26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

102. mál, húsnæðislán vegna einingahúsa

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil leitast við að svara þessari fsp. á þskj. 112.

Eins og fram hefur komið þá gerði Húsnæðisstofnun ákveðna samþykkt 19. september 1984, þannig að þeir kaupendur einingahúsa sem gera fokhelt frá og með 1. janúar n.k. fá sömu lánafyrirgreiðslu og aðrir húsbyggjendur. Samþykkt þessi hjá húsnæðisstjórn var rökstudd þannig að talið var að þá hefði þegar tekist með hinni sérstöku fyrirgreiðslu, svo og afurðaláni í Seðlabanka að koma einingahúsaiðnaðinum það vel á laggirnar að hann gæti spjarað sig eftir það án aðstoðar Húsnæðisstofnunarinnar. Ákvörðun þessa tilkynnti stofnunin öllum einingahúsaframleiðendum með bréfi.

Á fundi húsnæðismálastjórnar 21. desember samþykkti stjórnin eftir kröfu félmrh. að fresta þessari ákvörðun, þessari samþykkt sinni, til að byrja með til 1. apríl 1985 og síðan til 1. maí sama ár, jafnframt því að tíminn yrði notaður samkvæmt kröfu ráðherra til að undirbúa framtíðarskipan þessara mála. Þá hafði verið ákveðið að setja á fót sérstakan starfshóp er skyldi hafa umsjón með þeirri úttekt á húseiningaframleiðslunni sem ákveðið var að stofna til og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins skyldi annast í samráði við Húsnæðisstofnun og samtök einingahúsaframleiðenda. Þessi starfshópur hafði enn fremur það hlutverk að útbúa nýjar lánareglur sem m.a. tækju einnig mið af annarri sérhæfðri framleiðslu á íbúðarhúsnæði. Þessi starfshópur, sem hér um getur, gat ekki skilað umbeðinni úttekt eða tillögum um nýjar lánareglur fyrir tilskilinn tíma. Stjórn Húsnæðisstofnunarinnar tók hins vegar þá ákvörðun að lán til kaupenda einingahúsa skyldu verða með sama hætti og önnur nýbyggingalán frá 1. maí s.l., sem rökstutt var frá stofnuninni vegna fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins.

Ráðherra hefur ekki samþykkt þessar breyttu reglur og mun ekki gera, en lítur á þessa ákvörðun Húsnæðisstofnunar frá 1. maí sem tímabundna ráðstöfun vegna vöntunar á lánsfé.

Og sem svar við 3. lið, þá er þessi endurskoðun og samræming í fullum gangi á vegum Húsnæðisstofnunar, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og framleiðenda einingahúsa, sem eru tvenn samtök, annars vegar framleiðendur venjulegra einingahúsa - þ.e. aðallega timbur - og svo hins vegar framleiðendur annarra einingahúsa sem byggja þetta í hlutum. Þessir aðilar eru að vinna þetta verk.

Og ég vil geta þess, sem er kannske þýðingarmesta atriðið að mínu mati, að til þessa verks hefur einnig komið Landssamband íslenskra iðnaðarmanna sem óskaði sérstaklega eftir því með bréfi til ráðherra að vera þátttakandi í að koma nýju fyrirkomulagi á útborgun lána vegna íbúða hjá framleiðendum íbúðarhúsnæðis.

Þeir lögðu til nýjan tón í þetta því að þeir töldu að markmið nýrra útborgunarreglna þyrfti að vera með öðrum hætti. Í fyrsta lagi það að stuðla að bættu framleiðsluskipulagi í byggingariðnaðinum, skemmri byggingartíma og þar með lægri byggingarkostnaði. Í öðru lagi að fela ekki í sér mismunun milli byggingar- og framleiðsluaðferða. Í þriðja lagi að styrkja samkeppnisstöðu húseiningaframleiðenda og annarra innlendra framleiðenda gagnvart erlendri framleiðslu. Og í fjórða lagi sanngjarnar reglur gagnvart almennum húsbyggjendum þótt þær feli í sér nokkurn forgang sérhæfðra framleiðenda til að ná því markmiði sem fyrst er talað um.

Þeir lögðu fram ákveðnar tillögur í þennan starfshóp um hvernig þeir vildu haga þessum útlánum. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það hér því þetta er í vinnslu. Niðurstaðan af þeirra máli er að þeir leggja áherslu á að þessu máli verði hraðað og eru komnir í þessa nefnd með því fororði að vinna hratt, þannig að nýjar útlánareglur í samræmi við þá allsherjarúttekt sem er í gangi taki sem fyrst gildi.

Í þessu starfi starfshópsins með Landssambandi iðnaðarmanna er einnig athugað á hvern hátt bankakerfið ásamt Byggingarsjóði ríkisins geti aukið fyrirgreiðslu til byggingariðnaðarins með það höfuðmarkmið að hann geti þróast sem raunverulegur framleiðsluiðnaður hér á landi. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þetta atriði því fram hefur komið ýmis gagnrýni á þessa framleiðslu hjá okkur sem upprunalega var reynt að vernda gagnvart innflutningi. Það er ákaflega mikilvægt að þarna takist á breiðum grundvelli raunhæft samstarf og að út úr því komi heilsteyptar reglur sem allir geta verið sammála um, sem enginn getur sagt að misbjóði öðrum í þessari grein.

En aðalatriðið er það að ég hef trú á því núna að það verði hægt að fá heilsteypta samþykkt sem verður grundvöllur fyrir þeim nýju útlánareglum sem Húsnæðisstofnun verður látin samþykkja.