03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Með orðum mínum hér áðan var ég að vekja athygli á því hvernig stjórnarsinnar og þá einkum sjálfstæðismenn höguðu sér gagnvart sínum kjósendum, þeir lofuðu og þeir svikju. Ég er fylgjandi því frv. sem hér liggur fyrir og hef verið það frá upphafi. En ég benti á það, eins og hv. þm. Eiður Guðnason, að það eru þrjú stór atriði sem Sjálfstfl. hefur lofað og svikið. Það sem verra er núna er að nú eru þessir menn, eins og kom fram hér áðan, farnir t.d. að tala gegn tekjuskattslækkun eða afnámi. Búin eru til leiktjöld og hafðar uppi blekkingar um það, fólk er hrætt á því að það skuli bara lagðir á aðrir skattar, miklu hærri skattar í stað þess að lækka tekjuskatt. Þetta er ekkert annað en hræðsluáróður sem búinn er til til að láta fólk sætta sig við að loforð séu svikin, því miður.

Ég minni á það að á síðasta þingi Verkamannasambands Íslands, sem var haldið í síðasta mánuði, ályktaði þingið um það að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Ég er því innilega sammála. Það skyldi athugast að hvatinn að þeirri samþykkt er það hrikalega óréttlæti sem viðgengst í þessum skatti. Tekjuskattur á Íslandi er ekki lengur tekjujafnandi, það er öðru nær. Þeir sem hafa bestu aðstöðuna sleppa en hinir, sem vinna hjá öðrum, verða að greiða upp í topp. Þess vegna hefur þessi umræða komist á það stig sem hún hefur komist á. Við ráðum ekki við þetta kerfi og þess vegna eigum við að leggja tekjuskattinn niður eða breyta honum þannig að hann verði ekki lagður á almennar launatekjur. Þá er hægt að fækka þeim sem eiga að greiða tekjuskatt og auðveldara um eftirlit.

Ég get líka fallist á að neysluskattar séu almennt of háir og skil á söluskatti séu afar léleg í mörgum tilvikum enda sýna niðurstöður rannsókna það. Auðvitað þarf að fara ofan í þau mál og innheimta þessa skatta eins og lög gera ráð fyrir. En ég bið menn að hafa það í huga að ef tekjuskattur verður afnuminn af almennum launatekjum erum við að skapa meira réttlæti í þjóðfélaginu og afnema það ranglæti sem sérstaklega birtist mönnum þegar átti að fara að greiða mönnum láglaunabætur úr ríkissjóði þar sem hvers konar braskarar í þjóðfélaginu, sem allir vissu að veltu sér upp úr peningum, fengu sérstakar láglaunabætur. Þessar bætur voru miðaðar við tekjur manna, gefnar upp á skattframtölum. Við sáum það þar hvernig það kom út.

Margur hver, sem lenti í því að fá láglaunabætur, skammaðist sín svo illilega að þeir sóttu þær ekki eða skiluðu þeim til baka. En það sýndi vel hvernig reynslan hefur leikið þetta skattform.

Ég vil lýsa því hér yfir að ríkisstj. mun ekki geta teymt launþegasamtökin til einhvers sérstaks samráðs með því að hræða þau á því að hinir og þessir skattar verði hækkaðir og eitthvað djöfullegt gert til að gera mönnum sem erfiðast fyrir og síðan horfið frá því til að gera menn blíðari. Það er ekki leiðin að launþegasamtökunum og við það verður ekki unað.

Hv. síðasti ræðumaður minntist aðeins á vextina og fjármagnskostnað. Ég get fallist á margt sem þar kom fram. Mér er sagt að á síðasta fundi í SÍS hafi komið fram að í öllum deildum Sambandsins hafi fjármagnskostnaður verið meiri en launakostnaður. Það segir nokkuð um það hvernig málum okkar er komið í dag.