02.12.1985
Neðri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

116. mál, eignaréttur íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 128 flyt ég ásamt öðrum þm. Alþb. hér í Nd. frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Meginefni þessa frv. kemur fram í fyrstu grein þess sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.

Auðlindir samkvæmt lögum þessum taka til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda á og í hafsbotninum.“ Síðan er í einstökum greinum frv. vikið nánar að meðferð þessa máls, eins og í 2. gr. þar sem skylt er að leita leyfis iðnrh. til hagnýtingar í eða á hafsbotninum og skv. 3. gr. þarf slíkt skriflegt leyfi til þess að hefja nýtingu efnis af hafsbotni. Í 4. gr. frv. eru ákvæði um gildistíma slíkra leyfa og kveðið á um að hann megi ekki vera lengri en 30 ár. Jafnframt að í leyfisbréfi skuli m.a. ætíð greina hverjar ráðstafanir leyfishafi skuli gera til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar. Þá er að finna skv. 5. gr. heimild til reglugerðar um nánari framkvæmd og brot gagnvart lögum þessum og í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að þeir, sem við gildistöku laganna taka efni af eða úr hafsbotni, skuli innan 6 mánaða sækja um leyfi skv. 4. gr.

Þetta frv. var upphaflega unnið á árunum 1981 og 1982 af nefnd sem starfaði á vegum iðnrn. og hafði á hendi skipulagningu og ráðgjöf um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir. Í hópi nefndarmanna var m.a. Benedikt Sigurjónsson, fyrrv. hæstaréttardómari. Frv. þetta var síðan lagt fyrir Alþingi haustið 1982 og vísað til allshn. Ed. en þar var frv. fram lagt. Allshn. Ed. vísaði málinu til ríkisstjórnarinnar með áliti þar sem m.a. sagði að það væri gert til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga og nefndin lagði áherslu á að skynsamleg skipan þessara mála yrði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing. Álit nefndarinnar frá 9. mars 1983 er birt í heild sem fylgiskjal með þessu frv. þannig að hv. þm. eigi auðvelt með að sjá hvernig undir þetta mál var tekið.

Allshn. taldi að hér væri þýðingarmikið mál á ferðinni og lagði til skjóta frekari úrvinnslu þess þannig að það kæmi á ný fyrir þingið. Hins vegar hefur svo farið að engin hreyfing hefur verið á þessu máli svo mér sé kunnugt á vegum núv. hæstv. ríkisstj. og því er mál þetta nú lagt fram sem þingmannafrv.

Fyrir liggur í lögum nr. 41 frá 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, að þar eru settar reglur um fullveldi Íslands yfir hafinu og hafsbotninum umhverfis landið. Í 2. gr. þeirra laga segir að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar og hafsbotnsins innan hennar. Og í 6. gr. þeirra laga segir að fullveldisrétturinn yfir landgrunninu taki til rannsókna og hagnýtingar á ólífrænum auðlindum sem þar eru. Þó settar hafi verið slíkar lagareglur um fullveldisrétt Íslands yfir hafsbotninum skortir reglur um eignarrétt og nýtingarrétt af auðlindum sem þar kunna að finnast, a.m.k. á svæðum utan netlaga, en varðandi svæði innan netlaga og á landi geta gilt ákvæði námulaga í sambandi við verðmæt efni. Töldu flm. að athuguðu máli ekki rétt að fara að kveða á um netlög sérstaklega í tengslum við þetta frv. þó að ekki sé óeðlilegt að á það atriði verði einnig litið af þeirri þingnefnd sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar.

Í grg. með frv. er gefið stutt yfirlit yfir helstu athuganir og rannsóknir sem fram hafa farið á hafsbotninum í kringum landið. Hingað til eru það aðeins fá efni sem hafa verið numin af hafsbotni, einkum möl og sandur, og rannsóknir nokkrar farið fram í þeim efnum. Rannsóknir sem tengjast setlögum og hugsanlegum kolvetnum í setlögum á hafsbotni hafa farið fram, þó í takmörkuðum mæli. Á árunum 1972-1973 voru gerðar nokkrar slíkar rannsóknir, þyngdar-, segul- og dýptarmælingar, á landgrunninu og raunar hafði fyrr verið aflað gagna með þyngdarmælingum bandaríska sjóhersins, á árunum 1967-1969.

