17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég á oftlega bágt með að gera mér grein fyrir því til hvers stefnuræða er flutt. Enn síður get ég áttað mig á því hvers vegna umræður eru hafðar um hana. Þetta segi ég vegna þess að það er hvort eð er sjaldnast nokkurn hlut að marka sem lesið er upp úr þessu plaggi. Í fyrra var t.d. seint og um síðir flutt hér stefnuræða og umræður hafðar um hana með pompi og prakt. Ekki veit ég hvort höfundur hennar gerði sér grein fyrir því við flutning hennar að hann átti eftir að gefa út tvær stefnuyfirlýsingar til viðbótar á sama þinginu. Eini munurinn var sá að í kringum hinar tvær seinni voru ekki fluttar neinar stefnuræður og því síður haft svo mikið við að umræður færu fram um þær. Þess vegna veit ég eiginlega ekki hve miklum tilgangi það þjónar að vera yfirleitt að fjalla um þá ræðu sem nú hefur verið flutt.

Það segir sig hins vegar sjálft að með því að standa stöðugt í þessum stefnuleiðréttingum dæmir ríkisstj. sig og gerðir sínar auðvitað hvað harðast sjálf. Þetta verður eins konar einkunnagjöf. Harðasti dómurinn, lakasta einkunnin hlýtur auðvitað að falla í hlut hæstv. forsrh. Hann hlýtur þá einkunn fyrir þau harðindaár af manna völdum sem honum hefur tekist að láta ganga yfir þetta land að undanförnu. Það er hann sem átt hefur aðild að öllum þeim ríkisstjórnum sem staðið hafa fyrir þeim aðgerðum sem leitt hafa okkur í þessar ógöngur. Honum mætti einna helst líkja við skólastjóra sem ekki hefur á nokkurn hátt tekist það hlutverk sem honum var ætlað, en þó hafa sótt til hans fleiri kennarar en stöðuveitingar leyfðu, sbr. stólaskarkið að undanförnu. En núverandi stjórnarherrar eru allsendis ófærir um að framkvæma gömlu gylltu loforðin vegna þess að þeir eru allir bundnir á klafa hinna ýmsu hagsmunasamtaka með svo sterkum böndum að það er lítil von til þess að þeim takist að hrista af sér slenið og slíta þau.

Hér eru það fyrst og fremst hagsmunaöflin í Framsfl. sem hafa töglin og hagldirnar. Og hvert skyldi nú vera framlag Sjálfstfl. í þessu samstarfi? Í fljótu bragði virðist mér sem framlag hans sé fyrst og fremst fólgið því að tylla undir botninn á SÍS-veldinu, feitasta hluta framsóknar. En á stundum minna þó þessi samskipti íhalds og framsóknar meira á fjölbragðaglímu en faðmlög með öllum þeim gífuryrðum sem fallið hafa. Allur þessi skollaleikur sýnir nauðsyn þess að gera breytingar á stjórnkerfi okkar þannig að hægt verði um vik að skera á og koma í veg fyrir þá eilífu hagsmunaárekstra sem standa því æ meir fyrir þrifum. Einfalt en áhrifaríkt ráð sem fyrsta skref í átt til endurbóta á stjórnkerfinu væri, eins og Bandalag jafnaðarmanna hefur lagt til, að ráðherrar tækju embætti sín nú svo alvarlega, og sýndu með því í verki þá virðingu fyrir störfum þm., að þeir eftirlétu varamönnum þingsæti sín um leið og þeir sjálfir gerðust ráðherrar. Með þessu móti yrði komið í veg fyrir að sami maðurinn ætti sæti báðum megin við borðið, enda verður að knýja á um það að þessi og önnur þvílík tengsl verði rofin. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sú kynslóð sem nú fer með völd hefur ekkert leyfi til þess að haga sér án tillits til þess hvernig umhorfs verður að henni genginni. Í þessum hildarleik hagsmunanna er það svo, að það hefur ekki einu sinni verið haft fyrir því að búa sæmilega að þeim sem taka eiga við arfinum, eða börnunum í þessu landi.

Stjórnarsinnar klifa stöðugt á því að með samtakamætti og stjórnvaldsaðgerðum hafi tekist að ná verðbólgunni niður um svo og svo mörg prósentustig. Það mátti einna helst skilja orð hæstv. forsrh. þannig að hann hefði aldrei komið nálægt því að koma þjóðarbúinu á þann kalda klaka sem það er nú statt á. Þegar hann talar um að margt hafi áunnist í rétta átt í tíð núverandi stjórnar tekst honum að láta það hljóma rétt eins og hann sé að hnýta í einhvern annan fyrir það hvernig til hefur tekist við stjórnun efnahagsmála. En þessir herrar ráðanna, sem ég líkti fyrr í máli mínu við lélega kennara, gleyma því alveg að það býr fólk í þessu landi og svo ég haldi áfram með samlíkingar hlýtur fólkið í landinu að vera börnin í skólanum. Bekkurinn er þá auðvitað samsettur sem þversneið af þjóðfélaginu, en það byggist á hversu mjög er misskipt kjörum og aðstæðum. Þar liggja sumir nemendurnir andvaka um nætur vegna þess að þeir horfa upp á vandamál og erfiðleika foreldra sinna sem eru afleiðingar þess hve erfitt er um vik að komast af í þjóðfélaginu. Þeir eiga erfitt með að átta sig á og skilja hvað það er sem valdið getur því að heimilislífið er allt í rúst. En svo eru önnur börn í bekknum sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessum toga.

Skattakerfið er orðið svo úrelt og rotið að það er orðið löngu ljóst þeim sem hafa vilja augun opin að með sama áframhaldi stefnum við hraðbyri í átt til sömu andstyggilegu stéttaskiptingarinnar sem er að tröllríða sumum nágrannaþjóða okkar, t. d. Bretum. En á þessu sviði gildir alveg sama sagan. Það má ekki hreyfa við neinu. Það gæti orðið til þess að bregða fæti fyrir þá sem síst skyldi út frá sjónarmiði flokkshagsmunanna, t.d. VSÍ eða aðra gæðinga.

Tillögur hæstv. forsrh. hafa m.a. verið á þá leið að hvetja þurfi til meiri sparnaðar til þess að draga úr þenslunni í þjóðfélaginu, eins og það er orðað. En þá mætti einmitt spyrja sem svo: Hverjir eru það sem hafa eitthvað aflögu til að leggja til hliðar í þessu landi? Eru það einstæðu mæðurnar sem skv. nýjustu rannsóknum hafa hærri laun en atvinnurekendurnir? Nei. Eru það aldraðir sem varla hafa í sig og á nema því aðeins að þeir hafi verið svo heppnir á starfsævi sinni að greiða í marga lífeyrissjóði? Nei. Það geta ekki verið þeir. Eru það e.t.v. húsbyggjendurnir sem ekkert eiga nema ef vera kynni á nauðungaruppboðum? Nei. Það hljóta að vera einhverjir aðrir en þeir, sem ég hef talið upp hér að framan, sem forsrh. er að höfða til sem væntanlegra sparifjáreigenda.

Það er greinilega tími til kominn að aðstoða þessa stöðnuðu kerfiskarla við að ná höfðinu upp úr sandinum.

Góðir áheyrendur. Það er um það sem þjóðin þarf að sameinast og það verður að vera brýnasta verkefni Alþingis í vetur. - Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.