04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrst fyrir spaklegar og skemmtilegar umræður. Ég er hins vegar ekki sammála sumum hv. ræðumönnum um gæði þess og nauðsyn þess að reiða sig á erlent fjármagn við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Ég er hins vegar ekki að loka á það að það geti átt rétt á sér í vissum og afmörkuðum tilfellum, síður en svo.

Ég vil gera að umtalsefni hugtakið áhættufjármagn, sem hv. 2. þm. Reykv. og reyndar 5. þm. Reykv. gerðu að umtalsefni. Þetta hugtak, áhættufjármagn, eins og það er sett fram og notað af þeim, er merkingarleysa. Hér er um gróðafjármagn að ræða, það mætti fremur kalla það gróðafjármagn eða gróðavonarfjármagn. Það er fjármagn sem eigendur þess eða umráðamenn vonast eftir að renti sig sem hraðast, renti sig hraðar en með venjulegri bankaávöxtun. Þetta fjármagn kemur ekki til okkar í neinu góðgerðarskyni eða til þess að taka neina sjensa í íslensku atvinnulífi. Þetta fjánnagn kemur til Íslands til þess að aukast þar og margfaldast. Áhættan er hins vegar venjulega Íslendinga megin. Það má miklu fremur segja að vasapeningar hv. 2. þm. Reykv. séu áhættufjármagn því að þeir renta sig ekki nærri því alltaf enda er þar tekin töluverð áhætta.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á tillöguflutning flokksbróður míns, hv. varaþm. Björns Líndals, þar sem hann flutti till. til þál. um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Þessi till. til þál., ef ég man rétt, hljóðaði upp á það að fela ríkisstjórninni að láta semja frv. til l. um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi og það er ekki nema gott eitt um það að segja. Þessi löggjöf þarf ekkert endilega að vera til rýmkunar. Hún getur orðið til þrengingar, en af hinu góða er að fá reglur um þetta sem hægt er að starfa eftir.

Ég tel að það sé rétt að setja lög um það tiltekna atriði sem Björn Líndal gerði að umræðuefni, þ.e. fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum, þröng eða rúm eftir atvikum og eftir vilja þingsins. Ég tel jafnframt rétt og enn brýnni nauðsyn bera til að setja lög um fjármögnunarfyrirtæki. Hér er um nýtt svið að ræða sem er okkur að nokkru leyti framandi og þessi lög þurfa fremur að vera til aðhalds frá núverandi stjórnleysi heldur en til að auka á það. Það er verst að láta málin þróast stjórnlaust eins og þau gera í dag. Hér hefur enginn hugmynd um það hvað er í eigu Íslendinga og hvað er í eigu útlendinga. Það hefur enginn hugmynd um það að hve miklu leyti þessi fyrirtæki hafa fótfestu í íslensku athafnalífi.

Ég tel að þó að hér hafi orðið nokkur meiningarmunur um erlent fjármagn, kosti þess og galla, séu menn í stórum dráttum sammála um það að skynsamlegt sé að setja lagaramma um fjármögnunarfyrirtækin. Fyrir það er ég þakklátur, herra forseti, og lýk máli mínu.