04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

158. mál, viðskiptabankar

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að örfáum atriðum sem fram hafa komið í ræðum þeirra sem hér hafa talað. Ég þakka þann stuðning sem - eigum við að segja svona meginstefna frv. hefur fengið. Hv. þm. hafa velt fyrir sér ýmsum atriðum eins og t.d. þeim hvort það myndi einhverju skipta í meginatriðum þótt ráðherra skipaði bankaráð. Ég held að það skipti máli.

Í fyrsta lagi þá er það prinsipatriði, það er grundvallaratriði, eins og komið hefur fram hérna hjá ýmsum reyndar, þá kannske í öðru samhengi, en það er grundvallaratriði að verkaskipting í stjórnsýslunni sé rétt og þá um leið að það sé ljóst hvar ábyrgð á stjórnvaldsathöfnum liggur. Eins og nú er háttað skipun bankaráða og stjórna ýmissa annarra fyrirtækja, sem eru á hendi ríkisins og Alþingi kýs, er það alls ekki ljóst. Af þeirri ástæðu skiptir þetta máli. Þetta skiptir líka máli vegna þess að þegar ráðherra skipar stjórn og Alþingi kýs ekki lengur þá stjórn er þeim hömlum létt af Alþingi sem núverandi fyrirkomulag veldur, þ.e. að Alþingi er miklu líklegra til þess að ganga eftir rétti sínum til upplýsinga heldur en nú er. Þess vegna er ég sannfærður um að þetta skiptir máli sem undirstaða undir ábyrgð og hreingerningu.

Hins vegar er það alveg ljóst, eins og kom reyndar fram í inngangsorðum mínum, að þessar tillögur voru á sínum tíma undanfari þess að ríkisbankarnir yrðu gerðir að almenningshlutafélögum. Þær tillögur, eins og þær voru lagðar fram í vor, gerðu ráð fyrir að ríkisviðskiptabönkum yrði breytt í hlutafélagabanka eigi síðar en 1. janúar 1987 og þessi aðgerð, að ráðherra skipaði bankaráðin, var hugsuð sem bráðabirgðaaðgerð þangað til af því yrði að bönkunum yrði breytt í almenningshlutafélög. Ég fagna því mjög að sú hugmynd, að ríkisbankarnir verði gerðir að almenningshlutafélögum, eigi nú fylgi Alþfl. Það yrði einhver stærsta aðgerð og mesta hreingerning í íslenskum stjórnmálum að losa bankana undan þessum pólitísku afskiptum og losa skattborgarana í landinu við að bera ábyrgð á athöfnum fólks og embættismanna þar, sem þeir þó á engan hátt geta náð til. Skattborgararnir, kjósendur, ná á engan hátt til þessara manna.

Ég er nú ekki vanur að auglýsa Morgunblaðið hér úr ræðustóli, en í Morgunblaðinu í dag á bls. 19 er býsna fróðleg auglýsing frá Útvegsbanka Íslands. Þar stendur, með leyfi forseta: „Láttu næstu 18 mánuði skila þér drjúgum arði án minnstu fyrirhafnar eða áhættu.“ Svo stendur svolítið neðar: " - og í ríkisbanka er áhættan engin.“ Og reikningurinn heitir „Öndvegisreikningur“. Þetta er auglýsing frá Útvegsbankanum, örugg fyrirhafnarlaus ávöxtun. Það stendur með skýrum stöfum „og í ríkisbanka er áhættan engin“, akkúrat, ríkisbankarnir eru marklausir sem viðskiptastofnanir vegna þess að þeir sem þar fara með völdin bera enga ábyrgð og taka enga áhættu sjálfir. Áhættuna tekur skattborgarinn, sem síðan verður að sitja heima hjá sér, getur ekkert að gert og margfaldar upphæðir, þúsundir milljóna, hundruð milljóna streyma í gegn og menn geta ekkert að gert. Mér verður, eins og ég sagði áðan, oft hugsað til þeirrar viku þegar þingmenn stóðu hér sveittir við að kría út eitt söluskattsstig, 250 milljónir í húsnæðismál. Og nú ætla fjögur söluskattsstig að hverfa út í vindinn. En því fyrr sem þessi hreingerning á sér stað, með því að gera þessa banka að einkabönkum, því betra. Almenningshlutafélög, það hlýtur að koma, það hlýtur að koma.

