08.12.1986
Efri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera efni þessa frv. að innihaldi minnar ræðu hér. Ég ætlaði eingöngu að beina einni fsp. til hæstv. fjmrh. í tilefni frv. Heyrst hefur m.a. í tengslum við þá samninga sem tókust uppi í Garðastræti um helgina að til standi að breyta nokkuð lögum um tekjuskatta, þannig m.a. að draga úr frádráttarliðum og einfalda skattheimtuna eins og það hefur verið kallað. Því vildi ég fá að heyra hjá fjmrh., ef hann á annað borð getur á þessu stigi um það sagt, hvaða fyrirætlanir eru uppi um frádráttarliði eins og þessa vegna fjárfestingar, hvort meiningin er að þeir haldi sér ef frádráttarliðir verða einfaldaðir eða hvort ætlunin er að halda frádráttarmöguleikum sem þessum inni í tekjuskattslögum.