10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

157. mál, lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er málið allviðamikið og ég held ég hafi ekki fundið önnur mál sem oftar hafa verið tekin fyrir í ríkisstjórnum því að bunkinn er upp undir cm þykkur - og því engin tök á að rekja þetta allt saman hér.

En þó vil ég nefna það til viðbótar að 21. ágúst 1978 er lagt fram í ríkisstjórninni bréf sem greinir frá nýjum útlánareglum Fiskveiðasjóðs. Í því bréfi kemur greinilega fram að Fiskveiðasjóður muni aðeins lána 50% kaupverðs. Hér segir: Fiskveiðasjóður láni aðeins 50% kaupverðs. Og af kynnum mínum af Fiskveiðasjóði má ég fullyrða að það er ekki auðvelt að fá stjórn Fiskveiðasjóðs til að breyta slíkri samþykkt. Ég átti um það ítarlegar viðræður við Fiskveiðasjóð hvort hugsanlegt væri að gera undantekningu vegna fyrri meðferðar þessa máls. Svarið sem ég fékk var það að stjórnin gæti ekki fallist á það. Sömuleiðis var á það bent hvað eftir annað að þessar reglur hefðu legið fyrir áður en þessir nýju kaupendur komu inn í spilið, þ.e. útgerðarmenn á Snæfellsnesi og í Reykjavík, og átti því að vera öllum ljóst þegar það var gert.

Ég endurtek að það finnst hvergi í fundargerðum ríkisstj. loforð um það að ríkisstj. muni tryggja lán, meiri en Fiskveiðasjóður hafði þegar ákveðið. Og ég endurtek að mér er ljóst að um þetta hafa orðið miklar umræður og reyndar deilur, en eitt er þó vert að athuga í þessu máli: að kaupendum var ætíð gert að hafa 20% eigið fé til taks. Það var ekki til í sambandi við togarann Má, því miður, og var fengið að láni af kaupendum beint frá viðskiptabanka. Og ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að það fær ekkert fyrirtæki, hvort sem það er útgerðarfyrirtæki eða annað, staðið undir því að hafa ekkert eigið fé í sínum rekstri. Þannig að ég hlýt að draga það í efa, jafnvel þótt fengist hefðu 67% úr Fiskveiðasjóði, að rekstur þessa skips hefði getað gengið. Munurinn hefði orðið sá að Fiskveiðasjóður hefði yfirtekið ákveðin lán og lengt þau. Þeir fengu lánin, en þeir fengu þau ekki lengd til þess tíma sem reglur Fiskveiðasjóðs gera ráð fyrir.