02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

195. mál, leiguhúsnæði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það liggur nú fyrir samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Félagsvísindastofnunar að 93-94% af ungu fólki í landinu vill fá að eiga sína íbúð sjálft. (SV: Ef það getur.) Ef það getur. Minn málflutningur hefur verið sá, og ég vil ítreka hann, að við eigum að koma meira til móts við það fólk sem vill leggja það á sig að eignast sína íbúð. Við eigum að gera það og við eigum ekki að níðast á því fólki til þess að gera meira en góðu hófi gegnir fyrir hina sem, eins og hér segir í till., „vilja fremur leigja en að glíma við afborganir og vexti“.

Það er alls ekki rétt hjá hv. 11. þm. Reykv. að í þessari till. sé einungis verið að tala um þá hópa sem ég nefndi áðan og ber fyrir brjósti, þ.e. námsmenn, aldraða og öryrkja. Það er ekki rétt. Það er líka í þessu verið að tala um aðra þá sem ekki vilja, og í því felst auðvitað að þeir hafi getu til en vilja ekki. Ef þetta er rangt þá hefur slæðst inn prentvilla í grg. þessarar till. og þá er rétt að Kvennalistinn láti leiðrétta það. En hér stendur, og ég ítreka, herra forseti, efst á bls. 2: . . . „og svo loks þeir sem vilja fremur leigja en að glíma við afborganir og vexti.“

Ég vil segja líka að ég misskildi framsöguræðuna. Mér fannst á framsöguræðunni og grg. að hugmyndin væri sú að ríkissjóður ætti að leggja þetta fé fram sem óafturkræft fé til leiguíbúða - sá er nú vaninn þegar talað er um að ríkið leggi fram fé sem ég þóttist hafa séð þar í þessu. „Verði varið 250 millj. kr. á núgildandi verðlagi til þessa verkefnis á ári hverju þar til þörfinni hefur verið fullnægt.“ Þetta skilur maður náttúrlega með þeim hætti að hér sé verið að tala um óafturkræft fjármagn. En eftir því sem umræðurnar koma fram virðist hugsun hv. flm. vera sú . . . (SV: Ekki skil ég hana þannig.) ég skil það þannig því að ég man nú ekki eftir því að till. af þessu tagi um hækkaðar fjárveitingar samkvæmt fjárlagafrv. til Húsnæðisstofnunar sé flutt með þáltill. í þinginu. Ef menn vilja auka fjárframlög til Húsnæðisstofnunar, til Byggingarsjóðs verkamanna þá er vaninn sá að það sé gert einfaldlega með brtt. við fjárlagafrv. og heimilt er samkvæmt þingsköpum að flytja slíka brtt. strax, að ég ætla, meðan fjárlagafrv. liggur fyrir. - Er það ekki rétt, herra forseti? Þannig að það hefði þá verið hin eðlilega málsmeðferð ef fyrir flm. vakti einungis að auka það fé sem Byggingarsjóður verkamanna hefur til ráðstöfunar. Þetta er rétt eins og þegar Alþfl. er að flytja brtt. við lög um tekju- og eignarskatt í formi brtt. við fjárlagafrv. Það er hvort tveggja marklaust með öllu. Hins vegar getur þetta lýst ákveðnum vilja þm. og hefði þá verið skýrara að segja: að auka framlög til Byggingarsjóðs verkamanna sem þessu nemur, þannig að ekki hefði komið til þessi misskilningur.

Í sambandi við skortinn á leiguhúsnæði úti á landsbyggðinni. Í þessari grg. er sérstaklega talað um þrjár stéttir, þ.e. kennara, lækna og presta. Nú er það svo um presta að þeir hafa sérstakt prestssetur sem er í eigu ríkisins. Læknar hafa margir líka sitt húsnæði og kennarar við heimavistarskóla sömuleiðis, nema fyrir flm. vaki að ríkið taki upp þá almennu stefnu að sjá kennurum fyrir leiguhúsnæði. En þá spyr ég eins og hv. síðasti ræðumaður: Hvað þá um verkamennina, um sjómennina og aðra sem búa á hinum smærri stöðum?

