02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. 1. spurningu hv. þm. um lokun sjúkrahúsa er því að svara að sjúkrahúsin í Reykjavík hafa orðið að loka deildum eða draga úr starfsemi um stundarsakir, en minna hefur verið um slíkt úti á landsbyggðinni. Í Landspítalanum hefur endurhæfingardeild með 23 rúmum verið lokuð um nokkurra mánaða skeið, um 7-8 mánuði, og í Borgarspítala eru 26 rúm ekki í notkun. Þetta er samkvæmt upplýsingum sem fengnar voru frá framkvæmdastjóra Borgarspítala í morgun. Þessi rúm í Borgarspítalanum eru á tveim handlækningadeildum og tveim öldrunardeildum. Þar er því engin heil deild lokuð heldur má segja að dregið hafi verið úr starfsemi á þeim fjórum deildum sem hér hafa verið nefndar. Sex rúm í hvorri deild hafa ekki verið tekin í notkun af þeim sem heimilt er að hafa þar.

Spurning nr. 2 er: „Hvaða ástæðu telur ráðherrann liggja að baki skorti á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á sjúkrahúsum?"

Þessari spurningu hafa margir reynt að svara með því að geta sér til og stundum heyrir maður úr ýmsum hornum afar einföld svör og telja að hér liggi að baki ein einföld ástæða. Ég tel ekki að svo sé. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að fyrir liggi allverulegar kannanir á því hvað stéttirnar telja sjálfar um þetta atriði og á hvern átt orsakirnar tengjast saman. Þess vegna var það að Hjúkrunarfélag Íslands og Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga hafa látið gera kannanir um meginástæður fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum til starfa og heilbrmrn. hefur styrkt þessi félög lítið eitt til þessara kannana. Ég tel að þetta sé nauðsynlegt til að undirbyggja kjarabaráttuna með faglegum hætti og tel að þessi félög eigi heiður skilið fyrir að standa þannig að þessum málum.

Hjúkrunarfélag Íslands gerði sína könnun fyrir þremur árum og ráðuneytið styrkti það þá nokkuð. Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga gerði sína könnun á s.l. ári og fékk einnig styrk frá ráðuneytinu til þess arna. Báðar þessar kannanir leiddu í ljós að meginástæða var talin vera lág laun. - Ég tel ástæðurnar í þeirri röð sem talið var að vægi þeirra væri. - Síðan kom óreglulegur vinnutími. Þriðja meginástæða var að starfið samræmdist illa heimilisstörfum, vinnuálag væri mikið og víða væri skortur á barnagæslu. Ég bendi á í þessu sambandi að könnun Hjúkrunarfélags Íslands var birt í tímariti félagsins, Hjúkrun, frá árinu 1984. Könnun Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga hefur ekki verið birt enn þá. Jafnskjótt og ég fæ hana í hendur er ég fús til þess að láta fjölfalda hana og afhenda hv. þm. hana. Ég tel að hér sé um mál að ræða sem hefur svo mikla þýðingu að nauðsynlegt sé að átta sig á öllum þáttum þess.

Þótt ekki hafi verið gerðar jafnítarlegar kannanir á meðal sjúkraliða hefur af ráðuneytisins hálfu verið reynt að kanna þetta með fyrirspurnum til þeirra hópa á stofnunum víða um land og svo virðist sem útkoman sé svipuð þar. En eins og mönnum er kunnugt er yfirgnæfandi meiri hluti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða konur sem þurfa að sjá um heimilishald og barnauppeldi. Margar hverfa frá starfi um stundarsakir vegna ungra barna, það er auðvitað einn þáttur skýringarinnar á því að þær eru ekki allar í starfi samtímis og síst í fullu starfi í sínu fagi, en aðrar minnka við sig starf um skemmri eða lengri tíma. Það mun vera rúmlega 1% af körlum í stétt hjúkrunarfræðinga og svipuð hlutfallstala meðal sjúkraliða.

Í þeirri von að hv. þm. geri einhverja athugasemd sem ég þarf að gera athugasemd við mun ég láta þessu lokið í bili. Ég kem þá svari við 3. spurningunni að sem athugasemd.