27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um varaflugvöll fyrir millilandaflug á Akureyri.

Till. gengur út á það að ríkisstjórnin láti fara fram svo fljótt sem kostur er rækilega úttekt á möguleikum þess að Akureyrarflugvöllur þjóni sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug.

Kannað skal sérstaklega hvaða úrbætur þurfi að gera á flugvellinum til að hann geti þjónað sem varaflugvöllur og þá bæði miðað við núverandi aðstæður, núverandi flugleiðsögutækni, aðflugstæki og vélakost íslensku flugfélaganna og hvað slíkar úrbætur kosta, en einnig verði horft til möguleika þessa flugvallar í sama skyni, þ.e. til að þjóna sem varaflugvöllur í framtíðinni með hliðsjón af líklegri þróun mála á þessu sviði sem að hluta til er ljós en að öðru leyti hlýtur að koma fram á næstu árum.

Hér er, herra forseti, sem sagt lagt til að kanna þann kost sem ég held að allir hljóti að geta orðið sammála um að væri nærtækastur og langhagkvæmastur fyrir okkur Íslendinga ef hann reynist sæmilega vel fær og það teljum við flm., sem eru auk mín allir hv. þm. Norðurl. e. sem sæti áttu á Alþingi í upphafi þessarar viku, sjö að tölu og sleppi ég því tímans vegna að lesa þá upp en það kemur fram á þskj. 194.

Rökin fyrir því að gera þessa ítarlegu úttekt eru mörg. Það eru fyrst og fremst þau rök sem mæla með því að Akureyrarflugvöllur er bæði nærtækasti og hagkvæmasti kosturinn sem við eigum völ á. Í grg. er nokkuð fjallað um þetta, m.a. þann búnað og þær aðstæður sem nú eru á Akureyrarflugvelli. Um nauðsyn þess að gera þessa könnun vísa ég í upphaf grg. Þar kemur fram að allmikil umræða hefur verið um það hérlendis undanfarið að nauðsynlegt og æskilegt væri að hafa varaflugvöll fyrir okkar millilandaflug sem væri sem óskyldastur því veðurfarssvæði sem er á Keflavíkurflugvelli og gæti þar af leiðandi oftast þjónað sem fullnægjandi varaflugvöllur fyrir þann völl. Það hefur verið rætt um ýmsa staði bæði norðanlands og austan án þess að menn hafi fyllilega orðið á eitt sáttir um það hvar best væri að hafa slíkan flugvöll. En hér kemur fleira til en valið eitt, að finna besta staðinn, því að hér hagar ekki lengur til eins og þegar Úlfljótur fór um landið og valdi þingstað fyrir alþingi þjóðarinnar. Þá þurfti ekki að líta til bygginga eða annarra meiri háttar mannvirkja, vega eða samgöngumála sem fyrir voru, heldur var landið nýlega numið og þar af leiðandi var tíminn núll, eins og menn stundum segja í umræðum, til þess að velja sér stað. Við þær aðstæður búum við ekki nú og flugvellir landsins eru mjög mismunandi bæði að stærð og búnaði.

Við teljum flm., og það kemur fram í grg., að það væri mjög óvarlegt að hefja bollaleggingar um jafngeysikostnaðarsamt fyrirtæki og það yrði að byggja upp og ekki síður að reka sérstakan varaflugvöll áður en kannað er til þrautar og með tilliti til nýjustu tækni hvort Akureyrarflugvöllur, sem fyrir er í fullum rekstri frá morgni til kvölds, geti þjónað þessu hlutverki með litlum úrbótum. Þetta er ekki síst rétt að undirstrika vegna þess að það eru geysileg verkefni fram undan í uppbyggingu flugsamgangnanna hér innan lands. Það er öllum ljóst sem eitthvað ferðast um landið. Því er mjög mikilvægt að handbært fé í þetta verkefni á næstu árum nýtist sem allra best. Ég vil nefna ekki síst uppbyggingu flugvallarins við Egilsstaði sem er alger miðpunktur flugsamgangna til Austfjarða. Þar er stórt verkefni fram undan sem verður að ráðast í sem fyrst. Það má koma fram hér í leiðinni að ég teldi æskilegt að þeirri uppbyggingu yrði þannig hagað að Egilsstaðaflugvöllur hefði þegar tímar líða fullan burð og getu til þess einnig að þjóna vissu varaflugvallarhlutverki og svo mætti reyndar segja um fleiri staði sem til þess henta, svo sem Sauðárkróksflugvöll og Húsavíkurflugvöll í Aðaldalshrauni. Það væri æskilegast að þessir flugvellir allir gætu með tíð og tíma, þegar uppbygging þeirra kemst á það stig, þjónað þessu hlutverki. Ég tel að að því eigi að stefna með því að gera brautir þannig úr garði að þær hafi burð til að sinna þessu hlutverki í framtíðinni þó að þær séu byggðar styttri í fyrstu áföngum.

