26.11.1985
Neðri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir hans ágætu ræðu. Hv. 3. þm. Reykv. kemur varla í ræðustól án þess að tala best sjálfur máli andstæðinga sinna og ekki brást hann sjálfum sér í þetta sinn frekar en áður.

En það er margt, sem kom fram í hans ræðu, sem ég vil þó taka undir. Ég tek undir að það eru t.d. afskaplega óheppileg mistök að tafla sú sem hann gat um, á bls. 36, skyldi ekki hafa verið að öllu leyti rétt út reiknuð. Hann óskaði eftir að einhver ábyrgur aðili kæmi upp og bæði afsökunar á þessum mistökum. Það geri ég hér með sem iðnrh. því það er enginn annar ábyrgur fyrir því skjali sem hér hefur verið lagt fram, eins og hæstv. fyrrv. iðnrh. veit sem er ákaflega nákvæmur maður í öllum sínum vinnubrögðum, flokksfélagi hv. 3: þm. Reykv.

Ég vil aftur á móti mótmæla því að hér sé um blekkingarstarfsemi að ræða. Það veit hv. 3. þm. Reykv. að er ekki og er óþarfi fyrir hann að nota slík orð til að leggja áherslu á sitt mál. Hann er nægilega vel máli farinn til að nota aðrar leikreglur.

Ég vil ekki taka undir það að reka samninganefndina aftur til Sviss. Ég vil aftur á móti segja að ég er mjög ánægður með að samninganefndin hefur unnið ágætisstarf og ég hef ekki séð neina ástæðu til annars en að þakka henni vel unnin störf fyrir bæði þing og þjóð.

En það er eitt í viðbót sem ég vil leyfa mér að biðja hv. 3. þm. Reykv. afsökunar á og kannske þá Alþýðubandalagsmenn alla. Þeirri samninganefnd sem ég er nú ábyrgur fyrir hefur tekist að eyðileggja gott stríð sem þeir Alþýðubandalagsmenn höfðu gert sér vonir um að geta viðhaldið í lengri tíma en raun ber vitni. Ég skil vel að þeim sé illa við frið. Friður er bölvað vandamál fyrir þá. Nú er kominn friður og það er ekki nema eðlilegt að þá komi enn stærri vandamál. En ég bið Alþb. afsökunar á því fyrir mína hönd og fyrir hönd samninganefndarinnar að þetta þeirra persónulega stríð við Alusuisse hafi nú tekið enda.

Ég skal líka viðurkenna að þetta stríð er ekki bara til að skemmta sjálfum sér í Alþb. Ég veit að forveri minn í embætti, hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, gerði allt sem hann gat til að ljúka þessu stríði, en hans kröfur og hans stolt fyrir hönd Íslands í þessu máli voru meiri en hægt var að ná samkomulagi um. Ég skal viðurkenna að þrátt fyrir að ég sé ánægður með það samkomulag sem hefur náðst og að vandamál sem uppi var er nú leyst hefði ég, og það er alveg sama hver útkoman hefði verið, gjarnan viljað fá meira út úr því. En það þarf að ná góðu meðaltali út úr öllu því sem á að heita samkomulag, annars er það skömmtunarseðill frá öðrum aðilanum. Við því tókum við ekki, langt frá því. Hvorugur aðilinn vann sigur og hvorugur aðilinn tapaði. Það náðist einfaldlega samkomulag og það náðist friður. Það held ég að sé stórt atriði.

Ég vil leyfa mér að svara hv. 3. þm. Reykv. að lokum, síðustu spurningu hans er varðar inngöngu ÍSALs í VSÍ. Ég hef ekki hugsað mér að leggja til að álverið fari úr VSÍ, einfaldlega vegna þess að ég hef ekkert hugsað það mál. Þessi spurning eða önnur tengd álverinu annars vegar og VST hins vegar hefur ekki komið á mitt borð þannig að ég hef ekki haft nema ástæðu til að leggja vinnu í að kanna það mál og hef ekki hugsað mér að gera það. Þó útiloka ég ekki að slík staða gæti komið upp.

