03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

138. mál, aðgangur skóla að náms- og kennslugögnum

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Í fsp. þeirri sem hv. 3. landsk. þm. beinir til mín vísar hann til ályktunar Alþingis frá 13. júní s.l. sem hv. þm. mun hafa haft forystu um flutning á á sínum tíma ef mig misminnir ekki. En í þeirri ályktun skorar Alþingi á ríkisstj. að láta kanna í samstarfi við samtök sveitarfélaga og fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum hvernig hagkvæmast sé að auðvelda skólum aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og hjálpargögnum þannig að tryggt verði að allir nemendur hvar sem þeir búa á landinu geti hagnýtt sér fjölbreytt kennslugögn í námi.

Menntmrn. sendi vegna þessarar ályktunar bréf öllum fræðslustjórum, fræðsluráðum og stjórn samtaka sveitarfélaga. Nokkur svör hafa þegar borist með athyglisverðum tillögum. Enn vantar þó á að allir hafi svarað og verður ekki tekin lokaafstaða til málsins fyrr en fleiri svör liggja fyrir. Þegar er þó ljóst að takmarkið hlýtur að vera að allir nemendur hafi jafngreiðan aðgang að námsgögnum og skólar að kennslutækjum án tillits til búsetu og staðsetningar.