19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

Okurmál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til að ræða þá okurvexti og þá okurlánastarfsemi sem á sér nú stað bæði leynt og ljóst í þjóðfélaginu, löglega og ólöglega, um þessar mundir með margvíslegum afleiðingum. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa þessa umræðu. Ég held að það sé fyllilega tímabært og mál til komið að þetta komi inn á vettvang Alþingis, jafnmikið og það er rætt úti í þjóðfélaginu um þessar mundir og eins miklum örlögum og þessi atriði skipta.

Ég vil í þessu sambandi leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. viðskrh., ráðherra bankamála með meiru, og einnig fyrir hæstv. forsrh. og hæstv fjmrh. af sama tilefni. En áður en ég kem að spurningum mínum beint vil ég fara nokkrum orðum um tilefnið, þ.e. það ástand sem ríkir í þessum málum, um orsakir þess og afleiðingar.

Þá er óhjákvæmilegt að líta fyrst til stefnu ríkisstj. í vaxtamálum, þeirra áhrifa sem sú stefna hefur og þeirrar ábyrgðar sem hæstv. ríkisstj. óumdeilanlega verður að axla í þessum málum. Tvennt skiptir þar mestu máli að mínu mati:

Í fyrsta lagi stefna ríkisstj. almennt í efnahags- og vaxtamálum, ákvörðun ríkisstj. frá sumri 1984 um að gefa vexti frjálsa og þær kollsteypur sem síðan hafa fylgt í kjölfarið, m.a. með þeim afleiðingum að almenningur hefur misst fótanna og menn gera sér litla sem enga grein fyrir því hvað sé sanngjarnt og eðlilegt í þessum efnum lengur.

Í öðru lagi lífskjörin í landinu. Sú gífurlega kjaraskerðing sem almennt launafólk hefur mátt þola, ekki síst húsbyggjendur, liggur sannanlega að baki mörgum ljótustu dæmunum sem er að finna á spjaldskrám okraranna, sbr. eitt sem rakið hefur verið í fjölmiðlum undanfarið í tengslum við nauðungaruppboð á húseign þar sem fullyrt hefur verið að íbúðarkaupandi hafi tekið okurlán með 300% ársvöxtum til að reyna að bjarga og halda íbúð sinni.

Það er samspil þessara tveggja þátta, annars vegar fullkomins athafnafrelsis okraranna í krafti stefnu ríkisstj. og hins vegar neyðar almennings, samfara því að fólk er ringlað og fákunnugt um þennan vítahring okursins, sem hefur hér skapað gróðrarstíu óhugnanlegs okurs. Í fjölmiðlum er nú talað opinskátt um hvít, grá og svört svæði í þessum viðskiptum. Lögleg, hálflögleg og ólögleg eða ofanjarðar, hálfniðurgrafin og neðanjarðar viðskipti. Ríkisstj. gefur tóninn með auglýsingum sem glatt hafa eða meitt eftir atvikum augu og eyru þjóðarinnar undanfarið um kostaboð ríkisins á skuldabréfamarkaðnum.

Af grárri lit eru síðan þau gylliboð ýmissa aðila þar sem boðin er ársávöxtun á sparifé allt að bilinu 75-85%. Ýmiss konar viðskipti með háum vöxtum og miklum afföllum eru á óljósum mörkum þess löglega og ólöglega og kjörin eru það sem í daglegu máli er kallað okur hvað sem lagalegu hliðinni líður.

Síðan eru það hinir óhreinu eða neðanjarðarstarfsemin þar sem ávöxtun fjár er mæld í hundruðum prósenta á ársgrundvelli. Þar er einnig upplýst að velt sé hundruðum milljóna eins og dæmin úr dagblöðum síðustu dagana geta um, þ.e. heil skuttogaraverð ganga þar milli manna.

Það má einnig spyrja í þessu sambandi: Hvar liggja viðskipti bankanna í þessum hópi þegar þeir t.d. taka fulla mánaðarvexti, 3,5% að mér skilst, fyrir víxil sem fer fáeina daga fram yfir gjalddaga. Í mig hringdi í gærkvöld kaupsýslumaður hér í borg, einn margra sem hafði við mig samband og hafði heyrt að til stæði umræða um þessi mál á vettvangi virðulegs Alþingis. Hann spurði: Er þetta ekki einnig okur? Og hvar stendur Seðlabankinn með sína yfirdráttarvexti gagnvart hinum bönkunum?