Ég vil þá fara nokkuð í efnispunkta í ræðu hv. 5. þm. Austurl. sem hann hélt hér síðast þegar þetta mál var á dagskrá, að ég held í gær, en hæstv. viðskrh. Matthías Bjarnason gerði í framsöguræðu með frv. þessu, sem flutt var í forföllum mínum vegna setu minnar á fundi iðnaðarráðherra Norðurlanda á Álandseyjum í síðustu viku, ítarlega grein fyrir frv., aðdraganda þess og helstu nýmælum í 4. viðaukasamningnum. Ég skal því víkja stuttlega að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í ræðum um málið og nokkrum efnisatriðum sem rétt þykir að fjalla um af því tilefni.

Vil ég þá byrja á meginreglu um „arm's length“. Meginreglan um stöðu ÍSALs í skattalegu tilliti hefur ávallt verið sú að meta eigi öll viðskipti félagsins eftir þeim mælikvarða er gildir um viðskipti óháðra aðila, þ.e. „arm's length“, milli aðila í seilingarfjarlægð. M.ö.o. á að líta á ÍSAL eins og það sé sjálfstætt fyrirtæki en ekki einungis sem deild í Alusuisse og meta frammistöðu þess út frá hagsmunum rekstursins hér á landi en ekki einungis út frá heildarhagsmunum Alusuisse. Í samræmi við þetta hefur það verið annað aðalatriði samningsins, sem nú liggur fyrir, að tryggja eðlilega framkvæmd þessarar meginreglu með því að gjaldaliðir allir og tekjuliðir séu sem næst eðlilegu heimsmarkaðsverði á hverjum tíma. Verður vikið nánar að einstökum liðum hér á eftir í þessu sambandi.

Hitt aðalatriðið er að tryggja eðlilega skattbyrði á fyrirtækinu miðað við þá afkomu sem þannig er meint. Í samningnum hefur þetta verið gert með því að halda núverandi veltuskatti óbreyttum, þ.e. lágmarksgjaldi á tonn, en hafa skattlagninguna að öðru leyti samkvæmt tilteknum skattstiga á nettótekjur, auk þess sem settar eru nýjar reglur um fyrningu og endurmat eigna. Með þessu eru skattlagningarreglur varðandi ÍSAL færðar nær því sem venjulegast er að beita við sköttun fyrirtækja og nær því sem almennt gildir samkvæmt íslenskum skattalögum.

Um þetta síðarnefnda meginatriði er það að segja að á sama hátt og einstakir kostnaðarliðir til skatts eru færðir á grundvelli eðlilegs „armslengdarverðs“, þ.e. heimsmarkaðsverðs, verður skattbyrðin sjálf að vera sambærileg og gerist í þeim löndum sem við helst miðum okkur við, auk þess sem tekið er mið af íslenskum aðstæðum.

Ég vil þá ræða lítillega um veltuskattinn.

1. Eins og tekið var fram f framsöguræðu með frv. er veltuskattur í grannlöndum okkar nokkru lægri en gildandi veltuskattur hjá ÍSAL. Veltuskattur að fjárhæð 20 bandaríkjadollarar á tonn jafngildir nú um 1,4% veltuskatti í meðalári, þ.e. ef álverð er um 1400 dollarar á tonn, en getur verið um eða yfir 1,7% í slæmu árferði, þ.e. ef álverð er um 1200 dollarar á tonn eða lægra. Í góðæri, þ.e. ef verð á áli er um 1700 dollarar og yfir, jafngildir þetta um 1,2% veltuskatti.

2. Veltuskattur, þ.e. skattur annar en launatengd gjöld, er fyrirtæki greiða hér á landi, er aðstöðugjald sem er um 1% af aðstöðugjaldsstofni og auk þess fasteignaskattur. Um Íslenska járnblendifélagið hf. hefur sú sérregla verið sett að félagið greiðir 0,5% af aðstöðugjaldsstofni í landsútsvar, auk fasteignaskatta sem hafa numið u.þ.b. 0,45% af veltu á liðnum árum.

Samanburður á skattbyrði milli ríkja er vandasamur og margs að gæta í því sambandi, en varðandi veltuskatta hafa Coopers & Lybrand sett fram það mat að veltuskattar í Evrópu séu um helmingur af núverandi grunngjaldi, þ.e. umræddum 20 bandaríkjadollurum á tonn. Með þessa staðreynd á borðinu var ekki unnt að ná fram kröfum um hækkun grunngjaldsins þrátt fyrir ítarlegar viðræður um það atriði.

