02.12.1985
Neðri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

114. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 125 um endurmat á störfum láglaunahópa. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Kristín S. Kvaran, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur Bjarnason og Pétur Sigurðsson.

Markmið þessa frv. er að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að hafa langt mál um þetta frv. Það er þekkt hér í þingsölum og hefur verið til umfjöllunar á þingi 1983 og 1984.

Tilgangurinn með flutningi frv. ætti öllum að vera augljós. Við búum við mikið óréttlæti í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Í kjarasamningum og allri umræðu um kjaramál vantar alla yfirsýn yfir tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og í raun er iðulega reynt að leiða hjá sér að tala um kjarna þess vandamáls sem við er að glíma. Þó tekjujöfnun virðist iðulega vera aðalatriðið í kjarasamningum þá er umræðan og niðurstaðan oft sú að deilt er um örfá prósentustig til eða frá en aldrei rætt um kjarna vandans.

Það sem einkum hefur þróað óþolandi tekju- og launamismun milli þeirra hæst launuðu og láglaunahópanna er einkum það að ákvörðunarvaldið um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu er meira og meira farið að færast einhliða yfir á atvinnurekendaborðið. Staðreyndin er sú að aðeins er tekin ákvörðun um hluta þess sem til skiptanna er við kjarasamningaborðið. Stór hluti tekjuskiptingarinnar er ákvarðaður einhliða af atvinnurekendum og þegar málum er þannig háttað er ljóst að láglaunahóparnir í þjóðfélaginu verða þar út undan.

Annað gerist einnig. Enginn þekkir í raun hina eiginlegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Því eru það meira og minna handahófskenndar ákvarðanir sem teknar eru varðandi launamálin og þegar upp er staðið eru það oftast þeir sem lægst hafa launin sem undir verða. Það virðist vanta allar forsendur, þekkingu og yfirsýn yfir þann frumskóg sem kjaramálin og launamálin almennt eru komin í og ákvarðanir um tekjuskiptinguna byggjast á.

Verkalýðshreyfingin virðist gera sér grein fyrir þessari þróun en það er eins og forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar séu feimnir við að ræða hana, feimnir við að ræða það að þeir kauptaxtar sem um er samið í samningum, sem oft tekur langan tíma að ná fram og iðulega með verkföllum, eru kauptaxtar um kjör þeirra allra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Aðrir semja um sín kaup og kjör sjálfir við sína atvinnurekendur.

Þegar svo er komið er það hlutverk stjórnvalda, eins og hér er lagt til, að benda á eins og kostur er staðreyndir í þessu máli og leggja grunn að þeim upplýsingum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að stokka launakerfið upp á nýtt. Slík rannsókn og könnun, sem lagt er til með þessu frv. að fari fram, hlýtur að vera forsenda þess að á raunhæfan hátt sé hægt að taka á þessum málum. Slík rannsókn og könnun hlýtur að hafa mikið upplýsingagildi fyrir aðila vinnumarkaðarins og vera leiðbeinandi um það hvernig best sé að haga samningum um kaup og kjör og rétta hlut þeirra sem lægst hafa launin. Með þessu frv. er einnig hægt að fá fram upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir stjórnvöld því á grundvelli þeirra mætti gera sér betri grein fyrir hvaða aðferðum sé hægt að beita til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að fá fram mat sérfróðra aðila á því hvort störf láglaunahópanna, og þá ekki síst hefðbundin kvennastörf í þjóðfélaginu, séu óeðlilega lágt metin miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðinum. Sérstaklega skal athuga hvort nægjanlegt tillit sé tekið til ýmissa krefjandi eðlisþátta í vinnuframlagi láglaunahópanna við ákvörðun á kauptöxtum og flokkaröðun.

Nauðsynlegt er einnig að fá fram samanburðarmat á því hvort ekki hafi þróast hér óeðlilegt tekjubil milli starfsstétta í þjóðfélaginu eða hvort launakjör einstakra hálaunastétta eða hærra launaðra stétta í þjóðfélaginu séu í eðlilegu samræmi við laun láglaunahópanna og vinnuframlag þeirra til þjóðarbúsins.

Til þess að hægt sé að leggja á það réttlátt mat þarf að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Ég hef ítrekað bent á það hér á hv. Alþingi að nauðsynlegt sé að fá fram hvað yfirborganirnar, kaupaukarnir, ómælda yfirvinnan, bílastyrkirnir og duldu greiðslurnar á vinnumarkaðinum séu mikill hluti af raunverulegum vinnutekjum í þjóðfélaginu, hver sé hlutur láglaunahópanna í því sem greitt er fram hjá kjarasamningum og hvort reyndin sé ekki orðin sú að að stærstum hluta sé það ófaglærða verkafólkið og konurnar sem sitja eftir á töxtunum og hlutdeild þeirra í yfirborgunum og kaupaukunum sé lítil.

