14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

Hafskip og Útvegsbankinn

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það var galli á fjaðrafoki hv. málshefjanda, Jóns Baldvins Hannibalssonar, að hann gerði ekki greinarmun á lágkúrulegum vangaveltum og alvöruhugmyndum í harðskeyttum viðskiptum á alþjóðavettvangi sem þetta mál snýst um fyrst og fremst. Allt í einu á að fara að hrópa út bankastjóra þótt gefi á bátinn.

Auðvitað eiga bankar að taka áhættu og það er vert að slíkt komi fram í umræðunni sem hér á sér stað. Bankar eiga að taka áhættu alveg eins og fiskiskipið á að taka áhættu og tekur áhættu og hvert það fyrirtæki sem sinnir rekstri. Þetta ætti ekki að koma fólki á óvart í veiðimannasamfélagi eins og við búum í. En það vill oft gleymast að það er grunnurinn í okkar samfélagi, veiðimennska, sem vissulega fylgir ætíð mikil áhætta.

1981 og 1982 voru útflutningsverðmæti af sjávarafla u.þ.b. 700 millj. dollara. 1983 og 1984 hlaupa þessar tekjur niður í 500 millj. dollara. Það er mikil áhætta fyrir þjóðfélag að búa við slíkar sveiflur. En þannig getum við einnig reiknað með sveiflum hvort sem er í bankakerfi eða í öðru í okkar rekstri í okkar landi.

Það er veruleg áhætta fyrir stjórnvöld að treysta á þjóðhagsáætlun, treysta á aflaspá, treysta á gengismál og markaðsstöðu. En það er engin massíf miðstýring sem við getum reiknað með í þessum efnum frekar en í öðru þar sem á að reikna með lífi og titringi.

„Aftur og aftur," sagði hv. þm. Svavar Gestsson, „hefur þurft að koma Útvegsbanka Íslands til hjálpar.“ Þetta var merkileg yfirlýsing. Í framhaldi af því sagði hv. þm. að oft hefði Útvegsbanki Íslands verið í vandræðum vegna gæludýra Sjálfstfl. Það er allt í lagi að kalla blómlegt athafnalíf í öllum þáttum á Íslandi gæludýr Sjálfstfl. og ég get verið sáttur við það. Ég veit hins vegar að hv. þm. Svavar Gestsson, formaður Alþb., á sér eitt gæludýr. Hann var á fundi með þeim gæludýrum á landsfundi flokksins fyrir stuttu, öllum voffunum sínum, og var meira að segja drifinn í bað, hreinsun með gæludýrunum, hvort sem hann vill kalla þá kynslóð lýðræðiskynslóð eða lýðæðiskynslóð. Ég er ekkert viss hvað hv. þm. vill meina í þeim efnum.

En það minnir líka á að þegar óværa kom upp á slíkum dýrum í sveitinni tíðkaðist lengst af að baða tvisvar. Það virðist ekki hafa dugað að halda einn landsfund til að ná óværunni út miðað við málflutning hv. 3. þm. Reykv. hér fyrr vegna þess að þegar sagt er að aftur og aftur hafi þurft að koma Útvegsbanka Íslands til hjálpar, þá er það rangt. Ég mun víkja að því aðeins síðar.

Það var hins vegar skemmtilegt að heyra hv. þm. Svavar Gestsson taka svo afdráttarlaust undir hugmyndir Þorsteins Pálssonar um sameiningu banka. En það er í rauninni allt annað mál og er óþarfi að rugla öllu saman í þessu tilviki. Nær væri að þeir, sem kasta hér fram gífuryrðum og annarri hverri setningu sem er ekkert nema ef, skiptu sér í ríkara mæli af þeim þjóðmálum sem tímabært er að tala um.

Það er alltaf matsatriði hvar á að leggja mál fram, hvar á að leggja spil á borðið. En við erum að fjalla hér um mál sem að mínu mati er ekki tímabært að fjalla um með slíkum gífuryrðum sem hér hefur verið gert af nokkrum ræðumönnum. Alþm. eiga ekki að vera sjálfskipaðir dómarar. Fyrst skulu staðreyndir koma á borð áður en menn fara að dæma. En það undirstrikar hina miklu málefnafátækt stjórnarandstöðunnar að blása hér út og suður í máli sem er unnið að af fullum krafti af réttum aðilum. Ætli það sé ekki hyggilegt að leyfa flugvél að lenda eða bát að koma í höfn áður en menn fara að argast út í eitthvað sem hefur bjátað á í ferðinni? Það er hyggilegt að kanna á réttum tíma hvort um afla eða aflatjón er að ræða, að láta staðreyndir liggja fyrir. Auðvitað koma þessar staðreyndir á borðið hjá stjórnendum þess banka sem hér um ræðir.

