19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

97. mál, tóbaksvarnir

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Það sem varð tilefni þessarar fsp. er m.a. það að nú er liðið um eitt og hálft ár frá setningu þessara laga og ekki nema eðlilegt að spurt sé hvort ekki standi til að fara að flýta því að þessi fræðsla komist á. En það gleður mig að heyra að undirbúningur sé langt á veg kominn og að kennsla skuli fara fram sem eðlilegasti hluti annars náms. Ég er sammála því sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. að hér er auðvitað um mjög svo vandasamt starf að ræða, að þetta fari vel fram og að þetta verði til þess þroska sem til er ætlast hjá nemendunum hverju sinni.