Forsenda þess að hægt sé að koma á sanngjarnri tekjuskiptingu er að fá þessar upplýsingar fram. Á annan hátt sé ég ekki að hægt sé að jafna með skynsamlegum hætti tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.

Ég tel, herra forseti, að ég sé komin að kjarnanum varðandi misréttið í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og hvers vegna hlutur láglaunahópanna sé fyrir borð borinn. Í hverjum einustu kjarasamningum er um það rætt og lögð á það höfuðáhersla að rétta þurfi sérstaklega hlut þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. En hver er staðreyndin sem við blasir? Hún er sú að það eru fyrst og fremst láglaunahóparnir í þjóðfélaginu, launþegarnir sem síst skyldi sem lifa hafa þurft á strípuðum kauptöxtum sem samið er um við samningaborðið, sem hafa þurft að bera gífurlegar byrðar vegna kjaraskerðinga undanfarinna ára. Þær fréttir sem nýlega komu fram í fjölmiðlum staðfesta þetta. Þar kom fram að miðað við kauptaxta hafi orðið 8-9% kaupmáttarrýrnun, að mig minnir, frá 1983, en sé miðað við launaskriðið, kaupaukana og yfirborganirnar hafi orðið 2-3% kaupmáttaraukning hjá þeim sem þess njóta.

Hvað segir þetta okkur? Fyrst og fremst það að það er markleysa sem atvinnurekendur halda fram að atvinnuvegirnir þoli ekki að greiða launafólki hærra kaup. Það er hrein markleysa miðað við það að yfirborganir og launaskrið hefur aukist samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar.

Þetta segir okkur líka aðra sögu og staðfestir það, sem ég hef haldið látlaust fram í sölum Alþingis á undanförnum árum, að sú tilhögun sem viðhöfð er varðandi tekjuskiptinguna og í samningum kemur verst niður á þeim sem síst skyldi, láglaunafólkinu. Upp úr hverjum manni stendur í öllum samningum að bæta eigi nú sérstaklega kjör láglaunahópanna. Kannske er niðurstaðan sú að samið er um einhverjar sérstakar láglaunabætur, einhverja nánös, kannske 2, 3, 4% umfram almennar launahækkanir.

En hvað skeður svo? Atvinnurekendurnir barma sér sáran yfir því að þurfa að greiða hærri laun og allt á að fara norður og niður í þjóðfélaginu ef minnst er á að rétta hlut láglaunafólksins. Dregnar eru fram skýrslur hvers hagspekingsins á fætur öðrum, hagspekinga Vinnuveitendasambandsins og ríkisstjórnarinnar, um afleiðingar þess að bæta kaupmátt launþega: Verðbólgan á að rjúka upp úr öllu valdi og ekkert blasa við annað en gjaldþrot atvinnuveganna ef bæta á kjör láglaunafólksins við samningaborðið. Forkólfar Vinnuveitendasambandsins birtast ábúðarfullir í fjölmiðlum og lýsa fyrir láglaunafólkinu hvernig það leiki atvinnureksturinn ef hækka eigi laun þeirra. Ráðherrar birtast í fjölmiðlum og tala um hvernig hækkun launa muni leika efnahagslífið og með kröfum launafólks sé líka atvinnuöryggi þess og efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í voða. Þennan söng hefur láglaunafólkið þurft að hlusta á ár eftir ár, láglaunafólkið sem ekki á fyrir brýnustu nauðþurftum frá degi til dags. Það er ekki til meira til skiptanna, segja atvinnurekendur og ríkisvaldið. Verðbólgan fer í 100% ef gengið er að kröfunni um að þið haldið kaupmætti ársins 1982 eða 1983. Og hvað skeður? Verkalýðsforustan lúffar fyrir þessum áróðri og samið er um einhverja nánös, einhver örfá prósentustig fyrir láglaunafólkið.