Það er líka hæpið í slíkum ræðuflutningi að vitna sífellt í fréttasamtöl þar sem augljóst er að viðmælendur telja ekki tímabært að tjá sig um staðreyndir málsins og fara undan í flæmingi. Síðan eru þessi fréttasamtöl hnýtt upp í ræðum hér á hv. Alþingi. Það er ekki til mikillar fyrirmyndar. Það er eðlilegt að blaðamenn rói fast í hverju máli sem upp kemur og titringi veldur. En hv. þm. ættu að hafa einhverja möskvastærð á þeim gífuryrðum þar sem ruglað er saman orðrómi, almennum vangaveltum og öðru sem hér hefur komið í einn pott.

Áhætta banka er mikil og hún á að vera mikil. Auðvitað þurfa bankar, ef menn tala í alvöru, að hafa hagnað. Auðvitað þurfa bankar að geta afskrifað. Annars er hætta á að bankakerfið verði aðallega fjárvana sparisjóðir sem geta ekki staðið undir neinum hryggmiklum framkvæmdum sem ávallt kosta áhættu.

Sem betur fer gefum við státað af því að mörg íslensk fyrirtæki hafa staðið sig vel á alþjóðavettvangi. Hafskip er eitt þeirra en hefur lent í áföllum. Einn af traustustu þáttum íslensks sjálfstæðis er Eimskip um áratuga skeið, sem hefur staðið fyrir siglingum heiman og heim. Þetta eru þættir sem við verðum að vera tilbúin að standa við bakið á þegar á gefur ef við ætlum að lifa sjálfstæðu lífi í þessu landi.

Það hefur staðið tæpt hjá Flugleiðum og þeir hafa rétt úr kútnum vegna þess að þar, eins og í flestum öðrum stórfyrirtækjum landsins, eru hæfir menn, dugmiklir og áræðnir. Vert er að þakka fyrir að eiga slíka menn í umræðu þar sem aðallega er lógð áhersla á að höggva niður þótt pusað hafi yfir.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði að 1981 hefði ríkissjóður afhent Útvegsbanka Íslands 60 millj. kr. Þetta er rangt. Þetta voru 50 millj. kr. Við skulum hafa það sem sannara reynist. (Gripið fram í.) Það var ekki aðeins ríkissjóður sem afhenti þetta heldur einnig Seðlabanki Íslands. Fara með rétt mál.

Þá vitna ég aftur til orða hv. 3. þm. Reykv. þar sem hann sagði að ríkissjóður hefði oft þurft að koma til hjálpar Útvegsbanka Íslands. Þetta er í eina skiptið í sögu bankans sem ríkissjóður leggur fé í Útvegsbanka Íslands. Þá skulum við líka minnast þess að Útvegsbanki Íslands var stofnaður úr nístum Íslandsbanka árið 1930, ef ég man rétt, og vel að merkja með öfugum höfuðstól. Það var vöggugjöfin hjá þeim banka sem nú var verið að hreyta skítyrðum í.

Það mætti nefna t.d. á móti, svo að dæmi sé tekið, að ekki er nú allt illt fyrir ríkissjóð sem þessar stofnanir hafa gert. Nefna má að aðeins fyrir leyfi á gjaldeyrissölu hafa Landsbanki Íslands og Útvegsbanki greitt til ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á núvirði. Þarna á Landsbanki Íslands stærri hlut. einn og hálfan milljarð, og Útvegsbanki 500 millj. En það eru þessir tveir bankar sem hafa staðið undir nær öllum atvinnurekstri landsins um áratuga skeið. Auðvitað hlýtur því að fylgja mikil áhætta.

Sem betur fer hafa að öllu jöfnu verið hæfustu menn við stjórn í okkar bankakerfi þótt oft komi upp atriði sem menn sjá ástæðu til að gagnrýna og fjalla um. En þá er vert að gera það á málefnalegan hátt en ekki með skætingi.

Það er vissulega mikið áfall þegar einstaklingur eða fyrirtæki verður fyrir skakkaföllum í okkar litla þjóðfélagi. Við eigum að vera menn til að horfast í augu við slíkt og vinna það út úr máli sem eðlilegt er, leggja staðreyndir á borðið, fá það fram á réttan hátt en ekki í gegnum fjölmiðlabransa og meta síðan með tilliti til þess hvernig niðurstaðan er þegar upp er staðið frá könnun máls. Með tilliti til þess hve þetta mál er margslungið, hvernig saman spila erlend og innlend umsvif, hreyfingar á milli í viðskiptum, harðskeytt samkeppni á alþjóðavettvangi þar sem oft er stutt bilið á milli gæfu og ógæfu, þá ættu menn að varast slúðrið en byggja á staðreyndum.

Réttir aðilar í þessari stöðu sem nú er eru stjórnendur Útvegsbanka Íslands. Það er rétt að þeir fái tækifæri til að leggja spilin á borðið í þessu máli eins og eðlilegt er á viðskiptalegum grunni, eins og hv. 3. þm. Vesturl., formaður bankaráðs Útvegsbanka Íslands, sagði hér áðan. Í stuttu máli hefur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson því miður flogið nokkuð hátt í sínum málflutningi, eins og reyndar í fleiri málum sem hann tekur oft á, þar sem tærnar snýta skýjum.