02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

131. mál, heimilisfræðsla

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi biðja forseta að láta athuga hvort hæstv. menntmrh. er ekki í húsinu ef hann vildi gera því málefni sem hér er á dagskrá þann heiður að vera viðstaddur þessa umræðu.

Ég kem hingað til þess að taka undir efni þessarar tillögu og lýsa stuðningi við hana. Það sem hér segir í grg. með tillögunni um starfsemi og hlutverk húsmæðraskólanna er síst ofmælt. Þessir skólar eru að mínum dómi beinlínis ávöxtur kvennabaráttunnar um aldamótin síðustu og þeir hafa gegnt ómetanlegu fræðslu- og menningarhlutverki um margra áratuga skeið. Það ber ekki vott um mikinn skilning né virðingu fyrir því hlutverki að lata þessa skóla nú daga uppi eins og hver önnur nátttröll í stað þess að sýna þeim fullan sóma og ætla þeim áframhaldandi hlutverk í takt við nútímann.

Ég veit ekki hvort hv. alþm. og allur almenningur gera sér fyllilega grein fyrir áhrifum húsmæðraskólanna á menningu þjóðarinnar og þjóðlífið yfirleitt en þau áhrif hafa sannarlega ekki verið lítil. (Forseti: Ég hef látið athuga hvort menntmrh. sé í húsinu og hann er ekki hér.) Ég sé samt ekki ástæðu til þess að biðja um frestun á þessari umræðu en vona að hæstv. menntmrh. kynni sér hana.

Það vill svo til að sú sem hér stendur getur talað af nokkrum kunnugleika um starfsemi húsmæðraskóla enda að nokkru leyti uppalin í einum slíkum þótt ekki hafi þar verið um nám að ræða. Þennan umrædda skóla lagði hæstv. menntmrh. niður í haust með einu pennastriki. Ég man vel þegar þessi skóli var að fyllast á haustin námsmeyjum úr öllum landshlutum, oft uppburðarlitlum og óöruggum, og ég man þegar þær, oftast gjörbreyttar manneskjur, voru að kveðja á vorin og pakka niður öllu sem þær höfðu unnið um veturinn. Það var ekki lítið af saumuðum, prjónuðum og ofnum munum sem enn þá prýða heimili vítt og breitt um landið. En menn skyldu ekki halda að þær hafi eingöngu lært að elda, sauma, prjóna og vefa. Þær lærðu einnig íslensku, heilsufræði, næringarfræði, uppeldisfræði, bókfærslu og ótal aðra hluti sem koma sér vel í lífsbaráttunni. Ég man sérstaklega eftir lítilli bók sem hét því skemmtilega nafni „Hvernig fæ ég búi mínu borgið?" Ég fletti þessari bók oft sem krakki, sérstaklega vegna skemmtilegra mynda, og nú er mér orðið ljóst að þarna hefur væntanlega verið að finna stefnu hinnar hagsýnu húsmóður sem áreiðanlega hefur bjargað mörgu heimilinu frá örbirgð. Líklega hefðu stjórnendur ríkisbúrekstrarins gott af því að lesa þessa ágætu bók.

Nemendur húsmæðraskólanna bjuggu sig undir það sem beið þeirra flestra og bíður okkar flestra enn, þ.e. meðgöngu, fæðingu og uppeldi barna. Ég veit svei mér ekki hvort slíkt er nokkurs staðar kennt nú til dags á sama hátt og í þessum skólum og ég hef oft velt því fyrir mér hversu fáránlegt það er að krefjast sérmenntunar í þessu og hinu og prófa og réttinda til allra hluta og enginn er maður með mönnum nema hafa eitthvert próf og stúdentspróf er algjört lágmark. En langflestir fara í gegnum þetta allt saman án þess nokkurn tíma að vera leiðbeint um fjölskyldumál eða uppfrætt um einföldustu atriði við heimilisrekstur eða svo mikið gefið í skyn að samlíf leggi einhverjar skyldur á herðar og barneignir og barnauppeldi krefjist e.t.v. einhvers annars en eðlisávísunar. Slík fræðsla er a.m.k. fyrirferðarlítil á námsskrám almennra skóla, telst líklega ekki gagnleg. Það krefst engra prófa né réttinda að annast heimili og börn enda ólaunuð störf. Og nám sem ekki leiðir til einhverra starfsréttinda laðar ekki að sér nemendur nú á tímum. Það er fyrst og fremst orsök þess hvernig nú er komið fyrir húsmæðraskólunum í landinu, þessum miklum menningarstofnunum.