Á árinu 1978 hófust fyrstu mælingar sem vörðuðu setlög á hafsbotni innan íslenskrar lögsögu í verulegum mæli. Þá var veitt heimild til slíkra mælinga frá yfirborði, frá rannsóknarskipi, og þær fóru fram í nóvember- og desembermánuði 1978. Í þeim athugunum kom fram að allmikil setlög væru úti fyrir Norðurlandi sem ekki var vitað um, setlagadæld úti fyrir Skjálfanda og mynni Eyjafjarðar. Í framhaldi af þessum mælingum var ákveðið að ráðast í borun í Flatey á Skjálfanda sem liggur á þessu setlagabelti. Þar var boruð ein hola og gerðar á henni athuganir. Borunin varð ekki það djúp að þær upplýsingar fengjust sem æskilegt hefði verið, en unnið var úr borkjarna og fundust ekki vísbendingar um olíumyndun í þeim borkjarna né heldur um lífræn efni sem gætu ummyndast í olíu við hagstæðari skilyrði. Æskilegt var talið að halda þessari borun áfram, en úr því hefur ekki orðið. Talið var að setlög þessi væru um 4 km á þykkt, en borholan var aðeins á sjötta hundrað metra.

Síðan hefur það gerst í framhaldi af samningi sem gerður var milli Íslands og Noregs í tengslum við Jan Mayen í október 1981, þar sem ákveðið var m.a. að Íslendingar og Norðmenn skuli sameiginlega láta fara fram rannsóknir á ákveðnum svæðum og settar reglur um hvernig háttað skuli olíuleit á þeim ef til kæmi, að fram hafa farið mælingar, raunar á síðasta sumri, 1985, á Jan Mayen-hryggnum innan íslenskrar lögsögu með samkomulagi milli Orkustofnunar og norska jarðeðlisfræðifyrirtækisins Geco. Í tengslum við þær mælingar var einnig með sérstöku samkomulagi bætt við mælingum úti fyrir Norðurlandi frá rannsóknarskipi og mældar línur alls 230 km að lengd. Ekkert óvænt mun hafa komið fram í þessum rannsóknum, að mér er tjáð, enn sem komið er, en niðurstöður úrvinnslu munu fyrst liggja fyrir á næsta ári, 1986.

Þetta eru þær helstu athuganir og rannsóknir sem varða landgrunnið og hafsbotninn sem ég hef hér getið um. Þess má geta að á svæðum utan 200 mílna lögsögunnar liggja nú fyrir hugmyndir um athuganir á hinu svokallaða Hatton-Rockall-svæði, vísindalegar athuganir, en það hafa enn ekki verið teknar fullnaðarákvarðanir um þau efni. En allt sýnir þetta okkur að vitneskjan um þær stóru lendur sem Íslandi tilheyra eða Ísland gerir tilkall til er ófullkomin og hér liggur fyrir geysilega mikið verk í að kortleggja hafsbotninn og þær hugsanlegu auðlindir sem hann kann að hafa að geyma og síðan í framhaldi af því að rannsaka nánar eftir því sem upplýsingar falla til.

Það er brýn nauðsyn, herra forseti, vegna slíkra rannsókna að sefja sem fyrst lagareglur um hvernig háttað skuli eignarrétti að þessum hugsanlegu auðlindum og nýtingu þeirra. Það er ekki vafa undirorpið að ríkið sem slíkt er eigandi að auðlindum þeim sem á hafsbotni kunna að finnast og ræður yfir nýtingu þeirra. Það er í samræmi við viðurkenndar skoðanir manna, einnig í nágrannalöndum okkar.

Hér hefur verið valinn sá kostur að setja almenn lög um þessi efni þar sem ákveðnar verði meginlínur í stefnu þeirri sem tekin er. Um einstök svið hagnýtra rannsókna og vinnslu má síðar setja ákvæði í lögum og með reglugerðum eftir því sem þurfa þykir, m.a. um umhverfisvernd sem sérstaklega verður að sjálfsögðu að að hyggja í sambandi við hugsanlega nýtingu efna á hafsbotni, ekki síst ef um olíuleit er að ræða, svo viðkvæm sem fiskimið okkar geta verið fyrir mengun af þeim sökum.

Athugasemdir fylgja varðandi einstakar greinar frv. til skýringar og fylgiskjöl þar sem meðal annars er að finna uppdrætti sem sýna Ísland og hafið umhverfis og helstu mælingar sem fram hafa farið og ég gat um norðan landsins sérstaklega, en ekki voru teknar með upplýsingar um mælilínur á Jan Mayen-hrygg sem unnar voru á síðasta sumri og falla utan þeirra korta sem birt eru sem fylgiskjöl með þessu frv.

Herra forseti. Ég vænti þess að þetta frv., svo brýnt sem efni þess er og ætti ekki að vera deilumál hér á hv. Alþingi, fái skjóta og þinglega meðferð, athugun í allshn. sem ég legg til að fái mál þetta til meðferðar og að við getum náð því á þessu þingi að ganga frá lagasetningu um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær.

Umr. (atkvgr.) frestað.