02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mönnum hefur lengi verið ljóst að í því gæti falist aukið öryggi í samgöngum Íslendinga að komið væri upp varaflugvelli og að það gæti orðið mikið hagkvæmnismál fyrir íslensk flugfélög. Hins vegar hefur alltaf blasað við að fagleg sjónarmið hlytu að ráða því hvar flugvöllurinn yrði staðsettur og um langt skeið hafa augu manna í vaxandi mæli beinst að því að Sauðárkróksflugvöllur komi í því tilliti til greina.

Ég hef hins vegar ævinlega lagt á það þunga áherslu að í þessu máli yrði fyrst og fremst að miða við íslenska hagsmuni og ég harma að í seinni tíð er farið að blanda inn í þetta mál þeim möguleika að fengið verði fé frá NATO til þessara framkvæmda. Auðvitað er það svo ljóst sem verða má að ef fé er fengið frá Atlantshafsbandalaginu til þessara framkvæmda breytir málið um eðli. Það eru börn sem ekki sjá það.

Það er samstaða um það heima fyrir og ég hef tekið eftir því að það er meðal manna úr öllum flokkum að ef flugvöllurinn við Sauðárkrók á að breytast í hernaðarmannvirki vilja menn frekar án þess vera. Til eru þeir sem ímynda sér að hægt sé að fá fé frá Atlantshafsbandalaginu án þess að Atlantshafsbandalagið hafi nokkur sérstök not af flugvellinum. Ég held að þar sé um mikla skammsýni að ræða. Gjafir eru ekki gefnar yfirleitt af slíkum aðilum án endurgjalds. Við skulum forðast að víkka út yfirráðasvæði bandaríska hersins hér á Íslandi. Og ég veit að Norðlendingar allir frábiðja sér að hernaðarflugvöllur verði reistur í Skagafirði.