Þá vil ég koma að tekjuskattsþættinum. Tekjuskattsstigi sá sem samið er um er á bilinu 35-55% eftir hagnaði á hverju ári. Hér hefði komið til greina að nota eina tekjuskattsprósentu, eins og nú er um íslensk fyrirtæki, þar sem hún er nú um 51%. Hins vegar kemur tvennt til um ÍSAL er skýrir þetta frávik frá umræddri prósentu. En það er:

1. Í gildandi aðalsamningi eru tekjuskattsmörkin frá 35-55% af hagnaði og því núverandi samningsréttur ÍSALs sem hafa varð til hliðsjónar.

2. ÍSAL hefur ekki yfirfæranlegt tap og því er ljóst að í góðæri verður skattstiginn nýttur til fulls. Hefði ÍSAL yfirfæranlegt tap jafnaðist hagnaðurinn á móti tapi og þá hefðu efri þrep skattstigans ekkert gildi. Yfirfæranlegt tap hefur mjög mikið gildi fyrir álfyrirtækin þar eð sveiflur í áliðnaði hafa reynst mjög miklar. Í Bandaríkjunum er ekki aðeins um yfirfæranlegt tap að ræða. Þar má enn fremur nota tap seinni ára og fá endurgreiddan skatt frá fyrri árum. Um það má eflaust deila hvort tekjuskattsþrepin innan markanna 35-55% hefðu átt að vera hærri eða lægri, en í samningnum voru þau ákveðin með tilliti til þess að skattbyrði ÍSALs yrði ekki lægri en hún hefði verið samkvæmt eldri reglum við venjulegar aðstæður, heldur yrði hún hærri við þær aðstæður sem líklegastar mætti telja. Algengur tekjuskattur á fyrirtæki í Evrópu er samkvæmt upplýsingum Coopers & Lybrand á bilinu 40-50%. Þó eru í flestum Evrópuríkjum sérstakir skattahvatar fyrir atvinnurekstur eða nýfjárfestingu sem þýðir í raun lægri skattamörk.

Í gögnum sem hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson dreifði á Alþingi miðvikudaginn 20. þ.m. var gerð athugasemd við töflu sem birtist á bls. 36 í grg. með frv. Við endurreikning hefur komið í ljós reikniskekkja sem veldur því að skattgreiðslur samkvæmt nýju samkomulagi eru ofreiknaðar lítillega. Munurinn er stigvaxandi í töflunni og er 0,1 milljón bandaríkjadollarar miðað við 7,5 milljón dollara hagnað, en verður mestur 0,6 milljónir dollara miðað við 30 milljón dollara hagnað. Leiðrétt tafla verður send iðnn. deildarinnar til athugunar.

Þessi leiðrétting breytir í engu þeirri niðurstöðu sem áður hafði verið komist að, þ.e. að sá skattstigi sem um var samið mundi að jafnaði gefa sömu eða hærri skatttekjur en fyrri samningur við þær efnahagslegu aðstæður sem líklegar mættu teljast. M.a. benti athugun til þess að framleiðslugjaldstekjur samkvæmt hinum breytilega tonnataxta mundu að verulegu leyti ráðast af ákvæðinu um 35% af hagnaði sem lágmark viðbótarskatts. Það væri aðallega á tilteknu þröngu hagnaðarbili og þá miðað við tiltekið álverð sem ólíklegt þótti að farið gæti saman á sama tíma að hinn breytilegi tonnataxti mundi hafa veruleg áhrif til hækkunar á skatti.

Í viðræðum um skattstigann kom í ljós að ekki væri grundvöllur til að ákvarða hann þannig að hann gæfi í öllum tilvikum hærri skatttekjur en fræðilega væri hægt að ná með hinu breytilega tonnagjaldi. Hins vegar væri það ekki nema í fáum ólíklegum tilfellum sem hið gagnstæða mundi verða. Á það er líka rétt að benda að þessi samanburður á milli hins gamla og nýja samnings er ekki alveg raunhæfur vegna þeirra breytinga sem náðst hefur samkomulag um varðandi útreikning á afkomu fyrirtækisins, en nánast er útilokað að vinna út raunhæfan samanburð sem tæki mið af afkomuforsendum miðað við hinn gamla og nýja samning. Þær töflur sem hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson dreifði á Alþingi draga einmitt fram þessi fræðilegu tilvik þar sem tonnagjaldið gæti hugsanlega orðið hærra en viðbótarskattur samkvæmt hinum nýja samningi.

