19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

44. mál, vaxtaálagning banka á veðskuldabréf

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Á síðasta löggjafarþingi vakti ég athygli á því að veðskuldabréf, sem greiðast eiga með hæstu leyfilegum fasteignalánavöxtum, voru innheimt með mismunandi háum vöxtum eftir því hvaða banki annaðist innheimtuna. Beindi ég því fsp. til þáv. hæstv. viðskrh. sem skilaði skriflegu svari. Fyrri liður spurningar minnar var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Geta bankar og sparisjóðir krafið viðskiptamenn um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem til innheimtu eru?"

Í svari hæstv. ráðh. segir m.a., með leyfi forseta: „Skv. 13. gr. laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, með áorðnum breytingum, hefur Seðlabankinn rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta sem innlánsstofnanir mega reikna af innlánum og útlánum. Þetta vald bankans nær einungis til að ákveða hámarksvexti skv. lögum nr. 58 frá 1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl.“

Með vísan til þessa sendi ráðuneytið Seðlabankanum orðrétta fsp. og óskaði eftir að hann tæki saman drög að svari. Annað svar fékkst ekki en svar Seðlabankans. Þar segir m.a.:

„Með kerfisbreytingu þeirri sem gerð var með ákvörðun Seðlabankans frá 2. ágúst 1984 var innlánsstofnunum m.a. heimilt að ákveða vaxtakjör nýrra útlána“ - og nýrra er hér undirstrikað - „að uppfylltri ákveðinni tilkynningarskyldu til Seðlabankans. Breyting þessi tók gildi hinn 11. ágúst s.l.“

Í lok svars Seðlabankans segir svo, með leyfi forseta: „Frá og með 1. jan. 1985 hafa gilt ákvæði auglýsingar Seðlabankans um meðaltal vaxta nýrra almennra skuldabréfa hjá bönkum og sparisjóðum í hverjum mánuði um vexti óverðtryggðra skuldabréfa sem gefin hafa verið út fyrir 11. ágúst 1984 með ákvæðum um breytanlega vexti. Vextir þessir hafa verið og eru sem hér segir“ og síðan eru taldir vextir eins og þeir eru í janúar til júní 1985.

Því næst segir, með leyfi forseta:

„Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, svo og að framangreindar auglýstar ákvarðanir um vexti gilda bæði utan og innan innlánsstofnana, en um þessi atriði hefur vart verið ágreiningur, verður að telja að bankar og sparisjóðir geti ekki krafið viðskiptamenn um önnur og þyngri vaxtakjör í þessu efni en Seðlabankinn hefur auglýst frá einum tíma til annars.“

Af þessu sýnist ljóst vera að bönkum er heimilt að innheimta veðskuldabréf, sem gefin voru út eftir 11. ágúst 1984, með vöxtum skv. eigin ákvörðun. Þetta er að vísu einungis svar Seðlabankans en ekki viðskrn. Jafnljóst má vera að eigendur skuldabréfa eiga nokkurra hagsmuna að gæta við ákvörðun um það í hvaða banka þeir leggja bréf sín til innheimtu.

Nokkur blaðaskrif urðu um þetta mál og er því forvitnilegt að vita hvernig staða málsins er nú. Það getur hver sagt sér sjálfur að eigendur skuldabréfa hljóta að hafa hugsað sinn gang þegar það varð Ljóst að þeir sem höfðu lagt bréf sín til innheimtu í Verslunarbanka og Samvinnubanka fengu mun lægri vexti en þeir sem höfðu lagt bréf sín í Landsbanka og Iðnaðarbanka.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja hér fram fsp. til hæstv. viðskrh. Hún liggur frammi á þskj. 44 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hverjir voru vextir hverrar einstakrar bankastofnunar í landinu hinn 1. október s.l. af skuldabréfum í innheimtu sem bundin eru hæstu lögleyfðum fasteignalánavöxtum?

2. Hyggst viðskrh. beita sér fyrir samræmingu vaxtaálagningar ef í ljós kemur að vextir af ofangreindum veðskuldabréfum eru enn misháir eins og fram kom á síðasta Alþingi?"