27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

145. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðh. lauk máli sínu með siðferðisprédikun úr púlti ætla ég fyrir mitt leyti að gefa eina slíka. Ég kann því illa þegar hæstv. ráðh. heldur því hér fram að þeir sem hafa gagnrýnt þetta frv. vilji ekki stefna að betri kjörum fyrir þessa þjóð. (Gripið fram í: Það er rétt.) Ég tel að það sé algerlega órökstuddur málflutningur. Ég tel að hann sé ómaklegur. Sem nýorðnum siðferðispostula ferst hæstv. ráðh. ekki að viðhafa þessi orð hér. Þeir sem hafa mælt gegn þessu frv. hafa lagt fram fyrir máli sínu margvísleg rök. Það sem einfaldlega hefur gerst er að ekki hefur tekist að sýna að þetta frv. bæti kjör þjóðarinnar. Ég vildi koma þeirri örstuttu athugasemd að að ég tel það ómaklega niðurstöðu þessarar umræðu að þeir sem tala á móti þessu máli séu að tala gegn því að lífskjör séu bætt í landinu. Það hefur ekkert komið fram í dag sem bendir til þess að frv. bæti kjör.