20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég held að ég hafi áreiðanlega heyrt rétt hér áðan þegar hv. 5. þm. Norðurl. e., síðasti ræðumaður, lét svo um mælt að nú væri þessu fyrirtæki aldeilis borgið þegar það væri komið upp á arma ráðdeildarfyrirtækisins Landsvirkjunar. Það er alltaf gaman þegar menn eru skemmtilegir hér í ræðustól, hvort sem það er viljandi eða óviljandi. Ég veit ekki til þess að Landsvirkjun hafi verið talin neitt sérstakt ráðdeildarfyrirtæki í sínum rekstri, heldur kannske þvert á móti. Má því kannske segja að hæfi skel kjafti þegar Kröfluvirkjun er flutt yfir til Landsvirkjunar.

En ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta mörg orð. Þetta er enn eitt dæmi þess að alþm. eru settir hér andspænis samningi sem gerður var um mitt s.l. sumar, þ.e. um yfirtöku Landsvirkjunar á Kröfluvirkjun.

Nú skal það játað hispurslaust að ég er enginn sérfræðingur í þessum málum. Þetta eru flókin mál, flóknir útreikningar sem þarna liggja á bak við. En það sem við blasir og allir geta skilið er að að nafninu til yfirtekur Landsvirkjun þetta fyrirtæki fyrir 1170 millj. kr. en eftir standa hjá ríkissjóði skuldir að upphæð rúmlega 2000 millj. kr. Þetta eru kjarnaatriði málsins.

Ég skil þó vel að hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli hafa hér um þetta mál býsna mörg orð, enda honum málið skylt. Hann var einn í þeirri frægu nefnd sem bar ábyrgð á Kröfluævintýrinu frá upphafi til enda og ofur eðlilegt að hann skuli þurfa að hafa um þetta ýmis orð hér.

Það var auðvitað fyrirsjáanlegt að þær skuldir sem til urðu vegna þessa gönuhlaups, sem að sumu leyti varð vegna óheppni, að sumu leyti vegna óforsjálni, að sumu leyti vegna náttúruhamfara, lentu á þjóðinni með einhverjum hætti fyrr eða síðar, þær skuldir sem Kröflunefnd stóð að því að stofna til með þeim endemum sem allir þekkja og þeirri frábæru fjármálastjórn sem einkenndi starf þeirrar ágætu nefndar og víða hafa verið gerð skil og ég ætla ekki að fara sérstaklega út í hér. Vitað var að allar þessar skuldir mundu lenda á skattþegnum þjóðarinnar fyrr eða síðar. Það má segja sem svo að það skipti kannske ekki höfuðmáli - þó að það skipti auðvitað nokkru - hvort þetta er tekið í hærra orkuverði eða hvort þetta er tekið bara úr hinum sameiginlega sjóði allrar þjóðarinnar eins og nú á að gera, 2000 millj. takk.

Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að rétt sé að leggjast gegn þessu. Hér er ekki um raunverulega sölu að ræða eins og menn skilja það orð í daglegu lífi. Hér er eitt ríkisfyrirtæki, Landsvirkjun - sem að vísu er ekki hreint ríkisfyrirtæki heldur í eigu tveggja bæjarfélaga líka - að taka við þessu úr höndum ríkisins. Ég er ekkert frá því að það geti verið hagfelldara að ýmsu leyti - án þess að ég ætli sérstaklega að hrósa Landsvirkjun fyrir ráðdeild - að þetta sé á þessari sömu hendi frekar en að af hálfu ríkisins sé verið að reka þetta orkuver sér.

Ljóst er að það verður ekkert hlaupið í að auka orkuframleiðsluna í Kröflu á næstunni. Það væri öldungis rangt eins og nú háttar. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna til þess sem stendur hér á bls. 9 í fskj. 2, „Fjárhagslegt mat Kröfluvirkjunar - reikniaðferðir og forsendur“. Þar stendur:

„Dálkur 4, orkusala. Á síðasta ári var aflgeta Kröfluvirkjunar aukin úr 20 í 30 MW og orkugeta þar með úr 125 í 170 gWh/ár. Fyrir þessari aukningu lágu engin markaðsrök, enda ekki þörf á meiri orku inn á landskerfið sem stendur. Það eru því engin rök til að Kröfluvirkjun fái í sinn hlut það af markaðnum sem nemur fullri orkugetu hennar fremur en aðrar framkvæmdir sem hafa verið gerðar á síðustu árum, en reikna má henni markaðshlutdeild frá 1986 skv. eftirfarandi reglum“ - og síðan eru þær reglur taldar upp.

Það er alveg rétt og ljóst að Kröfluvirkjun á ekki að hafa neinn forgang í þessu kerfi, það eru alveg hreinar línur. Það má segja sem svo að það sé viss hreinsun og samræming að færa Kröfluvirkjun til Landsvirkjunar ef menn líta á málin af sanngirni og láta ekki blandast inn í þau tilfinningahita frá fornu fari vegna allrar þeirrar gagnrýni sem þessi virkjun varð fyrir á sínum tíma, að langmestu leyti réttmætrar gagnrýni. En um það skal svo sem ekki fjölyrt hér.

Ég ítreka að vitað var að bakreikningurinn, sem Kröflunefnd átti sinn þátt í að búa til, mundi lenda á þjóðinni og hann er að gera það. Hitt er svo annað mál, sem sagt hefur verið og sjálfsagt er rétt, að engin virkjun er svo vitlaus að hún borgi sig ekki einhvern tíma seint og um síðir. En það er ekkert útséð um það með Kröfluvirkjun hvort hún gerir það endanlega þó að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi vitnað hér í tölur býsna langt fram í tímann. En við skulum vona að Kröfluvirkjun borgi sig einhvern tíma og sjálfsagt eru yfirgnæfandi líkur á því að hún geri það. En það er hins vegar engan veginn tryggt. Það eina sem var tryggt í þessu máli var að reikningnum yrði vísað til skattgreiðenda. Nú er komið að þeim skuldadögum þó að kannske sé þar aðeins um formbreytingu að ræða frá því sem áður hefur verið.