03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

209. mál, sjómannadagur

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er komið fram um frídag sjómanna. Það er í því sá hryggur sem þarf til þess að íslenskum sjómönnum sé sýndur fullur sómi og er það eitthvað annað en sú tillaga sem var hent hingað inn á s.l. ári allsendis hrárri um sama mál.

Það má segja að íslenskir sjómenn hafi löngum verið værukærir yfir ýmsum félagslegum hagsmunamálum sínum og það sýnir sig kannske best í þessu máli því það var í rauninni ekki fyrr en á s.l. vori, þegar sjómannadagurinn stangaðist á við kjördag, að menn tóku við sér og vildu fá bót og tryggingu. Þá var að vísu komin í gang vinna hjá hæstv. sjútvrh. og fleirum í málinu og var það vel. En það er fyllilega tímabært að afgreiða þetta mál þannig að það sé ekki aðeins til sæmdar íslenskum sjómönnum heldur íslenskri þjóð.

Ég tel að í þessu frv. sé það svigrúm sem þarf að vera til þess að menn geti stundað veiðimennsku á eðlilegan hátt þótt frídagur sé lögbundinn, svigrúm til siglinga, til gæslu á hafinu og til rannsókna. Það eru þarna atriði sem er sjálfsagt að skoða, svo sem eins og það hvort það þurfi að vera fjögurra vikna fyrirvari á því ef skip ætlar að sigla. Þetta eru tæknileg atriði sem eru smámál í þessu dæmi og á að vera auðvelt að finna flöt á.

Meginmálið er bitastætt og þannig að unnt er að afgreiða það. Ég endurtek að ég fagna sérstaklega að þetta frv. er komið fram því að þarna er um mikið réttlætis- og skyldumál að ræða.