Síðan fer hjólið að snúast. Atvinnurekendur, sem trúverðugir hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt að það sem til skiptanna sé verði að fara til láglaunafólksins, það eigi að hafa forgang, þeir virðast allt í einu aflögufærir og greiða launaauka og yfirborganir, duldar greiðslur, bílafríðindi og allt hvað heiti hefur eftir sínum eigin geðþótta til einhverra útvaldra starfsmanna. Staðreyndin er nefnilega sú að verkalýðsforustan lætur það þegjandi yfir sig ganga að atvinnurekendavaldið er einhliða farið að ráða stærstum hluta tekjuskiptingarinnar í þjóðfélaginu. Verkalýðsforustan lætur það þegjandi yfir sig ganga að í þessum skrípaleik um tekjuskiptinguna ræður hún minnstu um það hvernig því er skipt sem til skiptanna er til launafólks í þjóðfélaginu. Það eru atvinnurekendurnir en ekki verkalýðsforustan sem ræður ferðinni.

Og hver er afleiðingin? Jú, láglaunafólkið verður undir og verkalýðsforustan, sem á að vera umbjóðandi og samningsaðili launafólks í landinu, er í raun og veru aðeins samningsaðili fyrir láglaunastéttirnar í landinu, fólkið sem lifa þarf af hungurtöxtunum sem samið er um við samningaborðið. Aðrir, þeir betur settu í þjóðfélaginu, semja um sín kjör sjálfir.

8-9% kaupmáttarrýrnun á undanförnum tveimur árum hjá þeim sem lifa þurfa af kauptöxtunum og síðan 2-3% kaupmáttaraukning hjá þeim sem njóta yfirborgana og annars slíks umfram taxta er staðfesting á því í fyrsta lagi að tilhögun samninga, vinnubrögð í samningum og baráttuaðferðir verkalýðshreyfingarinnar eru ónýt tæki í baráttunni fyrir bættum kjörum láglaunafólksins. Í öðru lagi: Verkalýðshreyfingin er aðeins samningsaðili fyrir þá allra lægst launuðu í landinu, fólkið sem lifa þarf af kauptöxtunum. Í þriðja lagi: Það er hrein markleysa að ekki sé meira til skiptanna en samið er um við samningaborðið; það staðfestir launaskriðið. Í fjórða lagi: Atvinnurekendavaldið er farið að ráða einhliða að eigin geðþótta stærstum hluta af því sem til skiptanna er í þjóðfélaginu. Og í fimmta lagi: Það er láglaunafólkið, láglaunastéttirnar, verkamennirnir, verkakonurnar, ófaglærða fólkið á kauptöxtunum sem fyrst og fremst hefur mátt þola hrikalega kjaraskerðingu og á það hafa verið lagðar þyngstar byrðar vegna efnahagsóstjórnar undanfarinna ára. Aðrir, sem náðar njóta hjá atvinnurekendum, hafa fengið sína kjaraskerðingu bætta með yfirborgunum, launaaukum, duldum greiðslum, sem ekki virðast þola dagsins ljós.

Spyrja má í framhaldi af þessu þegar atvinnurekendur og stjórnvöld eru samdóma í því áliti að eigi að bæta launafólki upp kjaraskerðingu liðinna ára þá fari efnahagslífið úr böndum og verðbólgan æði yfir 100%: Er það eingöngu það sem samið er um yfir samningaborðið sem veldur aukinni verðbólgu? Ekki þær ómældu fúlgur sem greiddar eru undir borðið, sem þola ekki dagsljós og enginn má segja frá, upphæðirnar sem fara í launakostnað hjá atvinnurekstrinum í formi yfirborgana, launaauka, bílafríðinda og þess háttar? Spyrja má: Veldur launaskrið ekki verðbólgu? Hve mikil er sú verðbólga sem rekja má til launaskriðs, til þess hluta af tekjuskiptingunni sem atvinnurekendur ráða einhliða að eigin geðþótta? Spyrja má þegar atvinnureksturinn er að réttlæta verðhækkunarbeiðnir sínar á vöru og þjónustu: Er þá launaskriðið, yfirborganirnar, sem þeir ráða einhliða, inni í þeim útreikningum sem valda verðlagshækkun á vöru og þjónustu? Er staðreyndin sú að launafólk, sem lifa þarf af kauptöxtunum, standi síðan frammi fyrir því að bera uppi launaskriðið, yfirborganirnar, duldu greiðslurnar og fríðindin, sem atvinnureksturinn ákvarðar einhliða, að láglaunafólkið á töxtunum þurfi líka að standa undir launaskriðinu í formi hækkunar á vöru og þjónustu?

Við skulum líka átta okkur á því hvaða hópar það eru sem lifa þurfa á kauptöxtunum eingöngu. Það er ófaglærða fólkið, verkamennirnir og verkakonurnar, konurnar í heilbrigðisstéttunum, Sóknarkonurnar á spítölunum, Iðjukonurnar, konurnar í Framsókn, kennararnir, konurnar í uppeldisstéttunum. Enda er svo komið að í mörgum af þessum láglaunastéttum er orðið erfitt að fá fólk til starfa. Fólkið sem stundar þessi störf er farið að flýja stéttirnar.