Svo ég víki aðeins að einstökum efnisatriðum þá varð hv. þm. Páll Pétursson helst til varnar bönkunum. Það er nú nokkurt áhyggjuefni vegna þess að hv. þm. er um leið formaður fjh.- og viðskn., sem ég legg til að þessu máli verði vísað til, og frv. hafa haft af því illa reynslu að lenda undir nefndarforsjá hv. þm. En við verðum að vona það besta. Hv. þm. Páll Pétursson segist vera mótfallinn þessu frv. og hann sér ekki að það bæti ástandið að ráðherra skipi bankaráðsmenn. Ég hef þegar rætt um það að það skiptir máli vegna þess að það varðar grundvallaratriði í stjórnskipun og stjórnsýslu og það léttir hömlum og höftum af Alþingi sem á að leita réttar síns í þessum efnum en gerir ekki. Svo kom dálítið merkileg setning hjá hv. þm. Hann segist ekki treysta bankaráði, sem væri skipað á þennan hátt, til þess að gæta jafnvægis. Hvaða jafnvægi er hv. þm. að tala um? Hvaða jafnvægis þarf að gæta innan bankaráða? (Gripið fram í: Jafnvægis á peningamarkaðinum.) Jafnvægis á peningamarkaðinum, já. Það er fróðlegt. Menn eiga ekkert að gæta neins jafnvægis þar. Menn eiga bara að sjá um að tekið sé við peningum, sem fólk leggur inn til ávöxtunar, og að þessir peningar séu ávaxtaðir og þar fari fram eðlileg, frjáls og örugg bankaviðskipti.

Og hv. þm. mótmælti ósvífnum aðdróttunum í grg. Það ósvífnasta sem hefur komið fram í þessari umræðu, að mínu mati, voru ummæli hv. þm. Páls Péturssonar í glensi um að Hafskipsmálið væri ekki flokksmál Framsóknar. Þar er mergurinn málsins. Það er jafnvægið sem hv. þm. er að tala um. Hin ósjálfráðu viðbrögð þingmannsins verða þau að þetta sé svo sem ekki athugavert vegna þess að þetta sé ekki flokksmál Framsfl. Hafskipsmálið er nefnilega flokksmál Sjálfstfl. (Gripið fram í: Já, en ef SÍS hefði keypt?) Þetta er flokksmál Sjálfstfl. og það er þessa jafnvægis sem hv. þm. er að hugsa um að gæta. Það á að vera jafnvægi innan bankaráðanna þannig að hagsmunir allra flokkanna séu passaðir. Á kostnað hvers? Á kostnað skattborgara landsins auðvitað. Ég held að það sé líka fullkomin ástæða til þess að láta falla ósvífnar athugasemdir þegar þúsund milljónir ætla á þennan hátt að týnast. Menn segja kannske: Ja, þetta eru nú bara mannleg mistök, eins og hv. þm. sagði. Einhvers staðar held ég að ég hafi tekið eftir því að hann segði að þetta væri svo sem ekki á ábyrgð neins, þetta væri ekki á ábyrgð bankastjóra eða bankaráðs, þetta hefði átt sér einhvern aðdraganda og væri þess vegna ekki á ábyrgð neins. Þetta eru skilaboð sem ættu að fara til skattgreiðenda þessa lands, að enginn beri ábyrgð. Við getum ekki afsakað þúsund milljónir með mannlegum mistökum. Þúsund milljónir hljóta að vera á ábyrgð einhvers, hv. þm. Það er fullkomlega löglegt og fullkomlega siðlegt að vera ósvífinn um þúsund milljónir. Og ég get ekki trúað því að mannleg mistök ráði því einu að mánuðum saman, að mánuðum saman glati þessi stofnun hundruðum milljóna. Fyrr má nú vera! Það er þá meiri auðlegð innan þeirra veggja ef menn taka ekki eftir minnu.

Hv. þm. sagði að þingmenn gætu látið ýmislegt gott af sér leiða í bankaráðum. Ég kýs nú að (Gripið fram í: Það er góðgerðarstarfsemi.) fara ekkert nákvæmlega út í þau ummæli. Þau gætu leitt til þess að ég léti kannske ósvífnar aðdróttanir falla. Þingmenn eiga bara ekkert að láta gott af sér leiða, hvorki í bönkum né öðrum stofnunum framkvæmdavaldsins. (Gripið fram í.) Þingmenn geta ýmislegt látið gott af sér leiða, ef þeir eru sæmilega óheftir innan veggja þessarar stofnunar hérna, við að setja landinu og þjóðinni sæmileg lög. Það er fullkomlega nægilegur vettvangur fyrir þingmenn sem vilja láta gott af sér leiða og þess vegna m.a. þarf ekkert að finna þeim aðra svona vígvelli til þess að sinna góðgerðarvitund sinni. Við ættum að halda þeim hér innan veggja hvað það varðar. Ég hef ekkert á móti því að þingmenn láti gott af sér leiða í ýmsu tilliti. Þeir geta tekið þátt í ýmiss konar góðgerðarstarfsemi þar sem þeir gera það þá á sína ábyrgð.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa mín orð fleiri í augnablikinu. Ég endurtek það að ég þakka þær undirtektir sem frv. fékk hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Jóni Hannibalssyni. Ég held að enda þótt það sé lokamarkmið okkar að losa þessa banka undan flokkspólitískri stjórn og að koma þar að ábyrgð, raunverulegri ábyrgð, þá sé það nauðsynleg aðgerð til bráðabirgða að koma þessu í það stjórnarfarslega horf að Alþingi myndi ekki skjól fyrir starfsemi eins og okkur virðist hafa átt sér stað innan veggja Útvegsbankans síðustu vikurnar og mánuðina.