Um töflu 2 í gögnum hv. 5. þm. Austurl. gegnir allt öðru máli, en þar er í forsendum, sem Ríkisendurskoðun hefur ekki tekið neina afstöðu til, enda einungis athugað útreikning, gefið í skyn að samkvæmt hinum eldri reglum hafi ekki mátt leggja í varasjóð heldur einungis samkvæmt hinum nýju reglum. Þessi staðhæfing er röng og gerð til þess að fá út hagstæðan samanburð því að að sjálfsögðu gilti 20% ákvæðið um varasjóð einnig áður. Ef gera ætti samanburð þar sem gert væri ráð fyrir að fyrirtækið kysi að leggja ekkert í varasjóð hlýtur þá að eiga að reikna skattana út frá slíkri forsendu einnig að því er varðar tekjur samkvæmt hinu nýja samkomulagi. Ef það er gert breytist hin mjög svo misvísandi tafla verulega.

Við athugun á helstu verðmiðunum á áli varð fljótlega ljóst að verðformúla orkusölusamningsins frá 5. nóv. 1984 þótti gefa góða mynd af stöðu áliðnaðarins á hverjum tíma. Þá var í formúlu þessari hæfileg blanda af álviðskiptum, bæði hvað varðar verðlagningu framleiðenda á áli og verðlagningu í frjálsum sölum. Jafnframt var kosturinn sá að sama viðmiðun um verð á áli er notuð bæði vegna þróunar orkuverðs og vegna tekna til skatts. Kosturinn við verðformúlu þessa er enn fremur sá að verðviðmiðanir eru ekki háðar breytingum vegna aðgerða á valdi aðilanna sjálfra.

Aflað var upplýsinga um stöðu súrálsmarkaðar og kom fram að verðlagning súráls umreiknuð sem hlutfall milli óskyldra aðila í sölusamningum til lengri tíma var á bilinu 1:7,5 til 1:8,5. Samningar tókust um að miða skattlagningu ÍSALs við verðhlutfallið 1:8, þ.e. 12,5% af álverði.

Markaður fyrir súrál er mjög viðkvæmur og á síðustu 2-3 árum hefur hann breyst mjög. Vandasamt er að halda birgðir af súráli sem vill taka í sig raka. Auk þess er kostnaðurinn við birgðahald mikill. Því er oft hægt að fá einstaka farma af súráli fyrir mjög lágt verð eða sem svarar hluttallinu 1:10, en það getur jafngilt rúmlega 100 dollurum fyrir tonnið. Framleiðslukostnaður súráls er um 150 dollarar á tonnið í eldri verksmiðjum en yfir 200 dollarar á tonn í nýjum verksmiðjum, svo sem í súrálsverksmiðjunni sem nýlega var reist á Írlandi. Súrálssamningar til lengri tíma eru því á bilinu 1:7,5 - 1:8,5 þótt lægri hlutföll, t.d. 1:6,5, séu einnig þekkt. Súrálshlutfallið í samningnum er miðað við súrál frá Gove í Ástralíu sem er hágæða súrál og því verðlagt lítið eitt hærra en það sem lægst er í langtímasamningum.

Á árunum 1975-1984 gat eðlilegt heimsmarkaðsverð súráls að mati Coopers & Lybrand verið allt frá 10% af raunvirði áls upp í rúm 18% þannig að hér er gerður samningur um að binda verðið við lægri mörk þess sem verið hefur á liðnum árum. Þetta verðhlutfall er sambærilegt því sem kröfur ríkisstjórnarinnar voru um í gerðardómsmáli því sem rekið var um hráefnaverð í New York á árinu 1984.

Verðlagning rafskauta er vandasamt mál. Eins og kunnugt er eru alþjóðlegar réttarreglur um mat á verðlagningu aðfanga eða afurða á milli skyldra aðila þannig:

a. Ef finna á verð í frjálsum sölum milli óskyldra aðila í svipaðri aðstöðu ber að leggja slíkt verð til grundvallar. Ekki er gerð athugasemd við verð sem er innan algengra efri og neðri marka í slíkum viðskiptum.

b. Ef sambærilegar óháðar tölur eru ekki tiltækar og aðeins í því tilfelli er gripið til þeirrar nálgunar að reikna út framleiðslukostnaðinn og bæta við eðlilegum hagnaði.

