26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

194. mál, tollskrá

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 205, 194. máli. Það liggur í loftinu að það verði farið að ræða tollamál, tollskrármál og annað slíkt eftir því sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað og það er því ekki úr vegi að hreyfa hér smámáli sem snertir þessi efni. Við vitum allir þm. að það er alls konar misræmi í tollskránni og aðflutningsgjöldum og má sjálfsagt mörgum athugasemdum hreyfa í þeim málum. Tollskráin sjálf er afskaplega flókin og ekki nema fyrir einstaka menn að kunna hana til nokkurrar hlítar. Efni þessa frv. varðar borðtennisútbúnað sem ég skal nú nánar greina.

Það er alkunna að ríkisvaldið ver tiltölulega takmörkuðu fé til að byggja skólamannvirki. Þessi hús eru yfirleitt mjög dýr og það er mikið átak sem ýmsar byggðir landsins og forráðamenn þeirra verða að takast á hendur við að koma upp góðu skólahúsnæði með öllu sem því þarf að fylgja að lögum. Nú er það svo að ríkið er þarna verulegur aðili og þar veltur á miklu að þessar fjárveitingar af hálfu ríkisins berist í tæka tíð. Á þessu vill oft verða mikill misbrestur. Við gagnrýnum það að framlög til opinberra framkvæmda á fjárlögum hafa rýrnað mjög á liðnum árum svo að til vandræða horfir, verð ég að segja. Samkvæmt því fjárlagafrv. sem við fjöllum um nú eru að vísu ætluð nokkuð hækkuð framlög til skólamannvirkja og hafna. En fiskihafnir landsins hafa verið gjörsamlega sveltar að framkvæmdafé af hálfu ríkisins a.m.k. tvö s.l. fjárlagaár.

Nú er það mjög mikið vandaverk nú á tímum að stjórna fjölmennum heimavistarskóla. Það held ég að allir viðurkenni. Skólastjórar verða að fylgjast með, hafa góða stjórn á sínum skóla og sjá um að þeir nemendur, sem þeir eiga að kenna, gangi eftir þroskabraut, hafi ávallt eitthvað gagnlegt og gott fyrir stafni og taki framförum í skólanum. Til þess að slík skólastjórn geti farið vel úr hendi þarf m.a. að vera hægt að vísa nemendum á hollar og hressandi íþróttagreinar sem þeir geta iðkað í frístundum sínum. Við vitum það að sums staðar verða skólastjórar að búa við það að kenna hópi nemenda í skólum sem eru, mér liggur við að segja, hálfbyggðir. Þar skortir oft aðstöðu m.a. til þess að iðka íþróttir. Sannleikurinn er sá að það er mikils virði að geta beint nemendum út á leikvang eða í sundlaug eða á annan slíkan stað þegar þeir hafa til þess tíma.

Hér er minnst á borðtennis sem er mjög hressandi og skemmtileg íþróttagrein. Það þarf ekki mikinn útbúnað til þess að grípa í þennan leik. Það er einmitt mjög hentugt að iðka þennan leik í tómstundum. Ég man það að hér fyrir mörgum áratugum hresstum við okkur á þessari íþróttagrein í erfiðum prófum, m.a. lögfræðiprófi. Þessi íþrótt var talsvert mikið iðkuð á Garði í fyrri tíð. En það er hentugra að umbúnaður, þó hann sé ekki margbrotinn, sé löglegur því að þetta er viðurkennd keppnisgrein á Ólympíuleikum. Samkvæmt tollskránni sem nú gildir á að greiða 50% toll af borðtennisbúnaði og 24% vörugjald að auki. Þetta eru mun hærri aðflutningsgjöld en greidd eru af öðrum sambærilegum íþróttavörum. Efni þessa frv. gengur út á það að þarna verði leitað samræmis, að tollur þessi verði lækkaður í 35% og vörugjald fellt niður.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en legg til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.