Tímamótaákvörðun um vaxtafrelsi, sem formaður Sjálfstfl. og núv. hæstv. fjmrh. kallaði svo, er að mínu viti fyrst og fremst merk og tímamótavarði vegna þess að þangað má rekja að nokkru leyti upphaf þeirrar martraðar sem við nú upplifum. Ég fullyrði að jafnvægi sé nú fjær sanni á hinum íslenska peningamarkaði en það var þá. Heildarsparnaður þjóðarinnar hefur ekki aukist þrátt fyrir hina háu vexti, sbr. nýlegar niðurstöður Seðlabankans þar um. Einhver sparnaður hefur flust til í þjóðfélaginu og bönkunum hefur með ærnum tilkostnaði tekist að draga til sín eitthvað stærri hlut, en heildarsparnaður þjóðarinnar hefur ekki vaxið. Sú nöturlega staðreynd blasir við og verður ekki hrakin. En afleiðingarnar af þessu eru hins vegar stórfelld vandræði og eignaupptaka framleiðsluatvinnuveganna, húsbyggjenda og annarra þeirra sem þurfa að taka lán og auðvitað að sama skapi stórfelld auðsöfnun hinna sem eiga fjármagnið. Þetta er frelsi fárra útvaldra til að græða, helsi, örbirgð og örvinglan fjöldans. Þeir ríku verða ríkari. Hinir snauðu enn snauðari. Þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar, frjálshyggju- og afturhaldsaflanna í Sjálfstfl. og Framsfl., í hnotskurn. Hún birtist þjóðinni skýrt í þessu máli.

Því spyrja menn og nú spyr íslenska þjóðin og það skal verða mín fyrsta spurning til hæstv. ráðh. og ég vona að þeir svari því allir hver fyrir sig: Hvað á þetta að ganga langt? Ætlar ríkisstj. að grípa til aðgerða og láta loka okurbúlunum eða ætlar hún ekki að gera það? Á að koma einhverjum böndum á þá okurvexti sem eru að tröllsliga framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar og mynda hyldýpisgjá milli ákveðinnar okurhirðar og almennings í þessu landi? Á að framfylgja lögum um þessi viðskipti, eða setja þá önnur sem duga ef þau sem fyrir eru gera það ekki, eða verður þetta okursvínarí, sem nú er í rannsókn, þæft í kerfinu í nokkur ár og blinda vanganum snúið að hinum sem halda okrinu áfram?

Sjávarútvegurinn, húsbyggjendur, húsmæður og aðrir sem finna nú snöruna þrengja að hálsi sér eiga heimtingu á svörum og þá meina ég svörum. Ekki um kannanir, ekki um athuganir heldur hvort eitthvað verði gert strax eða ekki.

Í framhaldi af þessu, herra forseti, vil ég beina eftirtöldum spurningum til hæstv. viðskrh.:

Í fyrsta lagi vil ég spyrja um eftirlit í þessu sambandi. Hvernig er reynt að framfylgja ákvæðum laga nr. 58 frá 1960 um bann við okri o.fl., ákvæðum um að vextir af skuldum, hvort sem um fasteignaveð eða handveð er að ræða, skuli ekki vera hærri en hæstu lögleyfðir bankavextir? Er þessi lagagrein dauður bókstafur eða er hún það ekki? Og hvernig er eftirliti með þessum hlutum háttað ef það er satt, sem haldið er fram, að dæmdur okrari hafi samtímis dómi sínum og í marga mánuði síðan haldið áfram umfangsmiklum fjármálaumsvifum á þessu sviði?

Ég spyr í öðru lagi hæstv. viðskrh. um hlutverk Seðlabankans og bankaeftirlits í þessu sambandi. Hvernig er eftirliti þessara aðila háttað, en í lögum segir að Seðlabankinn skuli hafa með höndum eftirlit með starfsemi banka, sparisjóða, innlánsdeilda samvinnufélaga, Söfnunarsjóðs Íslands og hverrar þeirrar stofnunar annarrar sem tekur við innistæðum frá almenningi eða rekur sambærilega starfsemi að mati hans? Er þessi klásúla í lögum nr. 10 frá 1961 dauður bókstafur? Er það rétt að Seðlabankinn hafi fengið ítrekaðar aðvaranir um okurstarfsemi í því tilfelli sem nú er sérstaklega til rannsóknar, en starfsemin haldið áfram engu að síður mánuðum og misserum saman?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. viðskrh. um hlut og um tengsl og um samspil bankakerfisins við hinn almenna fjármálamarkað og við hina ólöglegu okurstarfsemi. Er það svo að viðskiptakóngar neðanjarðarhagkerfisins velti stórum fjárhæðum gegnum bankana, viðskiptareikninga þar, og noti jafnvel ávísanir frá bönkunum sem þrep í viðskiptakeðjunni í okurhringnum, og gengur það mánuðum og jafnvel árum saman athugasemdalaust af hálfu bankaeftirlits og bankanna?

Ég spyr í fjórða lagi hæstv. viðskrh. um viðskipti með afborgunum almennt og eftirlit með þeim lánskjörum sem þar bjóðast. Hvernig er háttað eftirliti á því sviði eða er það ef til vill ekki fyrir hendi?

Í fimmta lagi vil ég spyrja hæstv. viðskrh. um það ákvæði svonefndra Ólafslaga, laga nr. 13 frá 1979, að verðtryggðar fjárskuldbindingar skuli ætíð skráðar á nafn, en í 39. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:

„Það eru skilyrði verðtryggingar samkvæmt lögum þessum: . . . að verðtryggðir sparifjárreikningar, kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráðar á nafn“.

