26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 50 lagt fram svohljóðandi fsp. til menntmrh.:

„Hyggst menntmrh. fyrir hönd Náttúruverndarráðs höfða mál gegn iðnrh. vegna útgáfu námaleyfis og forræðis um rannsóknir við Mývatn?"

Til að gera býsna langa sögu stutta eru helstu atriði þessa máls þau að í lögum um verndun Laxár og Mývatns frá 1974, 3. gr., er tekið þannig til orða að leyfi Náttúruverndarráðs þurfi til hvers konar mannvirkjagerðar og jarðrasks við Mývatn. Það kemur fram í grg. með lagafrv. frá þessum tíma að augljóst er að tilgangur löggjafans er að taka af skarið um forræði náttúruverndaryfirvalda á þessu svæði. Raunar hefur nýlega komið fram í grg. frá Gauki Jörundssyni prófessor að hann er þar sammála. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þar sem einn megintilgangur umræddra laga er verndun lífríkis Mývatns er að mínum dómi ekki neinum vafa bundið að nám kísilgúrs úr botni Mývatns fellur undir jarðrask í skilningi ákvæðis 3. gr."

M.ö.o. er álit lagaprófessorsins að það þurfi leyfi Náttúruverndarráðs til að taka kísilgúr úr vatninu. Síðan gerðist það í málinu að í janúar s.l. gaf þáv. hæstv. iðnrh. út námaleyfi til Kísiliðjunnar án leyfis Náttúruverndarráðs. Náttúruverndarráð mótmælti eðlilega. Iðnrh. stóð fastur á sínu og síðan gerðist það að þann 28. maí s.l. fór Náttúruverndarráð fram á það við þáv. hæstv. menntmrh. að hann höfðaði mál gegn iðnrh. til að fá úrskurð um lagatúlkun í þessu máli. Þáv. hæstv. iðnrh. hafði raunar á blaðamannafundi 22. maí haft einhver þau orð að það væri kannske eðlilegast að þetta mál færi fyrir dómstóla og þannig fengist úrskurður.

Stjórn Rannsóknarstöðvar við Mývatn ályktaði í sömu veru þann 13. sept. s.l., þ.e. að Náttúruverndarráð færi fram á það við hæstv. menntmrh. að mál yrði höfðað til að fá úrskurð í þessu máli.

Það er mjög mikilvægt að fá um þetta úrskurð, bæði vegna þessa tiltekna máls og ekki síður vegna framtíðarlagasetningar um náttúruvernd og umhverfisvernd á Íslandi. Ég dreg ekki dul á að ég tel að það hefði verið betur að niðurstaðan hefði fengist þannig að fram kæmi viðurkenning iðnrn. á forræði náttúruverndaryfirvalda á þessu svæði og tel það betri kost en að til málsóknar þurfi að koma. En ég hef borið þessa fsp. fram vegna þess að ég tel að nauðsynlegt sé að fá botn í þetta mál.