10.12.1986
Efri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

231. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins fáein orð um þetta frv., en um leið og almannatryggingar í heild sinni koma hér á dagskrá gefur það tilefni til þess að grennslast nokkuð fyrir hjá hæstv. ráðh. um líklega þróun tryggingamála, kannske sérstaklega tryggingabóta þó fyrst og síðast, þó ég viti að hæstv. ráðh. hafi í nógu að snúast þessa dagana og á honum hvíli býsna miklar annir af öðru tilefni.

Um þetta mál má segja að hér er um þarfa leiðréttingu að ræða. Ég þekki til dæma. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þau eru ekki mörg, en þau eru þeim mun tilfinnanlegri þegar komið er að luktum dyrum í kerfinu og ekki er hægt að afgreiða þessi mál. Út af fyrir sig fagna ég því þessari leiðréttingu.

Ég vil svo segja um það að þetta vekur að sjálfsögðu upp þá hugsun hjá okkur, sem hefur komið upp öðru hvoru, hvernig líði heildarendurskoðun þess viðamikla og þýðingarmikla málaflokks sem almannatryggingar eru. Nefndir hafa verið að störfum sem hafa átt að sjá um þessa heildarendurskoðun, en það er eins og starf þeirra hafi í gegnum tíðina að mestu leyti gufað upp, en hins vegar verið tekin einstök atriði út úr og leiðrétt. Ég tek það fram að auðvitað er sjálfsagt að sníða af, eins og hér er verið að gera, einstaka agnúa á tryggingalöggjöfinni, en það er líka jafnnauðsynlegt að fara yfir heildardæmið, samræma þessa löggjöf enn betur, tryggja virkari og betri framkvæmd. Þetta snertir svo marga og svo mikið að við þurfum virkilega að fara yfir þessi mál í heild sinni.

Hér hefur verið á hv. Alþingi flutt af hv. varaþm. Þórdísi Bergsdóttur sérstök till. um að fram fari heildarendurskoðun á almannatryggingamálum. Auðvitað er þörf á því að þessi lög séu sífellt í endurskoðun og þarf ekki að fara frekar út í það.

Í grg. frv. er minnt á þær bótaupphæðir sem nú eru í gildi, þ.e. sem voru í gildi í nóvember, þær hafa nú tekið breytingum, og tekið fram að elli- og örorkulífeyrir að viðbættri tekjutryggingu sé í nóvember 15 209 kr., en síðan hefur eins og allir vita orðið hækkun á því um 4,59%. Hins vegar vekja nýgerðir kjarasamningar upp nokkrar spurningar um framhaldið. Það er t.d. vitnað til þess í samkomulagi sem gert hefur verið um þessi mál að bætur almannatrygginga fylgi almennri launaþróun. Það segir að vísu ekki mjög mikið eða mjög ákveðið um hvað það skuli vera. Ég hef þær upplýsingar t.d. frá Þjóðhagsstofnun nú að almenn launahækkun, og þá er að sjálfsögðu átt við meðaltal frá upphafi til loka þessa árs, sé um 35% og er nokkru hærra en fyrri spár Þjóðhagsstofnunar höfðu gert ráð fyrir að meðalhækkun launa yrði, en þetta eru nýjustu spár þeirra, að sú hækkun verði 35%. Ég man í haust eftir því að þá upplýsti hv. þm. Geir Gunnarsson við umræðu um fjárlög að bætur almannatrygginga mundu hækka um tæp 15% á þessu ári og þar af leiðandi um 17% eftir þessar tvær aukaprósentur núna 1. des., ef ég skil rétt. Þarna er þar af leiðandi talsverður munur á þeirri meðaltalslaunaþróun sem orðið hefur í landinu og hækkun almannatryggingabóta hins vegar.

Í efnislega umræðu á ekki að þurfa að fara hér. Það hlýtur að verða gert við umræðu um fjárlög vegna þess að þar verða ákvarðaðar, a.m.k. eitthvað, þær upphæðir sem fara til lífeyristrygginga í landinu. Ég sé því ekki ástæðu til að fara náið út í þær hér. En í nýgerðum kjarasamningum var það aðaleinkenni þeirra að lágu launin væru í forgangi. Hér er um lægstu greiðslur í landinu að ræða í sambandi við þá sem eru eingöngu með elli- og örorkulífeyri plús tekjutrygginguna. Í framhaldi af því hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðh., þegar mál af þessu tagi kemur á dagskrá sem snertir almannatryggingarnar, hver þróun bóta verði á næstunni, bæði í ljósi launaþróunar á þessu ári og ekki síður í kjölfar þeirra kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir og tóku mið af því að hækka lægstu launin og þau eingöngu, og vitum við að við erum að tala varðandi þessar bætur, þó að reynt hafi verið að halda þar nokkuð í í sambandi við hækkanir, lægstu greiðslur í þjóðfélaginu. Þær hljóta þess vegna eðli málsins samkvæmt að taka verulegum breytingum á næstunni og vonandi sem allra fyrst. Ég skýt þessu að hér án þess að ég ætlist til þess að hæstv. ráðh. reiði fram nein endanleg svör um þetta því að það verður örugglega gert við fjárlagaumræðuna, en gott væri að fá einhverjar hugmyndir um hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir, í framhaldi af þeim kjarasamningum sem nú hafa verið gerðir, um almenna hækkun bóta almannatrygginga.