Þar eð óháð viðskipti með rafskaut voru óveruleg á árunum 1975-1980 var verðlagning rafskauta í skattarannsókn Coopers & Lybrand á því tímabili grundvölluð á athugun á framleiðslukostnaði þeirra í rafskautaverksmiðju Alusuisse í Hollandi. Frá árinu 1980 hafa viðskipti með rafskaut aukist og nú er svo komið að allmargir aðilar, og meðal þeirra álfyrirtækin norsku og stærri bandarísku álfyrirtækin, kaupa rafskaut af Alusuisse vegna álbræðslna sinna í Evrópu. Coopers & Lybrand hafa vegna endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs 1981, 1982, 1983 og 1984 í auknum mæli stuðst við verðlagningu í þessum sölum vegna viðmiðunar til skatts. Verð á rafskautum til ÍSALs hefur farið lækkandi á liðnum árum og hafa Coopers & Lybrand ekki gert athugasemd við verðlag allra síðustu ára.

Hafa ber í huga að árleg endurskoðun ársreikninga ÍSALs hefur að sjálfsögðu leitt til þess að skoðanir aðila á framkvæmd skattakaflans hafa skýrst og sjónarmið verið samræmd. Ekki verður heldur dregið í efa að virkt skattaeftirlit þýðir betri skattaskil.

Eftir athugun Coopers & Lybrand á gildandi viðskiptasamningum um sölu á rafskautum Alusuisse á næstu fimm árum lögðu endurskoðendurnir til að þessi viðmiðun yrði tekin upp. Studdust þeir í því efni við leiðbeiningarreglur OECD um „transfer pricing“, en sú regla er svo orðuð að aðeins beri að miða við framleiðslukostnað ef upplýsingar um sambærilegar óháðar sölur eru ekki tiltækar.

Reynt hefur verið að tryggja reikningsskil sem gefa raunsanna mynd af afkomu fyrirtækisins og er það nauðsynlegt, ekki aðeins vegna skatta heldur og til að meta afkomumöguleika fyrirtækisins. Fyrningar hafa verið færðar sem næst raunverulegum fjárhæðum. Varast ber að ræða það sem eftirgjöf eða því um líkt. Gera verður þá kröfu að mæling afkomu sé sem réttust.

Gengisákvæðin í viðaukanum eru í aðalatriðum þessi: Allar stærðir í rekstrarreikningi eru færðar til tekna eða gjalda mánaðarlega eða á meðalgengi. Er það í samræmi við það sem raunverulega gerist. Fjárhæðir í efnahagsreikningi eru færðar á árslokagengi, enda á efnahagsreikningur að gefa rétta mynd af stöðu fyrirtækisins í árslok. Þetta eru eðlilegar reglur sem rétt þótti að taka inn í samning milli aðila þannig að ekki yrðu um þetta deilur.

Með samningsbreytingu þeirri sem gerð var á aðalsamningi 5. nóv. 1984 var lögfest árleg óháð endurskoðun á ársreikningum ÍSALs af hálfu ríkisstjórnarinnar. Slík endurskoðun var valkvæð fyrir þann tíma. Er ákvæði þetta óbreytt í þessum viðauka. Leggja verður ríka áherslu á þýðingu þessa ákvæðis. Er ljóst að heppilegra er að skattþegi viti af reglulegu eftirliti, auk þess sem auðveldara er að leysa vandamálin árlega frekar en láta hugsanleg deiluefni magnast í mörg ár. Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram breyta ákvæðin um upplýsingar frá Alusuisse vegna verðlagningar rafskauta í engu almennum rétti ríkisstjórnar til skattaeftirlits samkvæmt reglum aðalsamningsins.