Er það svo að það sé nánast reglan í almennum viðskiptum að þetta ákvæði sé hundsað eða að menn komi sér hjá því með vafasömum hætti? Er þess að vænta að reynt verði að framfylgja ákvæðum þessara laga?

Ég vil í sjötta lagi spyrja hæstv. viðskrh. um afstöðu hans til túlkunar nýrra laga um viðskiptabanka og um sparisjóði sem samþykkt voru á Alþingi 21. júní s.l., en í 26. gr. þessara laga segir, með leyfi forseta:

„Starfsemi viðskiptabanka er fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum og annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við slík viðskipti.

Viðskiptabönkum og öðrum sem til þess hafa sérstaka lagaheimild er einum heimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“ Ég endurtek, herra forseti: er einum heimilt að taka við inniánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Og hliðstætt ákvæði er í lögum um sparisjóði. Sér hæstv. ráðherra bankamála enga vörn í þessu lagaákvæði gagnvart okurbúlunum og skyldri starfsemi? Er ekki hægt á grundvelli þessara laga að ganga að ýmsum og loka hjá þeim sjoppunum? Eða er þarna á ferðinni enn einn dauður bókstafurinn sem allir eiga að fá að vaða yfir?

Herra forseti. Ég vil þá spyrja hæstv. forsrh. í fyrsta lagi hvað ríkisstjórnin hyggist gera nú, ekki á morgun og ekki hinn daginn, heldur nú og þegar í stað til þess að koma skikk á þessi mál. Er að vænta aðgerða eins og til dæmis þeirra, sem við í Alþb. höfum lengi barist fyrir, að öll skuldabréf skuli skrá á nafn og vera framtalsskyld? Er slíkra aðgerða eða annarra hliðstæðra að vænta af hálfu hæstv. ríkisstjórnar? Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. um möguleikann á því að taka sérstaklega á vanda húsbyggjenda og íbúðarkaupenda sem eru að missa eignir sínar á nauðungaruppboðum þessa dagana. Er þess t.d. að vænta að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir tímabundinni stöðvun nauðungaruppboða hjá þessum aðilum? Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. hver sé afstaða hans sjálfs, hans persónulega afstaða sem honum er gjarnan títt að vitna til, til þess vaxtastigs sem er á Íslandi í dag? Er hæstv. forsrh. sáttur við það? Er hæstv. forsrh. ánægður með stöðu þessara mála á Íslandi í dag?

Og hæstv. fjmrh. vil ég í fyrsta lagi spyrja hins sama, þ.e. um hans skoðun og afstöðu til vaxtanna á Íslandi í dag. Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. fjmrh. um stefnu ríkissjóðs í vaxtamálum, eins og hún birtist m.a. í því vaxtastigi sem nú er boðið á ríkisskuldabréfum. Er það stefna hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að halda áfram að kynda undir vaxtabálinu með þeim hætti sem hann hefur gert undanfarið? Og í þriðja lagi væri fróðlegt að heyra sérstaklega skoðun hæstv. fjmrh. og formanns Sjálfsttl. á þeirri staðreynd að allt vaxtaokrið hefur ekki leitt til aukins heildarsparnaðar með þjóðinni.

Herra forseti. Ég lýk nú senn máli mínu og vænti þá svara af hálfu hæstv. ráðherra. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að það er fyllilega tímabært að mínu mati að við á hv. Alþingi skiptumst á skoðunum um vaxtamálin, um okurmálin og um afleiðingar þeirra. Þessi mál eru og hafa verið mikið til umfjöllunar bæði í fjölmiðlum og manna á meðal.

Það er mín skoðun að ástand þessara mála nú sé nátengt sjálfri stjórnarstefnunni og ríkisstjórnin verði að axla ábyrgð og svara til um það undanbragðalaust hvað hún hyggst gera. Spjótin standa á ríkisstjórninni og oddarnir fara fyrir. Hæstv. fyrrv. iðnrh. ræddi á einni tíð um orkuveislu; við erum hér að ræða um okurveislu, okurveislu sem þessi ríkisstjórn hefur boðið til í nafni frelsisins. Fámenn hirð okurmangara situr við veisluborð stjórnarinnar meðan almenningi og atvinnulífi blæðir.

Úti í þjóðfélaginu er uppi krafa um lög og rétt í þessum málum. Það er ekki aðeins málróf stjórnarandstöðu heldur almenn og víðtæk krafa um hóflegri vexti, um lög og um réttlæti í þessum málum. Í því sambandi nægir að vitna í fjölda ályktana frá stéttarfélögum og hagsmunafélögum í atvinnulífinu. Krafan stendur á hæstv. ríkisstjórn um að slíta okurveislunni og því er spurning spurninganna í raun sú: Hvort metur hæstv. ríkisstjórn meir hagsmuni almennings og atvinnulífs eða félagsskap okurmangaranna við veisluborðið?