19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

Eldgos í Kólumbíu

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstj. að veita ákveðinni peningaupphæð til hjálparstarfs í Kólumbíu. Það er engin regla um það hvenær Íslendingar hafa gripið inn í hörmungar víða um heim, hvort sem um er að ræða hungur, fárviðri, eldgos eða aðrar hörmungar, en það er vel þegar gripið er til og sýnd samúð á þann hátt sem nú hefur verið ákveðið.

Það er ástæða til að benda á að það eru alltaf takmörk fyrir því hvað hægt er að láta af peningum í slíka aðstoð þótt hver einasta upphæð sé ávallt lág þegar um manntjón er að ræða. Slíkt verður ekki bætt. Mér finnst hafa verið tekið vel á þessu máli með ákvörðun ríkisstj.

Það var minnst á Vestmannaeyjagos og skaða sem það olli. Það eldgos olli tjóni sem nam um það bil 8 þús. millj. kr. gömlum og erlendis frá komu styrkir sem námu um 1000 millj. eða 10 millj. nýkr. Það nýttist vel, má segja, en það má líka benda á að af því hafði ríkissjóður verulegar tekjur sem ekki er ástæða til að fjalla sérstaklega um hér.

Það er eðlilegt að Rauði krossinn hafi frumkvæði og forustu um frekari fjársöfnun til Kólumbíu að mínu mati. Þegar rætt er um að bjóða sérfræðiþekkingu í sambandi við eldgosið og eldfjallið sem hefur gosið í Kólumbíu að þessu sinni er það að mínu mati ekki ýkjamikið sem Íslendingar geta boðið upp á eins og eðli þess goss er. En slíkt er sjálfsagt að skoða. En fyrst og fremst tel ég að fólkið í landinu muni svara kalli þegar Rauði krossinn tekur frekar upp þetta mál til söfnunar Kólumbíu vegna.