Í umræðunni hefur verið vikið að þeirri breytingu sem gerð var í fyrra á orðalagi greinar 2.03, staflið c í aðstoðarsamningi, varðandi útvegun hráefna, og því haldið fram að breytingin skerði rétt okkar í skattalegu tilliti. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Þetta ákvæði í aðstoðarsamningnum var aðeins þáttur í þeirri stefnumörkun samninganna að meta ætti viðskipti ÍSALs eins og hjá sjálfstæðu fyrirtæki með sjálfstæða hagsmuni en ekki einungis út frá heildarlegum hagsmunum Alusuisse. Meginreglan um þetta var sett fram í grein 27.03, nú 27.01, í aðalsamningnum og ákvæðið í aðstoðarsamningnum átti að falla undir þá reglu en ekki að hafa sjálfstætt gildi í skattalegu tilliti. Rétta aðferðin samkvæmt samningnum var að reyna að meta á hverjum tíma hvaða viðskipti óháðra aðila væru sambærilegust við viðskipti ÍSALs og Alusuisse og líkust þeim aðstæðum sem þar væri um að ræða. Ákvæðið í aðstoðarsamningnum gat verið til leiðbeiningar við þann samanburð sem gera þurfti í þessu sambandi en átti ekki að hafa neina úrslitaþýðingu. Raunverulegar kröfur á hendur Alusuisse voru fyrst og fremst byggðar á þessu sjónarmiði. Grundvöllurinn til raunhæfrar kröfu á hendur Alusuisse var því hinn sami og áður hafði verið og samningarnir nú í sumar um ný viðmiðunarverð á hráefni og áli hafa verið gerðir með þann grundvöll í huga.

Í umræðunni hefur það borið á góma að Alusuisse muni nú eiga í deilum við stjórnvöld í Ástralíu vegna skatta þar í landi og að stjórnvöldin séu að leggja viðbótarskatta á dótturfélagið Austrasuisse á þeirri forsendu að verðið á súráli út úr Ástralíu hafi verið of lágt. Að svo stöddu sýnir deilan að umræðan um svokallaða hækkun í hafi gaf ekki rétta mynd af skattskyldu Alusuisse á Íslandi þar sem það getur ekki farið saman að öllu leyti að súrálsverð sé of lágt í Ástralíu og of hátt á Íslandi. Væntanlega var eðlilegt heimsmarkaðsverð einhvers staðar þarna á milli, eins og menn hér á landi gerðu sér ljóst.

Þessar upplýsingar frá Ástralíu gefa ekki tilefni til neins endurmats á þeirri sáttargerð sem gerð var við Alusuisse 5. nóv. 1984. Það mál var ítarlega rætt á Alþingi í fyrravetur og óþarft að fjalla aftur um það núna. Einungis er rétt að undirstrika að fyrir þeirri sátt voru gildar forsendur og að niðurstaða málsins var Íslendingum hagfelld. Eflaust voru forsendur í Ástralíu að ýmsu leyti ólíkar og óvíst hvort möguleikar á annarri lausn málsins en fyrir dómi séu þar raunhæfir, en það er þeirra mál.

Fullyrt hefur verið að rangt hafi verið að skipta samningunum upp og skilja skatta eftir. Endurskoðun skatta sem og orkuverðs eru sjálfstæðir þættir sem standa á eigin fótum, byggja hvor í sínu lagi á traustum forsendum. Gerðardómsmöguleiki er alltaf fyrir hendi, einnig vegna rafskautaverðs. Greinar um skattaeftirlit eru óbreyttar. Á grundvelli þeirra náðist mjög góður árangur um framlagningu skjala frá Alusuisse vegna deilumálsins. Endurskoðun byggð á staðreyndum í áliðnaði er mjög eðlileg. Endurskoðun varðar álverð og hráefni til álframleiðslu. Því er nauðsynlegt að endurskoðun taki mið af áliðnaði.

Ég vona að ég hafi náð niður á blað öllum þeim spurningum sem hv. 5. þm. Austurl. beindi til mín við umræðurnar sem áttu sér stað um sama mál í gær og ef ég fer ekki rétt með bið ég hv. þm. velvirðingar á því.

Fyrsta spurningin sem hann lagði fyrir mig og ég mun reyna að svara er svohljóðandi: Hafa þingmenn stjórnarflokkanna skuldbundið sig til að styðja samningana og hver var afstaða ráðherra til samningsdraganna í júlí og nú í nóvember?

Svarið er: Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt að flutt verði stjfrv. um þetta mál. Ráðherrar og ríkisstjórn voru efnislega sammála samningnum við meðferð í ríkisstjórn bæði í júlí og nóvember.