E.t.v. á eðlislæg hógværð kvenna sinn þátt í því hvernig komið er. Það vantar a.m.k. ekki að húsmæðrakennarar og húsmæðraskólastjórar og skólanefndir og kvenfélagskonur hafa séð hvert stefndi með húsmæðraskólana. Það eru orðin um 20 ár og sums staðar jafnvel aldarfjórðungur síðan fór að draga úr aðsókn í þessa skóla sem síðan hafa verið lagðir niður einn af öðrum illu heilli í stað þess að aðlaga þá kröfum nútímans.

Á liðnum árum hefur öðru hverju í fullri hógværð verið knúið dyra í menntmrn. með tillögur og óskir um endurskipulagningu húsmæðrafræðslu og skólastarfs á þessum vettvangi, en að því er virðist talað fyrir daufum eyrum. E.t.v. var ekki knúið nógu fast. Einum þætti skólastarfs í landinu virðist því hér með lokið án mikillar eftirsjár í ráðuneyti. Á sama tíma er heimilisfræðsla í grunnskólum algerlega í molum. Dóttir mín, sem komin er í 7. bekk, hefur fengið þrjár kennslustundir í heimilisfræðslu alla sína skólatíð, þrjár kennslustundir, og eldri bræður hennar eitthvað svipað. Slíkur er nú sóminn sem þessari námsgrein er sýndur. En nú er þetta ákaflega misjafnt. Maður hefur svo sem séð kennslustofur í grunnskólum úti um landið, sem eru mjög vel búnar, og fengið af því fregnir að þar sé þessu sinnt af alúð. En því miður er þetta námsgrein sem er oftast skorin niður fremur en ýmislegt annað.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra þykir þetta viðunandi. Ég hafði hugsað mér að eiga við hann orðastað hér en hann er horfinn af vettvangi. Hann hefði vafalaust svarað því neitandi, að honum þætti þetta ekki viðunandi og vísað til svars síns á þskj. 197 um nefndarstörf sem sagt er að byrjað hafi á þessu hausti.

Í fyrirspurnatíma nýlega var drepið á þessi mál og mér blöskraði, satt að segja, máttleysi þeirra umræðna og get ekki sagt að ég hafi orðið nokkru nær um áform stjórnvalda í þessum efnum nema að innlegg hæstv. ráðherra hafi gert mig heldur svartsýnni á framtíð þessa fræðsluþáttar í höndum ráðherra þrátt fyrir fyrrnefnt svar hans við fsp. hv. þm. Þórarins Sigurjónssonar sem ég vitnaði til hér áðan.

Ég vonaðist til þess að geta fengið frekari svör frá ráðherra núna þar sem mér þótti svo lítill fengur í svörum hans við fsp. hv. 4. þm. Reykn. hér í fyrirspurnatímanum en það er svo lítið eða raunar ekkert svigrúm til skoðanaskipta í fyrirspurnatíma svo að ég geymdi mér að lýsa frekar eftir viðhorfum og áformum hæstv. ráðherra. Það tækifæri gefst því miður ekki núna.

En, herra forseti, það er alls ekki vansalaust hvernig látið hefur verið reka á reiðanum með þennan fræðsluþátt í skólakerfinu, húsmæðraskólarnir látnir daga uppi og almenn heimilisfræðsla í grunnskölum skammarlega vanrækt. Tillagan á þskj. 137 er því fyllilega tímabær tillaga. Ég vil hvetja hv. alþm. til að kynna sér efni hennar og hugsa alvarlega um þessi mál og ég skora á hæstv. menntmrh. að taka rösklega á málinu og láta ekki við neitt fuður sitja.