21.10.1985
Neðri deild: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

52. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þetta frumvarp er flutt samkvæmt samkomulagi þingflokkanna eins og segir í athugasemdum við lagafrumvarpið. Ég staðfesti það fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna að samkomulag varð um flutning frumvarpsins. Það þýðir hins vegar ekki að allir þingmenn flokksins greiði því atkvæði sitt. Hins vegar mun enginn leggja stein í götu þess að það verði afgreitt með afbrigðilegum hraða hér frá deildinni. Ég mun því ekki tefja afgreiðslu þess með því að setja hér á langa tölu, en ég má til með að láta þess getið að ég er í grundvallaratriðum andvígur því sem frumvarpið felur í sér.

Frumvarpið er flutt til að tryggja Kvennalista fulltrúa í fjvn. svo sem var á síðustu tveimur þingum gert með sérstakri samþykkt Alþingis. Ég hef ekkert á móti því að Kvennalistinn eigi fulltrúa í fjvn. eða öðrum nefndum þingsins. En til þess að svo megi verða þarf listinn sem aðrir listar að hafa til þess nægilegt atkvæðamagn á Alþingi. Það hefur hann hins vegar ekki. Ég vara við því að haldið skuli áfram á þeirri braut, sem nokkrum sinnum hefur verið gengin, að veita flokki, samtökum eða lista, sem ekki hafa til þess afl á Alþingi, sæti í nefndum með því að fjölga þar sætum.

Ég bið hv. þdm. að hyggja að því fordæmi sem þarna er gefið. Við vitum ekki hvernig skipan þingsins kann að verða í framtíðinni, hversu margir smáflokkar kunna að eiga hér fulltrúa. Hvar ætla menn þá að draga mörkin? Afl flokka til áhrifa á Alþingi ræðst af kjörfylgi þeirra með þjóðinni í almennum kosningum. Alþingi getur því ekki breytt þingsköpum eftir úrslitum kosninga hverju sinni til þess að veita þeim sem ekki hafa hlotið nægilegt fylgi með þjóðinni sérstök réttindi á Alþingi.

Það sem ég hef sagt ætti að leiða til þeirrar niðurstöðu að ég greiddi atkvæði gegn þessu frumvarpi. Það mun ég þó ekki gera heldur sitja hjá. Sú er niðurstaða mín vegna þess að fyrir því finnast rök að ekki skuli breyta um hátt á miðju kjörtímabili. Þannig má heita víst að tíu hefðu setið áfram í fjvn. á þessu þingi ef ekki hefðu verið sett ný lög um þingsköp Alþingis á sl. vori þar sem kveðið er á um að þar skuli sitja níu. Ég tel til bóta við þetta frv. frá því sem áður var í hliðstæðum frv. að hér er einungis gert ráð fyrir að breytingin standi út þetta þing, 108. löggjafarþing. Þingmönnum gefst því tóm til að athuga sitt ráð og enginn sérstakur skaði skeður þótt þessi háttur verði hafður á á þessu þingi.