2. Hvað veldur því að settar eru fram rangar upplýsingar?

Svarið er: Rætt hefur verið um villu í útreikningi á töflu sem byggðist á skekkju í útreikningi og er það leitt. Fullyrðing um að nýr skattstigi muni leiða til hækkunar á skatti er byggð á athugun á þeim tilvikum sem líklegust eru. Í grg. er um þetta fjallað. Um þessa villu hef ég ekki meira að segja en ég hef þegar að ósk hv. 3. þm. Reykv. beðist afsökunar á þessari villu. Hún hefur þegar verið leiðrétt hér til bráðabirgða, en mun verða leiðrétt á annan hátt fyrir Alþingi innan nokkurra daga.

3. spurningin: Spurt er hvort ráðherrar geti gert sér grein fyrir að nýju ákvæðin feli í sér afsal á fyrra rétti til endurskoðunar t.d. vegna rafskauta.

Svarið er: Með samningnum er reynt að skilgreina betur en áður „armslengdarverð“ á aðföngum og áli. Er því um að ræða að auka áhrif ríkisstjórnarinnar á mat á „armslengdarverðum“. Vísað er á bug staðhæfingu sem í spurningunni felst um að hér sé um eftirgjöf að ræða.

Hvað upplýsingar vegna rafskauta varðar er aðeins um að ræða aðferð við að láta tilteknar upplýsingar í té. Ákvæðin um árlega almenna endurskoðun eru óbreytt.

4. spurning: Hvert er rafskautaverð sem kemur út úr samningnum?

Svarið: Verð á hráefnum til ÍSALs er viðskiptaleyndarmál og því ekki hægt að tilgreina verð hér. Þó má upplýsa að verð á rafskautum hefur farið lækkandi á árunum 1981-1984. Einnig hefur komið fram opinberlega áður að Coopers & Lybrand hafa ekki gert athugasemdir við það verð á allra síðustu árum.

5. spurningin er svohljóðandi: Því er sölu- og tæknigjald óbreytt?

Svarið er: Skyldur Alusuisse um að ná góðu söluverði á áli frá ÍSAL hafa ekki breyst frá því sem nú er og álverð samkvæmt formúlum leiðir frekar til hækkunar. Tækniaðstoðargjald er óbreytt, 2,2%. Sú prósentutala jafngildir hlutfalli af veltu Alusuisse til rannsóknar- og þróunarstarfa. Miklu skiptir fyrir hagsmuni ríkisstjórnarinnar að Alusuisse sé tæknilega sterkt fyrirtæki.

6. spurning: Hvers vegna er skattalögsaga ekki í íslenskum höndum og voru tilraunir gerðar til að breyta því?

Svarið: Tekið skal undir það sjónarmið að farsælt væri að fella fyrirtækið alfarið undir íslensk skattalög og lögsögu. Sú breyting náðist ekki fram að þessu sinni. Hins vegar er mjög virkt skattaeftirlit samkvæmt ákvæðum aðalsamnings þannig að þetta er ekki mjög knýjandi breyting. Um þetta atriði var ítrekað rætt í viðræðunum milli aðilanna.

7. spurning: Eru menn að lækka skattana? Eru þetta verðlaun til Alusuisse fyrir frammistöðuna í skattamálum?

Svarið er: Fullyrðingin sem í spurningunni felst er röng. Aðeins í tilteknum fræðilega mögulegum tilfellum geta nýju ákvæðin leitt til lækkunar á skatti. Þau tilvik sem raunhæft er að reikna með leiða til hærri skatta. Réttur til endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs er óbreyttur.

8. spurning: Hvaða aðgerðir verða gerðar vegna túlkunar forstjóra Austrasuisse á sáttargjörð frá 5. nóv. 1984?

Svar mitt er: Ég mun ræða þetta mál við forráðamenn Alusuisse og fá skýringar þeirra á þessu áður en eitthvað verður aðhafst í þessu máli.

Ég vil taka það fram að í þessu sambandi voru það ekki fyrstu upplýsingar sem ég fékk frá hv. 5. þm. Austurl. Þann sama morgun og hann dreifði sínum gögnum hér bárust mér frá Íslendingi erlendis, hann heitir Elías Davíðsson og virðist búa í Basel í Sviss, upplýsingar um sama efni. En ég mun ræða þetta mál við forráðamenn Alusuisse og fá skýringar þeirra á þessu áður en ég aðhefst eitthvað í málinu.

9. spurning: Verður breyting á ársreikningi ÍSALs þannig að hægt verði að meta tilkostnað Alusuisse á hráefnum er það lætur ÍSAL í té?

