19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

94. mál, vímuefnasjúklingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 104 um úrræði fyrir vímuefnasjúklinga. Þar spyr ég hvort ríkisstj. hafi gert áætlun um læknisaðstoð og meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast hafa vímuefnum.

Ég spyr þessarar spurningar vegna þess að það er talið að allt að 20% af einstaklingum á aldrinum 15-30 ára neyti kannabisefna, þ.e. hass og marijúana, í mismiklu magni. Annað og sterkara efni er einnig til neyslu hérlendis, sem er kókaín, en það er ákaflega vanabindandi efni. Til marks um fíknina er það ekki óheyrður atburður að menn sem komið hafa sér vel fyrir á veraldlega sviðinu og hafa verið það sem kallað er ábyrgir allt sitt líf hafa misst allt sitt, hús, bíl, innbú, allt lausafé, ásamt fjölskyldu og vinum, á nokkrum mánuðum. Svo mætti lengi telja. T.d. fyrirfinnst LSD á markaðnum og svokölluð pappasýra, einnig englaryk, ópíum, morfín og heróín.

Þessi upptalning er sett hér fram til þess að það sé alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir geigvænlegu vandamáli sem því miður virðist aðeins verða stærra og meira að umfangi eftir því sem lengra líður. Angar þess teygja sig inn í fjölmargar fjölskyldur nú þegar og hafa haft þar óbætanleg áhrif.

Þó að mikilvægt og ómetanlegt atriði sé fræðsla og allt fyrirbyggjandi starf verður því í litlum mæli við komið þar sem skaðinn er þegar skeður. Þar er það einasta sem að gagni má koma meðferð og læknisaðsoð. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hefur ríkisstj. gert áætlun um læknisaðstoð og meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast hafa vímuefnum?"