09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. 2. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. heilbr.- og trn. Það er nú fremur áhersluatriði að við skulum ekki standa saman, ég og frsm. 1. minni hl., að nál. fyrir 1. minni hl. því að ég heyrði á síðustu orðum hans að við erum alveg sammála um að geta ekki greitt þessu frv. okkar atkvæði, verði ekki gerð breyting á ákvæði þess um skráningu.

Fyrst í stað vil ég undirstrika þau orð sem hv. þm. hafði síðast í sinni ræðu, að á síðasta afgreiðsludegi þessa máls skuli vera gerð svo veigamikil breyting að hefði þessi ábending ekki komið fram nú hefðum við verið að samþykkja að aðeins hefði þessi sjúkdómur verið skráður væri hann kominn á lokastig. Þetta er okkur virkilegt umhugsunarefni á hv. Alþingi að hér skuli vera þvílíkur „lapsus“ í frv., m.a.s. eftir að meiri hl. nefndarinnar hefur samþykkt það út úr nefndinni, að hér er algjör meiningarmunur á, því að eins og heilbrigðisyfirvöld hefðu líkast til átt að vita áður en þau sömdu þetta frv. þá er alnæmi lokastig sjúkdómsins en smitun af HTLV3-veirunni er eingöngu smitun af veirunni og 90% af þeim einstaklingum sem fá þessa veiru eru algerlega einkennalausir.

Hér er einnig um sjúkdóm að ræða sem ekki er hægt að líkja við aðra þá sjúkdóma sem falla undir umrædd lög. Það er því engin goðgá að hafa annars konar skráningu á þeim einstaklingum sem smitast af þessari veiru. Og ég undirstrika að það er aðalatriðið sem ber á milli þeirra einstaklinga sem eru málsvarar þess áhættuhóps sem mest varðar þetta mál og þeirra sérfræðinga sem vinna að málinu. Ég vonast því til þess að ráðuneytið og landlæknisembættið taki þetta mál enn einu sinni og endurskoði það. Sú er ástæðan fyrir því að ég legg ekki fram hér brtt. um skráningarákvæðið að ég vil síður að það verði fellt í þessari deild því að í Nd. gæti niðurstaðan orðið sú að þar væri rétt að málum staðið og ég vil ekki að nein aðgerð í þessari hv. deild komi í veg fyrir að menn komist að þeirri niðurstöðu.

En lítum aðeins á skráningarákvæðið. Ég vil sérstaklega undirstrika það vegna þess að það er það viðkvæmasta í þessu máli og getur að dómi ýmissa manna fælt menn mest frá að láta rannsaka sig. Menn vilja ekki hafa sitt fæðingarnúmer í skráningunni. Hjá landlæknisembættinu er sérskrá yfir hvern sjúkdóm. Það er t.d. sérstök skrá yfir þá menn sem eru með sýfilis eða hvern þann kynsjúkdóm sem fellur undir þessi lög. Þar með fellur niðursú ábending, sem kom fram m.a.s. hjá hv. frsm. meiri hlutans, að með því að gera annars konar skrá fyrir ónæmistæringu væri verið að benda sérstaklega á þá einstaklinga vegna þess að það væri ekki sama regla höfð á skráningunni. Það er nú þegar til sérstök skrá og flokkuð eftir sjúkdómum. Hvað er það þá sem kemur í veg fyrir að upphafsstafir læknis séu í stað upphafsstafa mannsins? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að það sé ekki fæðingarnúmerið? Það sé nóg að hafa fæðingarár og kyn? Og fæðingarmánuð jafnvel vilja sumir en aðrir nefna að það væri nóg að hafa fæðingarár og kyn því að hjá landlæknisembættinu er fyrst og fremst verið að fylgjast með fjölda þeirra einstaklinga sem hafa smitast en ekki hverjir mennirnir eru. Það ætti að vera nóg að sérhver læknir sem hefur með sjúklinginn að gera sé með þessar upplýsingar.

Ég tel að það verði engum til góðs að við séum að fæla frá þá einstaklinga sem hugsanlega kæmu til rannsóknar hér á landi, að við séum jafnvel að leggja stein í götu þeirra rannsókna sem þegar eru hafnar hér með því að skera okkur úr öllum þeim þjóðum sem nú eru að fjalla um þetta mál. Svíar eru þeir einu sem nú þegar eru búnir að setja þetta undir lög um kynsjúkdóma. En þeir breyttu sínum skráningarákvæðum. Ég fæ ekki séð að hér á landi séum við það sérstök að neinu leyti að við eigum ekki nákvæmlega það sama á hættu og annars staðar, að þetta ákvæði hafi fælingu í för með sér. Og ég tel þetta miklu veigameira en varðandi hegningarákvæðin því að þau eru fremur almenn í lögunum. Þó væri alveg hægt að athuga þann möguleika hvort þar þyrfti orðalagsbreytingu. En þetta er meginatriði. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði í grein eftir Guðna Baldursson sem er fylgiskjal með mínu nefndaráliti. Ég held einmitt að fram komi í þeirri grein að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Allan þann tíma sem þetta var til meðferðar í nefndinni, og þótti sumum nóg um þann tíma, voru allir nm. sammála um að hafa ekki hátt um þetta mál, fara ekki með það í fjölmiðla. Ég vil sérstaklega undirstrika að Guðni Baldursson setti sína grein ekki í fjölmiðla fyrr en búið var að afgreiða málið úr heilbr.- og trn. og það var með fullri vitund þeirra lækna sem hafa starfað að rannsóknum á þessum sjúkdómi.

Guðni hefur bent á að þessi lagasetning muni vinna gegn tilgangi sínum. Ég held að það beri að undirstrika. Ég vil jafnframt taka fram að ég ætla ekki að fara að lesa upp eða koma á framfæri mörgum af þeim upplýsingum sem borist hafa nefndinni. Mér finnst margt af því mjög fróðlegt en ég held að við þurfum að horfa fyrst og fremst á það að fræðslu þarf til þess að fólk, almenningur í landinu, hræðist ekki þennan sjúkdóm. Það er agalegt til þess að vita að menn skuli hræðast jafnvel skiptimiða í strætisvögnum vegna vanþekkingar á hvernig þessi sjúkdómur smitast, að menn skuli jafnvel ekki þora að fara í sundlaugar vegna hræðslu við að smitast af þessum sjúkdómi. Þetta stafar eingöngu af vankunnáttu. Ég held að okkur beri að leggja megináherslu á að fræða almenning í landinu og setja þannig lög að þau fæli ekki þá einstaklinga sem eiga það á hættu að hafa komist í snertingu við umrædda veiru frá því að leita læknis. Ég held að við verðum að undirstrika það hér og nú að heilbrigðisyfirvöld hafa mjög mikið á samviskunni og hv. þm., sem samþykkja þessi lög óbreytt, hafa mjög mikið á samviskunni ef okkur mistekst í baráttunni gegn þessum sjúkdómi.