Svar mitt er: Ekki verða aðrar breytingar á ársreikningum ÍSALs en þær er leiða af hinum nýgerðu samningum. Slík breyting felst ekki í samningnum að skylt verði að hafa þessar upplýsingar í ársreikningi.

10. spurning: Hvers vegna er skatturinn óverðtryggður og hvert er raunverð 20 dollara veltuskattsins, sem samið var um árið 1975, í dag?

Og svarið er: Ekki náðist fram breyting á veltuskattinum, t.d. með að tengja hann álverði eða verðtryggja hann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af Íslands hálfu. Næsta heildarendurskoðun á skattakaflanum, þar með talin fjárhæð veltuskattsins, fer fram miðað við 1. okt. 1994. 20 bandaríkjadollarar árið 1975 jafngilda 11,45 bandaríkjadollurum reiknað samkvæmt heildsöluvísitölu í Bandaríkjunum. Taka ber tillit til þess að álverð hefur ekki hækkað í takt við heildsöluvísitölu í Bandaríkjunum.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir helstu atriði í frv. því sem hér er mælt fyrir. Ég vil leggja áherslu á að með samningsgerð þessari er lokið alllöngu tímabili deilna milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse. Tekist hefur að semja um óháða utanaðkomandi mælikvarða um innanfélagsviðskipti Alusuisse við ÍSAL þannig að komast má hjá kostnaðarsömum deilum um það mál.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á áhrif þeirrar aukningar á eigin fé sem fram fer í tengslum við hinn nýja samning. Langtímaskuldir ÍSALs 31. des. 1984 námu um 100 millj. bandaríkjadollara. Breyting skulda í eigið fé að jafngildi 40 millj. bandaríkjadollara bætir því verulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins og hefur í för með sér mikinn vaxtasparnað í rekstri. Skyldur Alusuisse um að halda ákveðnu hlutfalli eigin fjár og skulda hefðu ekki leitt til þessarar innborgunar eins og haldið hefur verið fram.

Loks er rétt að árétta viðskiptalega viðkvæmni þeirra upplýsinga sem sumar ákvarðanir um verð og viðmiðanir byggjast á. Hugsanlega verður hægt að fjalla nánar um það í meðförum málsins hjá hæstv. iðnn.

Ég held að ég hafi þá farið yfir þetta mál að svo miklu leyti sem ég taldi nauðsyn á miðað við þær umræður sem fram hafa farið frá því að hæstv. viðsk.- og samgrh. flutti framsögu fyrir mína hönd við framlagningu frv. og sé ekki í þeim punktum sem ég hef skrifað niður ástæðu til þess að hafa mál mitt mikið lengra. En ég harma að menn skuli, þrátt fyrir pólitískan ágreining okkar á milli, ekki sjá hag í því að þeirri deilu, sem hefur verið í gangi í nokkur ár við þennan stóra viðskiptaaðila ríkisstjórnarinnar í raforkukaupum, er nú lokið eða á lokastigi. Ég held að það sé pólitískum deilumálum ofar og þó að ég skilji vel að það þarf að halda uppi pólitískum ágreiningi milli flokka, ég tala nú ekki um stjórnar og stjórnarandstæðinga, finnst mér oft ekki nógu mikið tillit tekið til hagsmuna þjóðarinnar út á við. Allir viljum við vel og á þessu síðustu tímum og nokkur síðari ár höfum við reynt að laða hingað aðila sem geta samið við okkur um kaup raforku, en ég er ansi hræddur um að það verði erfiðara og erfiðara eftir því sem fleiri og lengri og flóknari deilumál eru í gangi við þá sem hingað hafa þegar komið með starfsemi sína.

Ég vil þó að lokum segja að ég mun sem iðnrh. að sjálfsögðu fagna komu stóriðjuvera eða stórra orkukaupenda, en ég mun jafnframt leggja á það megináherslu, eins og kom fram hjá hv. 3. landsk. þm., að fullvinnslufyrirtæki fylgi með. Ég held að það sé mikið atriði að fá hingað eins mikið af smáiðnaði, hvort heldur það er á vegum útlendinga eða innlendra aðila, og mögulegt er. Ég held að sá iðnaður sé undirstaðan að meiru en stóriðja getur nokkru sinni verið.