05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við þeim tilmælum að dreift verði tillögu þeirri, sem hér hefur sérstaklega verið gerð að umræðuefni, bæði á ensku og íslensku, en ég vil taka það fram að það mundi æra óstöðugan og Alþingi Íslendinga ekki hafa neitt annað að gera ef það ætti að ræða 74 tillögur um afvopnunarmál, sem lagðar hafa verið fram á þingi Sameinuðu þjóðanna, og ákveða hér á Alþingi hvernig afstaða þingsins ætti að vera.

Ég hef oftsinnis látið þá skoðun í ljós að það er ekki Sameinuðu þjóðunum til framdráttar eða friði í heiminum til eflingar þetta tillöguflóð. Það er ákaflega auðvelt að koma með yfirborðslegar afvopnunartillögur og fá þær samþykktar. En hitt er erfiðara að fá gerðar þær samþykktir sem virtar verða og raunverulega efla frið í heiminum.

Ég held að við getum öll verið sammála um að það er kjarni okkar tillögu að málsaðilar uni því og treysti sem samþykkt er og alþjóðlegt eftirlit verði með því haft. Þetta er kjarni málsins. Við náum ekki árangri á sviði afvopnunar nema málsaðilar uni og treysti því sem samþykkt verður og alþjóðlegt traust eftirlit eigi sér stað. Ég held þess vegna að við verðum að vera kröfuhörð í afstöðu okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að þetta eftirlit sé til staðar en að menn skáki ekki í því skjólinu að geta skorast undan eftirliti og geti borið fyrir sig samþykktir sem geta verið gerðar með miklum meiri hluta atkvæða en gera samt ekkert gagn heldur tefja fyrir því að málsaðilar uni alþjóðlegu eftirliti. Í þeim anda höfum við myndað okkur skoðun og greitt atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

1