Í hnotskurn er það fyrst og fremst ófaglærða fólkið og konurnar sem þurfa að bera byrðarnar. Mikið er talað um launamisrétti kynjanna sem er staðreynd. Hvaða afleiðingu hefur það haft að atvinnureksturinn hefur einhliða komist upp með að ráða stórum hluta tekjuskiptingarinnar? Við getum litið á upplýsingar frá kjararannsóknarnefnd og borið saman hreint tímakaup kvenna og karla í ýmsum starfsgreinum. Hreint tímakaup ætti að gefa rétta mynd af launamisréttinu því hreint tímakaup er laun án orlofs fyrir dagvinnu að viðbættum hvers kyns aukagreiðslum svo sem yfirborgunum, fæðis-, ferða-, fata- og verkfærapeningum. Þessi stærð, eins og segir í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar, er hlutur dagvinnu í meðaltímakaupi.

Hvað kemur í ljós ef hreint dagvinnukaup kvenna og karla er borið saman? Jú, eftirfarandi kemur í ljós: Konur sem vinna við almenn afgreiðslustörf í dagvöruverslunum þurfa að vinna 444 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla fyrir almenn afgreiðslustörf. Konur í vefjariðnaði þurfa að vinna 252 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla í vefjariðnaði. Konur sem eru verslunarstjórar þurfa að vinna 1056 dagvinnustundum lengur á ári til að hafa sömu árstekjur í dagvinnu og karlar sem eru verslunarstjórar. Konur við almenn skrifstofustörf þurfa að vinna 480 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla við almenn skrifstofustörf. Ófaglærð saumakona þarf að bæta við sig 444 dagvinnustundum á ári til að ná ársdagvinnutekjum ófaglærða trésmiðsins. Þetta dæmi lýsir vel hvernig hefðbundið kvennastarf er vanmetið til launa. Konur í verksmiðjuvinnu þurfa að vinna 264 dagvinnustundum lengur á ári til að ná dagvinnutekjum karla við verksmiðjuvinnu. Konur í pakkhúsum þurfa að vinna 192 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla við pakkhúsvinnu. Kona í byggingarvöruverslun þarf að vinna 552 aukadagvinnustundir á ári til að ná árstekjum karlsins sem vinnur við hlið hennar í byggingarvöruverslun.

Í þessum samanburði er tekið hreint tímakaup í dagvinnu á öðrum ársfjórðungi 1985 samkvæmt upplýsingum og útreikningum frá kjararannsóknarnefnd. Ef reiknað er út meðaltal launamismunar hjá samtals átta konum, þ.e. einni úr hverri þeirra starfsgreina sem ég hef hér tilgreint, hafa þessar átta konur samtals 480 þús. kr. minni árstekjur en átta karlar sem vinna við hlið þeirra í sömu starfsgrein. Meðaltalið er því um 60 þús. kr. launamismunur á hverja konu á ári. Ef við gerum ráð fyrir að ofangreindar forsendur endurspegli meðaltal af þeim launamismun sem ríkir milli kynjanna á vinnumarkaðinum og reynum að nálgast eftir þeirri leið um hve háa fjárhæð er að ræða í launamismun hjá konum og körlum á hverju ári í þjóðfélaginu er hægt að gefa sér þá forsendu að nú eru í fernum stærstu heildarsamtökum launafólks 40 000 konur. Ef við gefum okkar að fjórði hluti þeirra, 10 000 konur, búi við launajafnrétti er meðaltal launamismunar hjá þeim 30 000 konum, sem eftir standa, það sem að ofan greinir. Lætur þá nærri að hafðar séu af konum á hverju einasta ári um 1800 millj. kr.

Ég tel að þessar tölur gefi nokkuð sterka vísbendingu um það í fyrsta lagi, að það eru himinháar fjárhæðir sem hafðar eru af konum árlega vegna þess að launajafnréttið er ekki virt í þjóðfélaginu. Í annan stað segja þessar tölur okkur hver er afleiðing þess að atvinnurekendur eru jafnt og þétt að sölsa til sín einhliða ákvörðunarvald yfir hvernig því sem til skiptanna er er skipt í þjóðfélaginu. Verkalýðshreyfingin verður að horfast í augu við það að hún ræður þar orðið litlu um. Verkalýðshreyfingin, sem á að vera sterkt og kröftugt baráttutæki launafólks í landinu, lokar augunum fyrir þessari þróun; hún horfir aðgerðarlaus upp á þá þróun sem átt hefur sér stað.