Kjarni málsins er í mínum huga þessi: Okkur hefur ekki tekist á undanförnum árum að sinna húsnæðismálunum sem skyldi. Það tókst á síðasta þingi að stíga stærra skref í þeim efnum en kannske hefur verið stigið nokkru sinni fyrr í einu lagi. Það tókst að hækka lánin svo að þau eru nú komin upp í 2,3-4 millj. hjá þeim sem enga íbúð eiga. Þessir peningar eru lánaðir til 43 ára sem er að minni hyggju stærsta skref sem stigið hefur verið í einu lagi. Á sama tíma og þetta kemur fram rignir yfir þingið brtt. þess efnis að nú eigi að gera betur, nú eigi að lána 100% fyrir æ stærri fjölda og er ég þá með tillögur Alþfl. í huga. Eftir ræður ykkar áðan skilst mér að þið viljið halda ykkur við 80% og að þau samtök sem byggja vilja leiguíbúðir verði þá að leggja til 20%. Er það réttur skilningur? (Gripið fram í.) Það er réttur skilningur, já. Þá eruð þið að tala um þau 20% og bjóðið þá að því leyti ekki jafnvel og Alþfl. og er það út af fyrir sig viðurkenning á því að opinbert fjármagn er þó ekki endalaust hér.

Ég tek undir það sem fram hefur komið og vil leggja á það ríka áherslu að ég tel að námsmennirnir hafi orðið mest út undan á síðustu árum. Ég held að það sé okkur til vansæmdar hversu illa er að stúdentagörðunum búið og ég vil leggja mikið á mig til þess að í kringum Háskólann geti risið myndarlegri stúdentagarðar en nú er og þess vegna voru mér það vonbrigði þegar ég sá í úttekt um leiguhúsnæði að einungis var gert ráð fyrir 50 íbúðum fyrir háskólastúdenta á ári hverju næstu þrjú árin.

Hitt er svo aftur alveg deginum ljósara að þörfin fyrir leiguhúsnæði minnkar jafnt og þétt fyrir þá borgara sem komnir eru út á vinnumarkað, sem eru farnir að spreyta sig í lífsins skóla, hinn almenna borgara, um leið og okkur tekst að auka það lánsfé sem við veitum hinum almenna borgara, manninum eða konunni á götunni. Ég taldi það mikið að við skyldum geta farið upp í 70% á þessu ári, 2,3-4 millj. á íbúð, ef við erum að tala um notað húsnæði, þá 70% af því. Ég taldi þetta mikið stökk og hef ekki viljað lasta það, enda greinilegt að með svo miklu lánsfjármagni, framboði á lánsfé, að ef það er að fullu nýtt þá erum við að binda bagga framtíðinni eins og lánamarkaðurinn er núna. Og þó við tölum um 3,5% vexti af þessum lánum - hér er verið að tala um 1% - þá mun það taka í ríkissjóð að standa undir vaxtamuninum, greiðslunum til lífeyrissjóðanna sem fá 6,5% en við tölum um 3,5% vexti til þessa fólks.

Ég hef orðið var við þennan mikla áhuga. Það væri afskaplega fróðlegt ef við létum reikna það út hvað það mundi kosta ríkissjóð á hverju ári ef við gerumst svo djörf að fara niður í 1% vexti af þessu fé, ef við bjóðum það fram. Hvað erum við þá að binda stóra bagga? Hvað verða klyfjarnar þungar sem við erum að binda framtíðinni? Hvað ætlum við því fólki sem nú er að vaxa upp í landinu að standa þannig undir miklum niðurgreiðslum á vöxtum? Þetta mál er ekkert einfalt.

Ég tek mikið mark á könnun Félagsvísindastofnunar. Í þeirri könnun kom líka fram að langsamlegur meiri hluti af þessu fólki, einhvers staðar ef ég man rétt í kringum 80 eða jafnvel 90%, sagðist vera reiðubúið að leggja mikið á sig til þess að eiga sitt húsnæði sjálft. Ég held þess vegna að við ættum hér í þinginu að reyna að ná breiðu samkomulagi um það hvernig við getum komið til móts við óskir þessa framsækna fólks sem lifir við þá hugsjón að þjóðfélagið eigi ekki að bjóða því upp á verri kjör en það hefur boðið foreldrum þess, sem sé að það megi láta sig dreyma um það að ráða sínum húsum, vera kóngar í sínu ríki eða drottning á sínu heimili og geta sjálft án þess að spyrja aðra gert einfalda hluti sér til hagsbóta á húsnæðinu, lagað í kringum sig og allt þetta sem hver og einn vill gera. Það er ekki bara mannskepnan. Það eru til allrar hamingju öll dýr merkurinnar með því gerð að vilja hafa sem frjálsastar hendur um það hvernig það býr að sér og sínum og við eigum einmitt að gera það og ekki vera feimin við að mæta unga fólkinu einmitt þar. Mæta því þar sem það vill helst að við mætum því. Mæta því með því að gera því kleift að eignast húsnæði eins og við eigum sjálf.