar sem á að skera niður við trog í fyrsta lagi Þjóðarbókhlöðuna, í öðru lagi Listasafn Íslands, í þriðja lagi framkvæmdir Háskóla Íslands, í fjórða lagi Raunvísindastofnun og í fimmta lagi Kvikmyndasjóð.

Þessi vinnubrögð virðast vera svo handahófskennd að þau minna mann einna helst á refsiaðferðir rómverskra herforingja hér áður fyrr. Þegar einhverjir hópar manna höfðu hagað sér illa að þeirra dómi voru þeir ekki að refsa mönnum hæfilega og láta jafnt yfir alla ganga. Þeir notuðu þá aðferð sem .kölluð var að „desimera“. Þeir stilltu mönnum upp í einfalda röð og tóku af lífi tíunda hvern mann. Það er kannske svolítið svipuð aðferð sem hefur verið notuð í sambandi við niðurskurðinn hér í menningarmálunum. Ráðist er hér og hvar á einn og einn lið og hann skorinn niður án þess að mikil hugsun virðist vera þar á bak við. Sá er þó munurinn að dauðir menn verða ekki lífgaðir aftur en hægt er að taka til baka það sem hér er lagt til og við skulum sannarlega vona að á því fáist gerðar breytingar.

Ég álít að þessi drög að lánsfjárlögum séu óraunsæ með ýmsum hætti. Það er bersýnilegt að innlend lánsfjáröflun er ofmetin en erlendar lántökur atvinnuveganna eru vanmetnar. Það er líka augljóst, eins og ég hef þegar rakið, að þessi áætlun er ómarktæk á þessu stigi málsins og ætti alls ekki að koma til umræðu nú. Ég hef lagt hér áherslu á að orkuframkvæmdir ætti að skera miklu meira niður en gert er ráð fyrir í þessari lánsfjáráætlun og ég hef harmað þá árás á félags- og menningarmál sem hún felur í sér. Ég læt þessar ábendingar nægja við 1. umræðu málsins.