Herra forseti. Aðeins um möguleikana sem Akureyrarflugvöllur hefur upp á að bjóða í þessu sambandi. í fyrsta lagi má nefna það, sem öllum er væntanlega ljóst, að Akureyri og Eyjafjörður eru langstærsti þéttbýlisstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins og þar er mikið og vaxandi hótelrými og margs konar þjónusta við ferðamenn sem æskileg er í þessu skyni. Langstærsta og fullkomnasta sjúkrahús landsmanna utan Reykjavíkur er á Akureyri, deildaskipt sjúkrahús með allri aðstöðu sem slík hús hafa upp á að bjóða og einungis steinsnar frá flugvellinum. Í þriðja lagi liggur Akureyri mjög vel við mörgum vinsælustu ferðamannastöðum Íslands. Það er ekki ólíklegt, og reyndar má telja það næsta víst, að þaðan hefjist eitthvert millilandaflug innan tíðar og hafa reyndar þegar verið gerðar tilraunir með slíkt af hálfu Flugleiða. Í fjórða lagi er Akureyrarflugvöllur þegar allvel búinn flugvöllur með bundnu yfirborði og góðum tækjabúnaði á íslenskan mælikvarða. Í fimmta lagi má nefna að með tilkomu svonefnds Leiruvegar, sem lokið verður núna fyrir jól, 15.-20. des., opnast möguleikar á auðveldri og væntanlega fremur ódýrri lengingu flugbrautarinnar til suðurs, en þeir möguleikar voru ekki fyrir hendi áður miðað við þáverandi vegarstæði. Það þarf einungis að lengja flugbraut á Akureyri um nokkur hundruð metra til að hún sé fullnægjandi fyrir stærstu farþegaþotur. Við Akureyrarflugvöll er flugstöðvarbygging sem er bæði rúmgott og vandað hús og getur án vandkvæða tekið við verulegum farþegafjölda. Þá skiptir það í sjöunda lagi ekki litlu máli að á Akureyrarflugvelli er þegar við störf hópur vel þjálfaðs starfsfólks og flugvöllurinn er, eins og ég áður vék að, í fullum rekstri nær alla daga ársins frá morgni til kvölds. Það mundi því aðeins valda tiltölulega óverulegri aukningu á rekstrarkostnaði að gera Akureyrarflugvöll að varaflugvelli fyrir millilandaflug, auk þess sem beint utanlandsflug til og frá vellinum yrði auðveldara en áður. Að endingu er rétt að minna á það og undirstrika að allar úrbætur á og við Akureyrarflugvöll koma að fullum notum í rekstri langmikilvægasta flugvallarins fyrir innanlandsflugið utan Reykjavíkur og það er mikill kostur að mínu mati.

Það hefur nokkuð verið rætt um tæknilega möguleika þess og landfræðilegar aðstæður sem takmarka að nokkru leyti afnot af Akureyrarflugvelli. Í því sambandi er rétt að nefna að þegar hefur fengist góð reynsla af blind-aðflugi úr suðri niður Eyjafjarðardali. Það hefur nú verið reynt í tvö ár og gefist vel að allra dómi, bæði starfsmanna við flugvöllinn og flugmanna, og er það mikilvægt í þessu sambandi. Þá er rétt að minna á að þetta blind-aðflug, með þeim tækjum sem nú eru notuð, er hægt að bæta að mati fagmanna og þar með lækka þær blindflugstölur, þær lágmarkshæðir sem notaðar eru í þessu flugi nú. Í öðru lagi er rétt að muna eftir þeim breytingum sem líklegt er að verði á samsetningu flugflota íslensku flugfélaganna á næstu árum og telja má víst að verði innan tíðar vegna aldurs núverandi flugflota. Í þriðja lagi er og ekki síst er rétt að nefna þær breytingar sem eru að verða og verða fyrirsjáanlega á næstu árum á flugleiðsögutækjum og aðflugstækjum. Það eru þegar í prófun og uppsetningu erlendis aðflugstæki og flugleiðsögutæki af alveg nýrri gerð, sem ekki þekkjast hér, og reynsla þeirra gefur góða raun. Standist þær væntingar sem við þær eru bundnar má ætla að slík tæki, stundum kölluð MLS í staðinn fyrir ILS sem nú eru notuð, muni gera nærfellt að engu þær landfræðilegu takmarkanir, sem notkun flugvalla eins og Akureyrarflugvallar, Zürich -flugvallar í Sviss, flugvallarins við Singapore o.fl., eru settar. Þetta er mat sérfræðinga. Við flugvelli í Bandaríkjunum er þegar verið að reyna þessar gerðir aðflugstækja, við þær eru bundnar miklar vonir og hef ég ekki fleiri orð um það.

