27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Þetta hafa orðið langar umræður, lengri en ætla hefði mátt í upphafi, og ég er síst að harma það, og einnig fróðlegar þótt ekki hafi allt verið spaklega mælt.

Ég vil þó byrja á því að fagna þeim góðu efnislegu undirtektum sem þessi tillaga og efni hennar hefur fengið hjá öllum þeim ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls. Það er ánægjulegt og það er mikils virði fyrir framgang málsins. Það sýnir að alþm. líta á umhverfismálin sem einn mikilvægasta málaflokkinn sem hefur verið til umræðu hér í þingsölum og er það vel.

Ég ætla ekki nú, undir lok þessara umræðna, að tala langt mál né svara ítarlega þeim athugasemdum sem fram hafa komið vegna þessa tillöguflutnings. Þó vil ég ekki láta hjá líða að andmæla þeim ummælum sumra ræðumanna að þeir sem að þessari tillögugerð standa séu með því raunverulega að vinna gegn framgangi málsins, þetta sé frekar til þess að tefja málið heldur en hitt. Það liggur náttúrlega í augum uppi hvílík firra felst í slíkum ummælum sem við heyrðum áðan. Ég vil benda á það, m.a. vegna ummæla hv. 5. þm. Austurl., að þrisvar sinnum, hygg ég, hafa verið flutt á Alþingi frv. um umhverfismál. Í öll skiptin þrjú eru það þm. Sjálfstfl. sem hafa flutt þau frv. Þess vegna situr það síst á hv. þm. að saka sjálfstæðismenn, sem standa hér að tillöguflutningi í fjórða sinn, um áhugaleysi í þeim efnum. Ég bendi aðeins á þessa staðreynd.

Ég bendi líka á að frá því að sjálfstæðismenn fluttu þetta mál fyrst á þinginu 1978 hafa setið ýmsar ríkisstjórnir, skipaðar mönnum úr ýmsum flokkum, sem ekki hafa flutt nein frumvörp um umhverfismál.

Ég vil í framhaldi af þessu taka undir það sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði varðandi varnir gegn mengun hafsins hér við Ísland og þá miklu hættu sem stafað getur af slysum þar og hann vék sérstaklega að. Er full ástæða til að gefa þeim málum mun meiri gaum en gert hefur verið.

Það er alveg ljóst af þeim tillöguflutningi sem er til umræðu í dag að mál hafa þokast mjög seint fram. Ég ætla þó ekki að rekja neitt syndaregistur. Það er einfaldlega staðreynd, hvort sem það er vegna tregðu í kerfinu, deilu ráðuneyta eða af öðrum ástæðum eða orsökum. Ég læt það alveg liggja á milli hluta. Hins vegar hafa nokkrir þm. Sjálfstfl. gert tilraun til að þoka málinu fram á við. Ég tel að menn ættu að meta það sem lofsvert framtak og áhuga á málsefninu fremur en hitt. Það er einfaldlega af þeim orsökum sem þessi tillaga er lögð fram.

Þm. hafa ýmsir komið hér upp og gagnrýnt málsmeðferðina, eins og þeir hafa sagt, og harmað. Ég á ákaflega erfitt með að skilja hvað í slíkum ummælum felst og raunar hefur hv. 2. þm. Norðurl. e. svarað því, svo að um það þarf ekki að hafa mörg orð. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan til umræðu var í þingsölum þáltill. um náttúruvernd og umhverfismál sem fimm þm. Alþb. fluttu, þm. eins flokks. Þá hafði enginn á orði að það væru undarleg vinnubrögð. En nú þykja það allt í einu undarleg vinnubrögð þegar sjö þm. Sjálfstfl. flytja tillögu um stefnumótun í umhverfismálum. Þannig rekur sig eitt á annars horn í þessum málflutningi.

Meginatriðið er auðvitað, og sem betur fer heyrist mér þm. alinennt vera sammála um það, að það þarf að koma þessum málum á nýjan grundvöll og taka upp nýja skipan í stjórnsýslu umhverfismála. Það er meginmálið og það er vitanlega þar sem eldurinn brennur heitast í þessum efnum. Í þessari tillögu okkar er engin afstaða tekin til þess hvort það skuli vera í sérstöku umhverfismálaráðuneyti. Tillagan mælir ekki gegn því. Í því frv. sem við sjálfstæðismenn lögðum síðast fram var gert ráð fyrir að yfirstjórn þessara mála yrði öll vistuð í sérstakri stjórnardeild í Stjórnarráði Íslands. Það er leið sem að mínu mati kemur enn mjög til greina. En meginatriðið er þó að sett verði á laggirnar skipuleg yfirstjórn umhverfismála í stjórnarráðinu. Það er fyrsta skrefið og hið mikilvægasta nú af því að þessi mál eru þar á tjá og tundri og er mál að linni.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.