Á undanförnum árum hef ég gert ýmsar tilraunir hér á Alþingi með flutningi þáltill., frumvarpsflutningi og fleiru til að fá menn til að takast á við þann vanda að leiðrétta tekjuskiptinguna. Að vísu viðurkenna ýmsir nauðsyn þess að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu og á Alþingi var m.a. samþykkt tillaga þar að lútandi. En þegar til framkvæmdanna kemur draga menn lappirnar. Bæði stjórnvöld og verkalýðshreyfingin hafa verið mjög lin í þessu máli. Ég minnist þess t.d. ekki að hafa séð í ályktunum heildarsamtaka launafólks kröfuna um að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Það er athyglisvert að í umsögnum sem borist hafa félmn. Nd., sem haft hefur þetta frv., sem hér er til umræðu, til umfjöllunar á síðasta þingi og þinginu þar áður, eru það einkum láglaunahóparnir í þjóðfélaginu sem leggja höfuðáherslu á samþykkt frv. Þar má nefna verkakvennafélagið Framsókn, starfsmannafélagið Sókn, Fóstrufélag Íslands, Félag íslenskra sjúkraþjálfara og fleiri aðila. Sjö stéttarfélög, sem umsagnir hafa sent um þetta mál, lýsa jákvæðri afstöðu til efnis frv. og mæla með samþykkt þess, en þó að í umsögnum heildarsamtaka launafólks eins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þá sérstaklega Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands sé lýst nauðsyn á að fram fari ítarleg úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu hafa sérstaklega VSÍ og ASÍ efasemdir um einstakar greinar frv. Eins er á það að benda að kvennasamtökin í landinu, svo sem Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Framkvæmdanefnd um launamál kvenna svo og Jafnréttisráð, lýsa öll jákvæðu viðhorfi til efnis frv. og mæla með samþykkt þess, svo og Farmanna- og fiskimannasambandið.

Hvort sem það er vísvitandi eða ekki tel ég að í umsögnum ASÍ og VSÍ gæti verulegs misskilnings varðandi efni þessa frv. og tilgang þess. Þess misskilnings virðist gæta í umsögnum þessara aðila að fari slík úttekt fram á tekjuskiptingu og launakjörum, eins og frv. gerir ráð fyrir, og í kjölfar þess endurmat á störtum láglaunahópanna, sem framkvæmt yrði af sérfróðum aðilum í vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati, verði slíkt starfsmat ákvarðandi um launakjör fyrir aðila vinnumarkaðarins. Þetta er alrangt, eins og fram kemur í grg. með frv., en þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er vissulega um erfitt, viðkvæmt og vandasamt verkefni að ræða, en engu að síður er orðið knýjandi og brýnt að í það sé ráðist. Ef vel tekst til hjá nefndinni gætu niðurstöður hennar orðið grundvöllur þess að láglaunahóparnir fengju réttlátt mat og sanngjörn laun fyrir sín störf. Auk þess hefði niðurstaða nefndarinnar mikið upplýsingagildi og gæti verið leiðbeinandi“ - leiðbeinandi, segir í grg. - „við gerð kjarasamninga og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að bæta kjör hinna lægst launuðu.“

Hér er beinlínis tekið fram að endurmat það sem fram á að fara eigi að vera leiðbeinandi við gerð kjarasamninga en ekki að niðurstaða nefndarinnar skuli gilda sem ákvörðun um launahlutföll í landinu.

Herra forseti. Á tveim síðustu þingum þegar frv. þetta var til fyrstu umræðu í hv. deild hafði ég mjög ítarlega framsögu um frv. Ég tel því ekki ástæðu til þess að hafa um málið ítarlegri framsögu nú en vísa þess í stað til þeirra umræðna sem orðið hafa um þessi mál hér á þinginu áður.

Frv. þetta hefur ekki hlotið afgreiðslu úr nefnd. Ég ítreka hve brýnt er orðið að Alþingi taki afstöðu í þessu máli. Tel ég, miðað við það öngþveiti sem kjaramálin eru komin í, að það sé beinlínis skylda og hlutverk stjórnvalda að upplýsa eins og kostur er um staðreyndir varðandi tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og leggja grunn að þeim upplýsingum sem þurfa að vera fyrir hendi til að hægt sé að stokka upp launakerfið að nýju og bæta kjör láglaunahópanna í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.