20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

15. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Guðmundur Einarsson.

Skv. almannatryggingalögunum eru öllum nema ellilífeyrisþegum greiddar ekkju- og ekklabætur eftir lát maka. Annars vegar er um að ræða sex mánaða bætur, rúmar 7700 kr. á mánuði í sex mánuði, og til viðbótar tólf mánaða bætur hafi bótaþegi barn yngra en 18 ára á framfæri sínu. Eina undantekningin frá greiðslu ekkju- og ekkilsbóta er að ellilífeyrisþegar 67 ára og eldri fá ekki greiddar þessar ekkju- og ekklabætur.

Það er erfitt að sjá hvaða sanngirni liggur hér að baki að undanskilja ellilífeyrisþega frá greiðslu slíkra bóta.

Í fyrsta lagi má nefna að örorkulífeyrisþegar, sem fá greidda sömu upphæð í lífeyri úr almannatryggingum og ellilífeyrisþegar, fá greiddar ekkils- og ekkjubætur en ellilífeyrisþegar ekki. Ellilífeyrisþegar sem einungis hafa sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga eru stór hópur, en nú 1. sept. s.l. voru það um 9 þús. manns. Það getur því ekki síður verið erfið framfærslu- og fjárhagsstaða hjá ellilífeyrisþegum en öðrum við lát maka.

Í öðru lagi má benda á að tólf mánaða bætur eru greiddar til viðbótar sex mánaða ekkju- og ekkilsbótum ef á framfæri bótaþega eru börn yngri en 18 ára. Samtals nema þessar tólf mánaða bætur um 70 þús. kr. Ellilífeyrisþegar sem hafa börn á framfæri sínu fá ekki slíkar greiðslur heldur við lát maka. Að vísu er um það að ræða að ellilífeyrisþegar fá greiddan barnalífeyri, en þá ber á það að líta að aðrir fá greiddan barnalífeyri til viðbótar þessum tólf mánaða bótum. Því er niðurstaðan sú að almannatryggingakerfið greiðir öðrum óháð tekjum 70 þús. kr. vegna framfærslu barna umfram það sem ellilífeyrisþeginn fær vegna sinna barna við lát maka.

Hér er um mikið misrétti að ræða í tryggingalöggjöfinni í ljósi þess að almannatryggingar eiga að stuðla að fjárhagsöryggi heimilanna þegar slys, sjúkdóma, örorku eða dauðsföll ber að höndum. Skyldur þess eru ekki síst að veita öldruðum afkomuöryggi í ellinni. Ekkju- og ekklabætur eru greiddar óháð tekjum. Þannig getur hátekjumaður fengið úr tryggingakerfinu við lát maka allt að 116 þús. kr., en ellilífeyrisþeganum, sem einungis hefur sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga, eru aftur á móti ekki greiddar ekkju- eða ekkilsbætur við lát síns maka. Það er vitaskuld fráleitt að tryggingakerfið stuðli að slíkri mismunun gagnvart öldruðum, ekki síst þegar málið er skoðað í því ljósi að við sömu kringumstæður, þ.e. við lát maka, getur hátekjumaðurinn fengið á annað hundrað þúsund úr tryggingakerfinu en ellilífeyrisþeginn, sem lítið hefur sér til framfærslu, hefur ekki þennan rétt eða fjárhagslegan stuðning úr tryggingakerfinu við lát síns maka.

Það má benda á sem dæmi að þessar sex mánaða bætur eru um 47 þús. kr. Það gæti veitt ellilífeyrisþega mikinn stuðning, ef t.d. er litið á það að Tryggingastofnunin greiðir ekki útfararkostnað sem oft er ellilífeyrisþegum sem öðrum sem minna hafa úr að spila erfitt að standa undir við lát maka. Slíkar greiðslur, 47 þús. kr., samsvara þeirri upphæð sem fer í útfararkostnað, en það má áætla að útfararkostnaður svari fullum lífeyri ellilífeyrisþega í þrjá mánuði.

Herra forseti. Þessu frv., sem ég hér mæli fyrir, er ætlað að tryggja öldruðum sama rétt að því er ekkju og ekklabætur varðar og öðrum þjóðfélagshópum og verður að vænta að hv. Alþingi sýni þessu máli skilning og leiðrétti það misrétti sem augljóslega er í tryggingalöggjöfnni að því er þennan þátt varðar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. heilbr.- og trn.