20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

5. mál, jarðhitaréttindi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því sem ég hef raunar gert hér fyrr í hv. deild að af minni hálfu var um það tillaga, sem ég kom á framfæri við formenn þingflokka, að þeim málum sem varða eignar- og umráðarétt á auðlindum, náttúruauðlindum, landi og hafsbotni og eru hér á dagskrá deildarinnar, verði vísað til sérnefndar á grundvelli 15. gr. þingskapa. Tillagan var sem sagt um það að kosin yrði skv. heimild í þingsköpum sérstök þingnefnd til þess að fara yfir þessi mál sem hafa verið í meðförum þingsins á fyrri stigum, á fyrri þingum, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sum hver, en ekki hlotið afgreiðslu. Hér er um að ræða mál sem öll eru skyld í eðli sínu. Hér er um sama „prinsippið“ að ræða, svo ég noti það orð, sömu meginsjónarmiðin að ræða hjá flm. og því væri eðlilegt að þessi mál fengju hliðstæða meðferð í þinginu. Auðvitað er hægt að gera það innan þingnefnda sem við höfum kosið en hitt tel ég þó miklu vænlegra, að á þessu máli sé tekið sérstaklega og þingflokkum gefist kostur á að kjósa menn til þeirra verka í sambandi við sérstaka nefnd sem þingdeildin setti á fót til að fjalla um þessi efni.

Mál nr. 1, nr. 2 og nr. 3 á dagskrá hafa áður komið til iðnn. þessarar deildar á fyrri þingum. Mál nr. 4, Land í þjóðareign, og mál nr. 8, Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, hafa verið til meðferðar í allshn., sumpart í Nd., sumpart í Ed., fyrir nokkrum árum. Ég legg á það áherslu að þessi mál verði samferða í athugun á vegum þingdeildarinnar og því er það mín tillaga, ef ekki verður fallist á aðaltillögu mína um að sett verði á laggirnar sérnefnd til að fjalla um þessi mál, að þá verði þessum málum öllum vísað til allshn. og mæli ég þar sérstaklega fyrir varðandi þau mál sem ég er 1. flm. að, 1., 2. og 8. mál á dagskrá þingdeildarinnar í dag.