Gera þarf ýmsar lagfæringar við og á Akureyrarflugvelli til þess að hann geti þjónað þessu hlutverki. Það verður matsatriði hversu fullkominn völlinn á að gera, t.d. hvort leggja á alveg sjálfstæðar keyrslubrautir frá flugvallarstæði og út á enda flugbrautarinnar sitt hvoru megin. Það er nokkuð kostnaðarsamt mannvirki en hugsanlegt er að leysa tímabundið það mál með því að setja snúningsslaufur á enda flugbrautarinnar eins og hún er nú og þarf þá ekki, a.m.k. ekki fyrst um sinn, að kosta því til að leggja sjálfstæðar aðkeyrslubrautir. Það þarf einnig að breikka bundið slitlag vegna ljósa, lengja flugbrautina, eins og ég áður sagði, um einhver hundruð metra og ýmislegt fleira sem smávægilegt má telja þarf að bætast við bæði tækjakost og aðstæður. En það er ljóst að þar er um litlar fjárhæðir að ræða borið saman við það stóra verkefni að byggja nánast frá grunni sjálfstæðan flugvöll af þessari stærð og reka hann með þeim búnaði sem óhjákvæmilegur er og láta standa þar tilbúinn árið um kring þótt þau skipti sem varaflugvallar er í raun þörf séu örfá á hverju ári. Það má því ljóst vera að það er afar hagkvæmt ef hægt er að samnýta þýðingarmikinn flugvöll í innanlandsfluginu, sem er í fullum rekstri flesta daga ársins, og þennan væntanlega varaflugvöll. Það er ekki síst sá þáttur sem ég tel nauðsynlegt að athuga mjög vandlega, þ.e. samnýting þessa hvors tveggja.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherslu, herra forseti, svo það valdi ekki nokkrum misskilningi, að út af fyrir sig eru menn sammála um það að æskilegasti kosturinn landfræðilega og líklega veðurfræðilega einnig til að þjóna varaflugvallarhlutverkinu er væntanlega Skagafjörður og þar á eftir kæmu staðir eins og Húsavíkurflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. En því fer fjarri að við búum við það öryggi sem æskilegt væri í flugsamgöngum okkar yfirleitt, á það vantar mikið. Til að mynda vantar næstum alla héraðsflugvelli landsins meiri og minni tækjakost og jafnvel sjálfar brautirnar eru þannig að það er langt frá því að við búum við það öryggi sem æskilegt væri. Því er hér um mat að ræða á verkefni sem við höfum sinnt af miklum vanefnum undanfarin ár.

Æskilegast væri að við gætum leyft okkur þá ráðstöfun að byggja fullkominn varaflugvöll og hafa hann í fullum rekstri þar sem aðstæður eru til þess bestar. Um það þarf ekki að þrátta. Spurningin snýst fremur um hitt hvernig við ráðstöfum á skynsamlegastan máta þeim takmörkuðu fjármunum sem við virðumst hafa til að láta renna til flugsamgangnanna.

Hér er sem sagt lögð til ákveðin tilhögun sem tvímælalaust yrði hagkvæm, mjög hagkvæm, bæði hvað varðar stofnkostnað og rekstur ef hún er fær með fullnægjandi hætti. Sem betur fer, vil ég segja, bendir ýmislegt til þess að þessi leið geti leyst þetta mál fyrir okkur á fullnægjandi hátt og vel viðunandi hátt, a.m.k. brúað það tímabil þangað til við teljum okkur það vel efnum búin og þangað komin í uppbyggingu flugsamgangnanna að við getum farið að huga að því að byggja alveg sérstaklega varaflugvöll til að þjóna því hlutverki einkum og sér í lagi.

Að lokum vil ég sérstaklega leggja áherslu á það, herra forseti, að öryggi er mjög takmarkað, því er mjög ábótavant í flugsamgöngunum eins og þær ganga fyrir sig hjá okkur í dag. Þeir flugvellir eru tiltölulega fáir hér í landi sem hægt er að segja að virkilega standist þær kröfur sem gera á og gera verður til flugvalla hvað öryggismál snertir. Hvað varðar hins vegar varaflugvöllinn sem slíkan þá er hann ekki síður rekstrarlegt atriði, hagkvæmnisatriði heldur en öryggisatriði. Þess vegna er hér um mat helstu kostnaðarþátta að ræða til viðbótar öryggissjónarmiðunum. Það er ljóst að flugfélögin geta og hafa leyst það vandamál að hafa ekki fullbúinn varaflugvöll með því að notast við varaflugvelli í öðrum löndum. Að því er mikið óhagræði og má vissulega rökstyðja að það sé ekki heldur jafnæskilegt frá öryggissjónarmiðum. En þannig hefur þetta mál þó verið leyst og þar með er ekki síður um að ræða hagræðingaratriði í rekstri flugfélaganna heldur en öryggisatriði þó það fari þar að nokkru leyti saman. Síðast en ekki síst er þetta spurning um ráðstöfun fjár, fjár sem ég að vísu held fram að þyrfti verulega að auka og eigi að auka á næstu árum, því að þjóð sem byggir jafnmikið á flugsamgöngum og við Íslendingar er tæpast sæmandi að ráðstafa ekki hærri fjárhæðum í þennan málaflokk á hverju ári en raun ber vitni. Vonandi förum við á næstu árum að verja meira fé til þessara mála. Þá kann svo að fara innan tiltölulega fárra ára að ekki verði deilt um einn stað eða tvo, að við höfum þá e.t.v. möguleika á því að gera nokkra flugvelli á mismunandi landsvæðum svo úr garði að þeir geti þjónað varaflugvallarhlutverki.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. gangi til hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.