20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að fagna umræðu sem fer inn á þetta svið, hvort sem það er í sambandi við þetta frv. eða önnur. Við þurfum að hefja hér á Alþingi miklu meiri umræðu um þennan þátt í okkar þjóðfélagi, þ.e. réttindi heimavinnandi fólks. Það hefur komið fram og er staðreynd að á mörgum sviðum nýtur það ekki þeirra réttinda sem þjóðfélag eins og okkar á að veita slíku fólki fyrir utan að allir viðurkenna heilum huga að fjölskyldan er grunneining þjóðfélagsins, eins og hér hefur komið fram og er í grg. Þetta eru allir sammála um, en því miður vantar mikið á að viðhöfð sé eðlileg meðferð á þessu þýðingarmikla máli.

Mér finnst ástæða til að rifja aðeins upp að eins og getið hefur verið í umræðunni hafa mál þessi oft komið til umræðu á hv. Alþingi. Ég minni á að ég ásamt fleirum í mínum flokki flutti þáltill. fyrir nokkru árum um fjölskylduvernd þar sem allir þættir þessara mála voru upp taldir, þar á meðal full lífeyrissjóðsréttindi heimavinnandi fólks, tryggingabótaréttur o.s.frv. og eins vernd barna og unglinga. Þetta mál fékk nokkra umræðu, en var svæft þannig að það var ekki lifandi áhugi fyrir því.

Ég man eftir því 1980, þegar lögin um fæðingarorlof voru sett, að ég flutti brtt. við þau lög um að það væri ekki verið að mismuna fæðandi konum í landinu, hvort sem þær væru heimavinnandi eða úti á vinnumarkaðnum. Þær fengju allar jafnhátt fæðingarorlof. Þetta var snarlega drepið á hv. Alþingi. Það sem mér þótti sorglegast var að konur sem þá voru á þingi börðust gegn þessu sem kom mér algerlega í opna skjöldu. Mér fannst að það væri skrýtið að þær skyldu tala gegn þessu þýðingarmikla máli, að allar fæðandi konur í landinu nytu sama réttar. En staðreyndin var samt sú að þetta fór þannig hér á Alþingi 1980.

Ég vil segja að hjá hæstv. heilbrrh. er væntanlega á lokastigi endurskoðun laga um fæðingarorlof og við eigum von á því væntanlega að fá að sjá það frv. Það er á málaskrá ríkisstjórnarinnar á þessu þingi og ég vona svo sannarlega að hægt verði að ná samkomulagi um það mál og jafna þetta sjálfsagða réttlætismál og auka þessi réttindi hjá konum.

En ég kom upp til að benda á að það er fleira en þetta. Við höfum horft á það ár eftir ár að í gegnum okkar fullkomna, skulum við segja, eða a.m.k. fyrirferðarmikla tryggingakerfi njóta heimavinnandi konur, húsmæður, ekki þeirra sjálfsögðu réttinda að fá jafnháar slysabætur og annað fólk og fleiri slík réttindi. Hvers vegna? Það er oft rætt um þetta hér í vandlætingartón þegar verið er að ræða um tryggingamál almennt og tryggingabætur, en það vantar alltaf herslumuninn á að þessu sé kippt í lag. Hvers vegna? Vegna þess að það eru svo margir af ráðamönnum þjóðarinnar hverju nafni sem nefnast sem alls ekki hafa þann skilning að þetta fólk þurfi að njóta sömu réttinda og aðrir í þjóðfélaginu þrátt fyrir, eins og hér hefur komið fram, að þetta eru um 25% af skapandi fólki sem starfa á þessum vettvangi.

Ég bendi á þetta um leið og ég fagna því að svona frv. kemur fram því að það tekur á stórum hluta af þessu vandamáli sem væntanlega allir eru sammála um að verður að takast á við á raunhæfan hátt þannig að eitthvað komi út úr því. Ég segi í sambandi við lífeyrisréttindamálin almennt að eitt aðalatriðið í t.d. nýju húsnæðislögunum sem eru komin í gildi er lífeyrissjóðsréttindin og það mikla fjármagn sem kemur frá lífeyrissjóðunum til að fjármagna húsbyggingar í landinu. Það opnar augu manna fyrir því hvað það er þýðingarmikið að allir landsmenn, í hvaða stétt, stöðu eða starfi sem þeir eru, njóti sama réttar á þessum vettvangi eins og öðrum. Þess vegna vil ég endurtaka að ég tel að frv. eins og það sem hér er lagt fram eigi að opna augu manna fyrir því að það þarf að takast á við þessi mál og reyna að finna skynsamlegar leiðir til að leysa þau.